Til höfuðs Simon Anholt

Á vef Viðskiptablaðsins er að finna áhugaverða frétt þess efnis að Mark nokkur Ritzon, sem er prófessor í markaðsfræði, sé væntanlegur til landsins. Hann mun vera helsti gagnýnandi hins geðþekka Simon Anholt sem kom hingað á Viðskiptaþing í byrjun mánaðarins og heillaði gesti ráðstefnunnar upp úr skónum.

Anholt þessi mun vera brautryðjandi á sviði mörkunar þjóða en af frétt Viðskiptablaðsins er greinilegt að hann heillaði ekki alla og hefur því verið gripið til þess ráðs að fá til landsins mann sem á að veita okkur annað sjónarhorn á þessi mál.

Mörkun þjóða er flókið viðfangsefni og eins og með flesta teninga eru til margar hliðar á þessu málefni. Það gæti orðið mjög athyglisvert að fylgjast með framhaldi þessa máls.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Bollu, Sprengi og Ösku

Bolludagur, Sprengidagur og Öskudagur. Sem barn hlakkaði maður alltaf mikið til þessara daga, þá sérstaklega Öskudag sem áður fyrr var frídagur frá skóla. Eflaust kannast einhverjir við þetta en staðreyndin er sú að þessi tilhlökkun virðist ekkert dvína þótt maður sé kominn í fullorðinna tölu. Nú er Öskudagur reyndar lítið að hlakka til, nema þá fyrir að flestum finnst gaman að senda börnin grímubúin í leikskóla og skóla.

Einnig virðist bollulystin dvína eftir því sem við verðum eldri en í mínum huga er Sprengidagur einn skemmtilegasta hefð okkar Íslendinga. Þá belgir maður sig út af dýrindis saltkjöti, kartöflum og rófum og flestir renna því niður með baunasúpu. Auðvitað getum við borðað saltkjöt alla aðra daga ársins en það er einhvern veginn ekki sama upplifunin og að borða saltkjöt á Sprengidag, þessu má kannski líkja við að borða páskaegg á haustin. Svona er nú mannskepnan skrítin.

Sprengidagur er síðasti dagur fyrir páskaföstu og því síðasti dagur sem borða má kjöt fyrir páska. Þeir eru sennilega ekki margir hér á landi sem halda föstuna heilaga lengur en það er engin ástæða til þess að hætta að njóta saltkjöts, eða hvað?

Þegar ég fluttist erlendis komst ég að því að við erum ekki eina þjóðin sem heldur upp á Sprengidag, það gera Svíar einnig. Þeir kalla daginn Fettisdagen og troða sig út af ljúffengum rjómabollum, sem nefnast semla. Mér er ekki kunnugt um hvort aðrir haldi daginn hátíðlegan en þykir það líklegt. Gaman væri ef einhver gæti upplýst um það.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Metnaðarfull áform

Það er verðugt verkefni sem borgarstjórinn í Reykjavík hefur tekið sér fyrir hendur, að gera höfuðborgina að skákhöfuðborg heimsins á þremur árum. Þetta eru metnaðarfull áform og óskandi að þau verði að veruleika en við skulum alveg gera okkur grein fyrir því að samkeppnin verður hörð. Skák hefur sennilega aldrei notið jafn mikilla vinsælda í heiminum enda hefur mikið og gott starf verið unnið við útbreiðslu listarinnar/íþróttarinnar/leiksins víða um heim á undanförnum árum.

Skák er ein af þjóðaríþróttum okkar Íslendinga og auðvitað eigum við að vera meðal þeirra fremstu þegar kemur að eflingu skákarinnar.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is

 


mbl.is Skákakademía Reykjavíkur stofnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um blaðamannaverðlaunin

Teiknarinn frábæri Halldór Baldursson er tilnefndur í blaðamannaverðlaunanna fyrir "skop- og ádeiluteikningar sínar og túlkun á fréttnæmum íslenskum þjóðfélagsviðburðum." Mér vitanlega hefur teiknari ekki áður verið tilnefndur til slíkra verðlauna hér á landi, a.m.k. ekki fyrir teikningar sínar en það er gott til þess að vita að dómnefnd Blaðamannafélagsins skuli veita hinu góða starfi Halldórs athygli enda hefur hann náð að festa fót að vettvangi sem áður var nánast í einkaeigu Sigmunds.

Verk Sigmunds eru orðin þjóðargersemi og þess er vart langt að bíða að verk Halldórs komist á sama stall. Ég er þó enn á því að Davíð Logi Sigurðsson sé líklegastur til að hljóta blaðamannaverðlaunin í ár en þau verða afhent á laugardaginn.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Sýnilegri lögregla

Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum þeim sem þarf að kljást við umferðina á álagstímum að lögreglan er orðin mun sýnilegri en áður við umferðareftirlit. Ef ég man rétt boðaði nýr lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins að lögreglan yrði mun sýnilegri en áður og er þetta greinilega liður í því.

Það er fagnaðarefni að lögreglan skuli vera orðin meira áberandi á götunum, það virðist vera eina leiðin til þess að hægja á sumum og koma í veg fyrir að þeir aki almennt eins og vitleysingar. Ég hef t.d. tekið eftir því að það hefur aukist verulega að fólk aki yfir á rauðu ljósi og hef ég heyrt fleiri tala um það. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu mikilli hættu það getur valdið, sérstaklega á álagstímum.

Það eina sem virðist fæla fólk frá hátterni af þessu tagi er aukinn sýnileiki lögreglunnar.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Auðkennisklúður

Öryggisnýjung bankanna, Auðkennislykillinn, hefur farið misjafnlega í fólk, eins og t.d. má lesa í þessari bloggfærslu Páls Vilhjálmssonar. Ég hef svo sem ekkert við það að athuga að bankarnir innleiði þessa nýjung enda hef ég reynslu af notkun svona tækis og geri mér grein fyrir því mikla öryggi sem það færir.

Nefna má dæmi frá Svíþjóð þar sem stærsti bankinn, Nordea, er ekki með svona kerfi en minn gamli viðskiptabanki, SEB, hefur innleitt tæknina. Það er skemst frá því að segja að reglulega berast fréttir af því að netskúrkar brjótist inn á reikninga fólks sem hefur viðskipti sín í Nordea, enda fullt af glufum í öryggiskerfinu, en ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt talað um innbrot í netbanka SEB.

Ég vil hins vegar minnast á frétt Ríkisútvarpsins í morgun þess efnis að auðkennislyklarnir væru búnir. Þetta finnst mér stórmerkilegt og til marks um slæleg vinnubrögð hjá einhverjum. Er bönkunum ekki kunnugt um hversu marga viðskiptavini þeir hafa? Pöntuðu þeir færri lykla í von um að einhverjir myndu hætta að nota netbankann? Vissulega getur verið að einhverjir hafi týnt sínum lyklum eða eitthvað í þeim dúr en það er engin afsökun fyrir fjármálafyrirtækin. Þar á bæ hefðu menn átt að gera ráð fyrir þessu og panta fleiri lykla en netbankaviðskiptavinir eru. Mér finnst sjálfsagt að bankarnir svari fyrir þetta og að miðlarnir gangi á þá, þetta er einfaldlega stórt klúður.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Birta í skammdeginu

Dagur heilags Valentínusar er á morgun, 14. febrúar, en nú á dögum tengja hann flestir ástinni og er hann því gjarna nefndur dagur elskenda. Þessi hátíð hefur löngum átt fylgi að fagna í hinum enskumælandi heimi en það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem við höfum farið að veita honum athygli hér á klakanum.

Margir býsnast yfir því að við Íslendingar skulum vera farin að gera okkur dagamun á Valentínusardeginum, segja að við séum að verða svo amerísk að það hálfa væri yfirdrifið nóg og vissulega má taka undir að áhrif úr Vesturheimi á samfélag okkar verða meiri með hverju árinu sem líða. Ég hef þó tilhneigingu til þess að fagna því að við höldum upp á daga eins og 14. febrúar. Þetta lýsir upp skammdegið hjá mörgum og þá er það vel þess virði.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Salt eða salat

Prentvillupúkinn er illskeyttur gestur sem reglulega heimsækir íslenska prentmiðla. Stundum getur ein prentvilla breytt inntaki heillar setningar og þá oft þannig að það getur orðið frekar bagalegt því eins og við vitum skal aðgát höfð í nærveru sálar.

Yfirleitt eru prentvillur þó bara fyndnar og skemmtilegar og eitt dæmi má finna á forsíðu Fasteignablaðs Morgunblaðsins í dag. Þar er fjallað um Salthúsið, sem er verslun á Grandagarði en í fyrirsögn er talað um Salathúsið.

Salt og salat eru tveir óskyldir hlutir, þótt báðir séu þeir matvara, en það þarf stundum ekki mikið til að breyta salti í salat.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Blaðamannaverðlaunin

Pressudagurinn verður haldinn á laugardag en það er helgasti dagur blaðamanna hér á landi. Þá verður opnuð árleg sýning blaðaljósmyndarafélagsins, sem er alveg stórkostleg enda eigum við frábæra ljósmyndara hér á landi, og síðar um daginn verða Blaðamannaverðlaunin afhent.

Davíð Logi Sigurðsson, blaðamaður á Morgunblaðinu og öflugur bloggari, er tilnefndur og ef mér skjátlast ekki þá er þetta í þriðja sinn í röð sem hann er tilnefndur til verðlaunanna. Þetta staðfestir stöðu hans sem einn allra besti blaðamaður landsins en Davíð, sem að mestu hefur ritað um erlend, hefur verið afar duglegur við að ferðast um átakasvæði heimsins og færa okkur hnitmiðaðar og upplýsandi fréttaskýringar.

Írak, Afganistan og Guantanamo. Allt eru þetta staðir sem hann hefur heimsótt og síðast var hann á Sri Lanka. Umfjöllun hans um ástandið þar verðskuldar að mínu mati blaðamannaverðlaunin.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Ánægjuleg tíðindi

Það er ánægjulegt að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi ákveðið að kaupa ættaróðalið, höllina við Reykjavíkurtjörn. Þetta sýnir okkur að hann sé stoltur af rótum sínum og að hann heldur tryggð við þær. Það er mikilvægur eiginleiki sem ekki allir athafnamenn hafa.

Thors-ættin hefur haft gífurleg áhrif hér á landi og verið í fararbroddi í íslensku samfélagi, þetta held ég að allir geti verið sammála um, og ég held að stjórnmálaskoðanir skipti engu máli um það að menn geti verið sammála um að koma Thors Jensen til Íslands á sínum tíma hafi reynst þjóðinni happadrjúg.

Þegar Björgólfsfeðgar komu inn í íslenskt viðskiptalíf með látum í byrjun aldarinnar má segja að nýr kafli í sögu Thors-ættarinnar hafi hafist og sér ekki fyrir endann á honum.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband