Ágrip af einhvers konar æsku

'Breytum reglunum' + ‘starf, háttvísi, þroski, hamingja’...

Hugsunin í kjörorði ‘GCI Group Iceland’ dagsins í dag – ‘Change Rules’ – 'breytum reglunum’ – hefur í raun verið með mér frá fimm ára aldri og alla tíð ofarlega í huga – eða alveg síðan ég strauk af leikskólanum Sunnuborg í Sólheimum fimm ára.  Ég klifraði yfir hátt og oddhvasst grindverkið og lét leikskólafélaga mína hjálpa mér með því að ýta mér upp svo ég næði að príla yfir beittsagaða spíssana efst á hverri spýtu. Drengurinn lét sig svo hafa það að falla niður á götuna hinumegin og reyndi svo eins og hann gat að rata til föðurömmu sinnar í Álfheimum. ‘Change Rules’. Á hverjum degi aftur og aftur strauk ég úr leikskólanum vegna þess að Bergur frændi minn, sem var ári eldri en ég var hættur og núna var ég einn og án hans. Sem var frekar vont því hann var svo skemmtilegur og líka sterkasti strákurinn í leikskólanum. Þessi frændi minn var svo góður við mig að hann lamdi alla með skóflu sem ætluðu að vinna mér mein. Ég gat leikið mér í friði. En ekki lengur. Svo ég fór í Ísaksskóla. 5 ára í 6 ára bekk. En í frímínútum í Ísaksskóla fór ég ekki út af lóðinni, heldur elti ég stelpurnar innan leiksvæðisins í frímínútum með hóp stráka og lét strákana halda stelpunum meðan ég kyssti þær. Það var aðal sportið. Koss á kinnina. ‘Change Rules’. Kjörorð Ísaksskóla var farið að segja til sín: ‘Starf, háttvísi, þroski, hamingja'...

'Polaris' pottar 

Segja má að ‘samskipti’ – ‘communications’ hafi þrætt flestar mínar athafnir eins og rauður þráður frá því ég byrjaði að þvælast fimm ára fyrir afgreiðslukonunum í búsáhaldabúð afa míns, Sigurðar Sigurðssonar í versluninni Hamborg við Laugaveg (Klapparstígsmegin) og selja mína fyrstu ‘Polaris-potta’ (sem ég komst snemma upp á lagið með) en afi borgaði mér 500 kall á dag í minni fyrstu sumarvinnu þar (slík bein sala er kölluð ‘boðskipti’ á PR tungumáli. 'Polaris' var fyrsta vörumerkið - 'brand-ið' sem ég tók alvarlega auk Coca cola). Þetta var sumarið áður en ég byrjaði í Ísaksskóla.

‘Við fluttum'

Ellefu ára trítlaði ég í prentsmiðjuna Odda með póstkort sem móðir mín fékk sent frá vinkonu sinni sem flutti til Svíþjóðar. Á því var teiknuð mynd af pallbíl með búslóð uppá pallinum og í þartilgerða reiti hafði vinkonan skrifað gömlu ‘adressuna’ og svo þá nýju undir yfirskriftinni 'Við fluttum'. Ég sá strax að þetta var söluvara og bað Knút Signarsson hjá Odda að prenta þetta fyrir mig í tólf hundruð eintökum, sem hann og gerði, þótt hann væri hissa á þessum ellefu ára strákling. Svo seldi ég póstkortin í bókabúðir og græddi smá pening. ‘Change Rules’. Boðskipti aftur.

(Appelsínuvín)

(Ég ætla ekki að hafa með appelsínuvínið sem við Biggi 'Spíri' brugguðum 14 ára og seldum jafnöldrum okkar í Hagaskóla og Vesturbænum. Ekki heldur sprittið sem við sendum mömmu Bigga að kaupa í apótek víðsvegar í bænum og eymuðum í vísindalegum eymingargræjum og seldum stundum líka. Einu sinni tók Björgólfur yngri þátt í að búa til eimaðan spíra á þennan hátt með mér heima á Bræðraborgarstíg. 'Change Rules' en við tölum helst ekki um það.) Whistling 

'Royale' PR

Sextán ára bjó ég til dreifikerfi fyrir ‘Royale’ sígarettur(!) sem Ágúst Kristmanns frændi minn flutti inn hjá Snyrtivörum hf. – og sá alfarið um að auglýsa og kynna þessa forboðnu bannvöru og tryggja henni áberandi stað í hillum búða með mútum (eitt eða tvö karton af sígarettum gera margt mögulegt) þrátt fyrir strangt ‘auglýsingaforbud’ á henni – með því að setja t.d. penna í bandi með ‘Royale’-vörumerkinu um hálsinn á öllum starfsmönnum Hagkaupa og fleiri stórra vinnustaða, eins og Pósts og síma – og ‘Royale’-öskubakka í mötuneyti risavinnustaða (þá mátti reykja á flestum vinnustöðum). ‘Tactical Planning’ á boðmiðlunarmáli. Og í raun hreint og klárt 'PR'. Vissulega ‘Change Rules’.

‘Áróðursdreifingarskrifstofa Bandaríkjanna’

Fyrst ég er dottinn inn í sjálfsævisögulegt ‘storytelling’ get ég alveg eins haldið áfram. Í almannatengsladeild Menningarstofnunar Bandaríkjanna var ég Friðriki Brekkan innan handar með dreifingu á ýmsum ‘upplýsingum’ út í þjóðfélagið (‘menningarstofnun’ er fín þýðing á ‘United States Information Agency’ eða ‘upplýsingaþjónustu’ Bandaríkjanna, sem er líka huggulegt orð fyrir áróðursdreifingarskrifstofu, því U.S.I.S. var ekkert annað ‘with all due respect’ ).  Svo fjölbreytt voru verkefni okkar Friðriks að þau spönnuðu allt frá því að hlaða niður efni af gagnasjónvarpi bandaríska utanríkisráðuneytisins – ‘WorldNet’, til þess að skipuleggja fundi íslenskra stjórnmálamanna og bandarískra hernaðarsérfræðinga, keyra með þá til Þingvalla og koma svo upplýsingum frá þeim til ‘vildarvina’ Bandaríkjanna víðsvegar um þjóðfélagið.

‘Á sauðkindin Ísland?’

Þetta var eiginlega byrjunin á ‘broadcasting’ hjá mér því í þrú ár tók Sjónvarpið við mér sem umsjónarmanni unglingaþáttanna ‘Poppkorns’ og svo ‘Smella’. Björn Emilsson ‘pródúsent’ vildi svo endilega að ég tæki til við að aðstoða hann við beinar útsendingar ‘Á tali með Hemma Gunn’ og við tóku nokkur ár innan og utan Sjónvarpsins.  Þar komst ég ekki hjá því að kynnast Hrafni Gunnlaugssyni – fyrst sem dagskrárstjóra og svo sem framkvæmdastjóra Sjónvarpsins. Hrafn var afar ‘stimúlerandi’ yfirmaður – alltaf ‘aksjón’ alltaf að rugga bátnum aldrei að leggja árar í bát alltaf að láta stjórnast af hugrekki, aldrei gefast upp fyrir meðalmennsku, læra að ‘þegja’ yfir leyndarmálum o.s.fr. Þetta var eiginlega doktorsnám í ‘anti-meðalmennsku’. Sú ‘vara’ sem olli mestum usla í samvinnu okkar Hrafns hét ‘Á sauðkindin Ísland’ og var umræðuþáttur um kindur. Já og svo ‘current affairs’ þáttur um þá löngun íslenskra kvikmyndagerðarmanna þess tíma að breyta Háskólabíói í ‘cinematek’ eða listrænt bíó. Háskólabíó hótaði RÚV málskókn svo útvarpsráð bannaði þáttinn – ‘ala- Hrafn Gunnlaugsson. Hann hefur aldrei verið sýndur opinberlega.  Svona lærði ég að vera ennþá óþekkari en ég er að upplagi. ‘Change Rules’.

‘Licence to kill’

Mér þótti óneitanlega mjög gaman að útvarpsþáttum sem Ólafur Þórðarsson (Ríó tríói) bað mig að stjórna á Aðalstöðinni þegar Ólafur Laufdal átti hana (áður en Baldvin Jónsson keypti Aðalstöðina) og hétu ‘Í vikulokin’ og ‘Spurt og spjallað’.  Ólafur gaf mér ‘algjört frelsi’ og ég notaði það til að búa mér til ‘licence to kill’ á vel valda listamenn, hugsuði og aðra áhugaverða sérvitringa sem í fyrsta lagi myndu ‘aldrei’ koma í tveggja klukkustunda ‘in depth’ viðtal í beinni útsendingu (áskorunin var þessvegna sú að gera hið ómögulega mögulegt með því að fá þetta fólk til að mæta) og hins vegar að fá ‘algjört leyfi’ (‘licence to kill’) til að rekja garnirnar úr þessu fólki og ‘lesa það’ niður í kjölinn. Þannig kynntist ég til dæmis Matthíasi Johannessen, Guðbergi Bergssyni, Stefáni Baldurssyni, Þuríði Pálsdóttur, Hauki Morthens og Sigfúsi Halldórssyni auk mun fleiri ‘viðfangsefna’, eins og Þorsteini Gylfasyni, Þórhildi Þorleifsdóttir og Ingibjörgu Haraldsdóttur.

Hitti ‘viðfangsefnin’ alltaf fyrir beina útsendingu til undirbúnings, allt uppí tíu sinnum. Fór til dæmis nokkrum sinnum til Mattíasar á Moggaskrifstofuna í Aðalstræti. Matthías þarf alltaf að hafa fast land undir fótum svo það endaði með því að við fórum ekki í beina útsendingu heldur tókum viðtalið upp. Þetta var rétt fyrir jólin og Baldvin Jónsson keypti svo Aðalstöðina og vildi senda þáttinn út á jóladag. Við Matthías vorum búnir að undirbúa ‘in depth’ viðtalið með mörgum fundum og þegar loksins kom að upptökudegi var skáldið með skætt kvef. Allt gekk mjög vel í okkar samtali en hann hóstaði svo mikið milli ‘síkvensa’ að þegar við tæknimaðurinn fórum að klippa viðtalið saman hófum við vinnuna kl. tíu um morguninn þann dag og hættum ekki fyrr en tíu daginn eftir. Það var tímafrekt að klippa alla hóstana hans Matthíasar út. En líka að gera samtalið ‘brilljant’. Ég umturnaði röðinni á þessu sögulega samtali og þegar Baldvin Jónsson kom til vinnu um tíuleytið daginn eftir og frétti að við hefðum verið að alla nóttina og tæknimaðurinn væri á tvöföldu kaupi allan þann dag umturnaðist Baldvin og tók æðiskast (skiljanlega). Ég hélt ró minni því mér var sama um smá aukakostnað Baldvins í þágu snillinnar og Matthíasar. Mér fannst tilurð þáttarins fórnarinnar virði. Ég skutlaði spólu til Matthíasar og setti innum bréfalúguna. Daginn eftir frétti ég að Matthías hefði komið til mín þar sem ég bjó á Gamla Garði á háskólalóðinni og félagar mínir þar hleyptu honum inn í litla herbergið mitt. Þegar ég kom heim voru allar útgefnar bækur Matthíasar á skrifborðinu mínu áritaðar frá honum, svo hrifinn var Matthías af vinnu minni vegna samtalsins. Þetta lagði grunnin að ‘sálufélaga’samskiptum okkar Matthíasar sem hafa svifið yfir vötnum æ síðan, enda hafði ég frá unga aldri fylgst grannt með skrifum Matthíasar í Moggann og hann var mesta ‘idolið’ mitt af öllum ‘viðfangsefnum’ Spurt og spjallað. (Þess má geta að samtalið við Matthías er tínt í filmusafni Þjóðleikhússins, en þegar ég starfaði þar sem 'markaðsfulltrúi' nokkrum árum síðar bað ég tæknimennina að kópíera það fyrir mig og þeir tíndu því...) ‘Change Rules’.

Byltingin í Portúgal

Guðbergur líkti Íslendingum við ‘rollur með reifið á sér’ hlaupandi útá berangri, man ég, og síðan þá hef ég alltaf séð skýrt og greinilega þessa hlið á Íslendingum. Sem gamall ‘kommi’ hafði Guðbergur og hefur enn að mínum mati raunsæjar ‘borgaralegar’ hugmyndir um heiminn, sem mér hugnast vel. Guðbergur varð til dæmis vitni að byltingunni í Portúgal, og visst ‘borgaralegt raunsæi’ vinstrimannsins Guðbergs kom skýrt fram þegar hann sagði frá því að bankastjórarnir voru reknir úr bönkunum og verksmiðjustjórar svældir út úr skrifstofum sínum og svo framvegis.  Og þegar búið var að henda aðlinum út úr höllunum og brenna og brjóta og skjóta og byltingin hafði heppnast var haldin veisla í marga daga á götum úti. En þegar partíið var orðið þreytt og menn nenntu ekki lengur að sukka og kveikja elda útá götu – rann upp fyrir þeim að einhver þyrfti að stjórna bönkunum af viti. Einhvern þurfti til að stýra verksmiðjunum af einhverju viti. O.s.frv. Þetta þótti mér lýsa vel klárheitum Guðbergs sem vinstrimanns sem er enginn kjáni. Þjóðfélagið – heimurinn – þarf á ‘toppum’ þjóðfélagsins að halda. Meira að segja ‘yfirstéttin’ er lífsnauðsynleg fyrir hina borgarana. Allir hafa sitt hlutverk í mósaíkmynd lífsins. 'Change Rules'. Gott í bili. Meira síðar...

...Ragnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband