Hve lengi höldum við út?

Þegar ég var unglingur spurði ég vinnuveitanda minn í aðdraganda kosninga hvaða flokk hann hyggðist kjósa. Sá svaraði að líkt og allir sem eitthvert hefðu viðskiptavitið ætlaði hann að kjósa Alþýðuflokkinn. Þegar ég spurði hann um ástæðuna var svarið einfalt: flokkurinn setti Evrópumálin á oddinn og að það væri eitthvað sem síðar myndi verða eitt mesta hitamál íslenskrar þjóðfélagsumræðu.

Síðar kom í ljós að ekki var mikið fyrir viðskiptavitinu að fara en hvað varðaði Evrópumálin hafði maðurinn rétt fyrir sér. Og að mínu mati hafði hann rétt fyrir sér þegar hann lýsti því yfir að Íslandi væri fyrr eða síðar nauðsynlegt að gerast aðili að ESB.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu, og eða evrunni, í einhverri mynd er orðin að einu helsta hitamáli þjóðfélagsumræðunnar og þótt ekki fari jafn mikið fyrir umræðunni um ESB og oft áður má víst telja að hún verði eitt af kosningamálum vorsins.

Sitt sýnist hverjum um Evrópusambandið, t.d. má nefna samtökin Heimssýn sem finna ESB flest til foráttu og blogga á hverjum degi um allt það neikvæða við sambandið. Ekki eru þó öll þeirra rök jafn góð og verð ég að nefna nýjasta dæmið, sem er vísun í þýska skoðanakönnun þar sem 58% aðspurðra segjast vilja fá þýska markið á ný og kasta evrunni fyrir róða. Úrtakið er 1.000 manns í landi sem telur ríflega 82 milljónir manna. Ekki getur það talist marktæk úrtak.

Síðan eru þeir sem telja Evrópusambandið vera af hinu góða og vil ég þá sérstaklega vísa til pistils Þorvaldar Gylfasonar, prófessors, í Fréttablaðinu í gær. Þar rekur hann í stuttu máli feril sambandsins og færir ágætis rök fyrir því af hverju íslensk aðild væri ekki svo slæm.

Það eru margar hliðar á flestum teningum og sennilega munum við seint öll verða sammála um nokkurn hlut. Í mínum huga er þetta fyrst og fremst spurning um efnahagsmál. Getur lítið hagkerfi eins og Ísland haldið úti eigin gjaldmiðli til lengdar? Ég efast um það.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ágæti Evrópusambandssinni. Ef þú vissir eitthvað um skoðanakannanir myndirðu vita að í kringum eitt þúsund manna úrtök teljast almennt séð nægilega marktæk algerlega óháð því hvort þýðin eru 300.000 manns eða 82 milljónir manna. Það sem skiptir hins vegar talsvert meira máli í því sambandi er hvernig úrtökin dreifast.

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.1.2007 kl. 03:24

2 Smámynd: GreyTeam Íslandi ehf

Takk fyrir þetta Hjörtur!

Þúsund manna úrtak er nægilega marktækt að því leyti að skekkjumörkin eru yfirleitt ekki stærri en 3%. En geturðu notað skoðanir eitt þúsund manns til þess að dæma um afstöðu 82 milljón manna þjóðar? Það er ekki líklegt.

Þegar ég lærði tölfræði var því a.m.k. haldið fram að þeim mun stærra sem úrtakið væri, þeim mun nákvæmari væri niðurstaðan. Ef þúsund eintaka úrtak dygði væri frekar undarlegt að eytt væri stórfé í að safna saman fleirum.

/Sverrir Þór

p.s. Umfjöllunarefni færslunnar var ekki skoðanakönnunin heldur var verið að fjalla um upptöku evrunnar.

GreyTeam Íslandi ehf, 10.1.2007 kl. 16:44

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Svo ég endurtaki, já, það er hægt að nota 1000 manna úrtak þegar verið er að rannsaka afstöðu 82 milljóna manna þó gjarnan sé miðað við 1100 manns í því sambandi. Þá má vissulega gera ráð fyrir að skekkjumörkin séu allajafna um 3%. Vitanlega skiptir þá máli hversu margir svara. Ef menn vilja minnka skekkjumörkin geta menn vissulega tekið stærra úrtak. Það segir sig væntanlega sjálft að því stærra sem þýðið er þeim mun fjölmennari eru þessi 3%.

En þú ert kannski þeirrar skoðunar að ekkert sé að marka skoðanakannanir sem vissulega er bara skoðun út af fyrir sig.

Umræðuefni færslunnar var evran, en þessi skoðanakönnun var tekin sem dæmi um meint léleg rök þeirra sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið. Mér þykir dæmið sem valið var hins vegar lélegt.

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.1.2007 kl. 04:16

4 Smámynd: GreyTeam Íslandi ehf

1000 manna úrtak er nægilega stórt til þess að skekkjumörk séu ekki hærri en 3%. Þetta kom fram í fyrri athugasemd minni. En þegar úrtakið er um 0,00001% af þýðinu er það varla  til þess að vekja traust á rannsókninni. Fyrirtæki, m.a. rannsóknarfyrirtæki víða um heim, eyða stórfé í að tala við mun fleiri en 1000 manns þegar gera á skoðanakannanir og bendir það til þess að þau telji 1000 manna úrtök ekki nægilega stór.

Ég hef mikla trú á skoðanakönnunum og tel þær ágætar til síns brúks. En það er mjög einfalt að misnota skoðanakannanir og því er mikilvægt að þær séu vandaðar og að allar upplýsingar liggi fyrir.

Þetta verða lokaorð mín um þetta mál en ég skal gjarnan taka debatt um ESB.

Kveðja

Sverrir Þór

GreyTeam Íslandi ehf, 14.1.2007 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband