Tími til kominn að hlusta

Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's sprengdi rétt fyrir jólin sprengju þegar lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins var lækkuð um eina skor. Þetta var ein af stórfréttunum fyrir jólin enda kom það verulega óvart, sérstaklega í ljósi þess að Moody's hafði staðfest einkunn ríkisins skömmu áður. Ég hef tilhneigingu til þess að taka frekar mark á S&P þar sem mín tilfinning, sem hagfræðings, hefur ávallt verið sú að fyrirtækið sé virtara en önnur fyrirtæki á þessu sviði.

Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Aska Capital og fráfarandi forstöðumaður Hagfræðistofnunnar, sagði réttilega að þetta væri mikill álitshnekkir fyrir efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar sem reyndar hefur verið gagnrýnd af fleiri aðilum en eingöngu S&P. Má þar nefna Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF). Þemað í þessari gagnrýni hefur ávallt verið það sama, hið opinbera er með aðgerðum sínum að grafa undan peningastefnu Seðlabanka Íslands og þar með að draga úr virkni hennar. Þetta felur eingöngu í sér að virkni stýrivaxtahækkana er minni en ella og jafnvel að vextirnir séu nú mun hærri en þeir hefðu þurft að vera til þess að virka.

Viðkvæði ríkisstjórnarinnar hefur löngum verið að hinir erlendu sérfræðingar þekki ekki þær sérstæðu aðstæður sem ríkja hér á landi, og mætti af þessu ætla að hefðbundin hagfræðilögmál gildi ekki í N-Atlantshafi. Jafnframt hafa ráðherrar bent á að ríkisstjórnin hafi lyft grettistaki í efnahagsmálum og viðskiptum.

Vissulega er ýmislegt til í því, þótt eflaust vilji fleiri eigna sér þann heiður, það hefði til dæmis án nokkurs vafa verið erfiðara að drepa úr dróma þann mikla vöxt sem hefur átt sér stað í fjármálageiranum án tilkomu Björgólfsfeðga og annarra aðila sem hafa þorað að nýta sér tækifærin. En fortíðin skiptir nákvæmlega engu máli. Nú ber að líta til framtíðar og til þess að frekar megi byggja á þeim árangri sem náðst hefur er nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að byrja að hlusta á erlenda aðila. Mat S&P hefur mun meira að segja um þau kjör og það viðmót sem ríkir gagnvart íslenskum aðilum erlendis en mótmæli fjármálaráðherra.

Hagfræðilögmálin gilda hér á landi jafnt sem annars staðar. Hækkun stýrivaxta mun á endanum bera árangur en spurningin er hver kostnaðurinn verður. Þeim mun lengur sem hið opinbera streitist á móti, þeim mun meira hækkar kostnaðurinn.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband