Spáin gekk eftir

Eins og spáð hafði verið á þessum vettvangi ákvað bankastjórn Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti. Hækkunin var 0,25 prósentustig og eru vextirnir nú 14,25%. Ég hef fært rök fyrir því að Seðlabankinn átti engra annarra kosta völ en að hækka vexti því þrátt fyrir að flest bendi til þess að slakna sé á spennu í hagkerfinu getur bankinn ekki leyft sér þann munað að bíða eftir því að verðbólgan fari niður fyrir efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins, sem er 4%.

Þess má geta að greiningardeild KB banka spáði einnig hækkun en Greining Glitnis sagði langmestar líkur á að stýrivextir yrðu óbreyttir, sem og greiningardeild Landsbankans.

Greiningardeildirnar virðast sammála um að þetta sé síðasta vaxtahækkunin í bili en eins og ég sagði einhvern tímann, það hefur reynst mörgum illa að reyna að spá fyrir um aðgerðir Seðlabankans. Að minnsta kosti ætla ég að bíða eftir næstu verðbólgutölum áður en ég hætti mér út í slíkar aðgerðir.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Stýrivextir hækkaðir um 0,25
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn á báti og sér á báti

Kaupmaður einn í Hafnarfirði hefur lengi staðið í stríði við greiðslukortafyrirtækin og neitar nú alfarið að taka við slíkum kortum í sinni verslun. Gildir þá einu hvort um er að ræða kreditkort eða debetkort. Hann hefur að undanförnu staðið í auglýsingaherferð með auglýsingum í samlesnum auglýsingatímum Ríkisútvarpsins, þar sem hann kallar þessi fyrirtækið einu nafni Dýrið.

"Við fóðrum ekki dýrið" og fleira í þeim dúr hefur dunið á öldum ljósvakans rétt fyrir fréttir og er eflaust mörgum skemmt yfir þessu einkastríði kaupmannsins. Því hann virðist standa ansi einn í þessu stríði en gefur sig ekki og þegar undirritaður keyrir framhjá verslun hans, sem er ansi oft, virðist alltaf vera nóg að gera.

Kaupmaðurinn komst í fréttirnar eitt árið þegar hann hirti greiðslukort af blaðamanni einum, sem nýtur mismikillar virðingar í sinni stétt. Þá hafði blaðamaðurinn keypt eina pylsu og hugðist greiða með korti en kaupmaðurinn, sem þá reyndar tók við kortum, neitaði að taka við greiðslu fyrir minna en 500 krónur og tók kortið traustataki. Blaðamaðurinn fengi það aftur þegar hann kæmi með peninga úr öðru efni en plasti.

Undirritaður skrifaði eitt sinn fræðslugrein í Viðskiptablað Morgunblaðsins um peninga þar sem því var meðal annars haldið fram að greiðslukort flokkuðust einnig undir peninga, sem þau gera skv. skilgreiningu hagfræðinnar. Ekki stóð á kaupmanninum að hringja í mig og reyna að beina mér á rétta braut og eftir nokkurt þjark urðum við sammála um að vera ósammála og lagt var á í hinu mesta bróðerni. Ég hef nokkrum sinnum síðan verslað við kaupmanninn góða og hef gaman af sérvisku hans, ef sérvisku mætti kalla.

Það eru ekki margir prinsipp-menn eftir í þessum heimi og okkur ber að halda þeim sem lengst. Ég hvet því útvarpshlustendur til þess að hlusta eftir auglýsingum um "dýrið" og heimsækja kaupmanninn skemmtilega.

Með því að fylgja þessum tengli má lesa bréf sem kaupmaðurinn sendi Morgunblaðinu í júní á því herrans ári 2001.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Hvað heitirðu meira en Ágúst?

Það er gott að heita Ágúst Einarsson þessa daganna. Ekki er langt síðan Ágúst Einarsson, prófessor og fyrrum alþingismaður og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands,  var ráðinn rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, og nú hefur Ágúst Einarsson verið ráðinn forstjóri TM Software.

Bæði verkefnin hljóta að teljast með þeim mest spennandi á Íslandi í dag. Bifröst er dýnamískur háskóli og mikil af honum að vænta á næstu árum og TM Software er gífurlega spennandi fyrirtæki sem hefur verið meðal leiðandi afla á íslenskum upplýsingatæknimarkaði og í útrásinni margumræddu.

Það er við hæfi að óska báðum mönnum til hamingju með störfin nýju.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is

 


mbl.is Forstjóraskipti hjá TM Software
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gatnagremja á aðventu

Gatnagremja (e. road rage) virðist vera að aukast verulega í okkar litla samfélagi. Svo mikill virðist flýtirinn og asinn vera að ekkert megi verða í vegi ökumanna án þess að þeir nánast tapi glórunni. Mikið hefur verið fjallað um atvikið fyrir nokkru þegar hörmulegt banaslys átti sér stað á Vesturlandsvegi og margir ökumenn náðu ekki upp í nef sér fyrir gremju yfir því að komast ekki leiðar sinnar. Var lögreglu- og sjúkraflutningamönnum meðal annars sagt að hunskat í burtu. Þetta er ekki fyrirmyndar og enn síður sá atburður sem ég heyrði af í dag og lesa má um á vef Umferðarstofu:

"Lögreglan í Kópavogi var um miðjan dag í gær kölluð að Bykó á Skemmuvegi en þar hafði einhver reynt að troða bifreið sinni inn í bílastæði merkt fötluðum við hlið bifreiðar reyndist vera í eigu fatlaðs einstaklings. Við þessar tilraunir fór viðkomandi utan í bílinn og skemmdi hann töluvert. Sá sem olli tjóninu lét sig hverfa af vettvangi en skildi eftir miða á bílnum, sem hann hafði skemmt, og á miðanum voru skilaboð um það að sá fatlaði ætti að skammast sín fyrir að leggja allt stæðið undir bifreið sína."

Svona framkoma í garð náungans er alveg óskiljanleg og virðist vera sem kærleiksboðskapur hátíðarinnar sem senn gengur í garð sé að snúast upp í andhverfu sína því sífellt fréttist af fleiri svona atburðum.

Það er mikið að gera hjá okkur öllum og allir eru að flýta sér en við eigum samt þá kröfu að fólk sýni hvert öðru smá virðingu. Ekki satt?

Þess má geta að orðið gatnagremja er smíðað af Helga Mar Árnasyni, fyrrum blaðamanni á Morgunblaðinu.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Mikil neysla olíu

Það eru svo sem engar nýjar fréttir að veðurfar í Bandaríkjunum hafi áhrif á olíuverð. Öllum er í fersku minni þegar fellibylirnir Katrína og Rita lögðu New Orleans og nærsveitir í rúst, og sömuleiðis stóran hluta af olíuframleiðslustöðvum Bandaríkjanna. Færri huga þó að veðurfari í norðausturríkjum Bandaríkjanna, sem eru mun veigameiri þáttur þegar kemur að olíuverði almennt.

Fellibylirnir voru einstakir atburðir, ef þannig má að orði komast, en kuldaköst koma í NA-ríkjunum ár hvert. Þetta er þéttbýlasta svæði Bandaríkjanna og þegar kólna fer í veðri eykst eftirspurn eftir gullinu svarta gífurlega. Eins og lögmálið um eftirspurn gerir ráð fyrir felur þetta í sér að verð hækkar í kjölfarið enda neytir engin þjóð í heimi hér olíu í jafn miklum mæli og vinir okkar vestanhafs.

Olía er jafnframt mikilvæg bandarískum iðnaði, og því hefur eftirspurn eftir olíu þar einnig mikil áhrif á heimsmarkaðsverð. Nú bendir flest til samdráttar þar og því má ætla að eftirspurn eftir olíu dragist saman. Þegar þessir tveir þættir, hlýindi og samdráttur í iðnaði, koma saman er ekki ósennilegt að olíuverð lækki.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Veðurfar hefur áhrif á olíuverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar

Staksteinar Morgunblaðsins fjalla í dag um viðskiptaveldi það sem aðilar tengdir Framsóknarflokknum, undir forystu Finns Ingólfssonar, hafa byggt upp á síðustu árum og hefur orðið æ meira áberandi á undanförnum mánuðum. Nú síðast með kaupum á stórum hlut á Icelandair annars vegar og Straumi-Burðarás hins vegar.

Hjartað í þessu veldi virðist vera Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar sem er orðið afar öflugt félag, sérstaklega eftir söluna á VÍS til Exista í sumar. Staksteinar segja m.a.: "Þessi áhrifastaða byggist á fjármálaveldi Samvinnutrygginga en m.ö.o. hver á Samvinnutryggingar?! Áhugaverð spurning sem margir vilja fá svar við." Svarið er einfalt og þarf ekki annað en að lesa viðtal það sem undirritaður tók við Axel Gíslason, framkvæmdastjóra félagsins, er birt var í Viðskiptablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 13. júlí sl. Eignarhald Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga er það sama og eignarhald Samvinnutrygginga sem var gagnkvæmt tryggingafélag. Í viðtalinu segir m.a.:

"Þess vegna er eignarhaldi á Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum háttað þannig að þeir sem voru í tryggingaviðskiptum við Samvinnutryggingar gt. árin 1987 og 1988 - tvö síðustu árin áður en VÍS varð til - og þeir sem voru með brunatryggingar fasteigna hjá Samvinnutryggingum árin 1992 og 1993 eiga réttindi ef til slita kemur. Því er það alveg á hreinu, komi einhvern tímann til þess að félaginu verið slitið, hvernig farið verði með þessa eignarhluta."

Eignarhaldið á félaginu er skýrt en fróðlegri spurning væri hins vegar hver fer með völdin innan félagsins. Hver tekur endanlegar ákvarðanir um fjárfestingar?

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Koma svo

Í frétt sem undirritaður skrifaði í viðskiptablað Morgunblaðsins þann 26. janúar sl. spáði ég því að velta í hlutabréfaviðskiptum í Kauphöll Íslands færi tvær billjónir króna á þessu ári, tvær billjónir jafngilda tvö þúsund milljörðum. Þess ber að geta að þá starfaði ég sem blaðamaður á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins.

Fréttina má nálgast í gagnasafni Morgunblaðsins en þeir sem ekki hafa aðgang þar geta lesið spádóminn hér: "Það verður óneitanlega spennandi að sjá hvort þessi þróun muni halda áfram á næstu mánuðum því fari svo gæti velta ársins vel farið yfir tvær billjónir króna (tvö þúsund milljarða)."

Síðan hef ég tvisvar sinnum endurtekið spádóminn og nú ætla ég að gerast svo djarfur að spá þessu einu sinni enn. Samkvæmt vef Kauphallarinnar er velta það sem af er ári nú 1.937 milljarðar króna og þegar við bætist sú fjárhæð sem sala á hlut FL Group í Straumi-Burðarási skilar er ljóst að takmarkið nálgast óðfluga. Samkvæmt mínum útreikningum vantar nú aðeins 20 milljarða upp á að takmarkið náist.

Koma svo.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is FL Group selur 22,6% í Straumi Burðarási
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það má alltaf reyna

Nú hefur fyrsta tilraunin verið gerð til þess að brenna jólahafurinn í borginni Gävle í N-Svíþjóð. Eins og fjallað hefur verið um áður á þessum vettvangi er það að margra mati ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum að frétta af svoleiðis tilraunum.

Hafurinn í ár er eldvarinn en samkvæmt frétt Aftonbladet hefur einhver ákveðið að freista gæfunnar engu að síður.

Það má alltaf reyna.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Enn af samþjöppun

Fyrir ekki svo löngu fjallaði ég um samþjöppun á verðbréfamörkuðum, þ.e. að verðbréfamörkuðum fækkar með yfirtökum og samrunum.

Ég spáði því að ekki myndi líða langt þar til við fréttum meira af þeim málum og viti menn, nokkrum dögum síðan bárust fréttir af því að Nasdaq hefði gert fjandsamlegt yfirtökutilboð í kauphöllina í London. Svo áfjáðir eru þeir hjá Nasdaq í að kaupa LSE að þeir munu láta sér nægja samþykki 50% hluthafa og eins til viðbótar en þá eru þeir komnir með einfaldan meirihluta og öll völd í fyrirtækinu.

OMX, sem nýlega yfirtók Kauphöll Íslands, hefur verið stórtækt í kaupum á kauphöllum á Norðurlöndunum og við Eystrasalt og nú má finna í fréttakerfi Kauphallar Íslands tilkynningu um að OMX hafi boðið í kauphöllina í Slóveníu.

Ég held ég sé ekki að blekkja neinn þegar ég fullyrði að þessari samrunahrinu sé ekki lokið.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is 


Þegar stórt er spurt

Fátækt á Íslandi hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu líkt og reyndar ávallt þegar jólin nálgast. Nú hefur hins vegar ný skýrsla sem forsætisráðherra lét vinna orðið til þess að kynda verulega undir umræðunni.

Fjölmiðlar hafa haldið umræðunni gangandi og dregið fram ýmsar fjölskyldur er búa við bág kjör og virðist algengasta þemað þá vera að önnur fyrirvinna fjölskyldunnar er öryrki en hin í láglaunastarfi. Launin eru þó það há að þau verða til þess að skerða þær bætur sem fjölskyldan fær. Það er bara vonandi að fjölmiðlar haldi umræðunni á lífi eftir jól því umræða af þessu tagi hefur átt það til að deyja drottni sínum þegar hátíðirnar eru yfirstaðnar. Nú eru kosningar á næsta leiti og aldrei að vita nema stjórnmálamennirnir okkar taki til hendinni í þessum málum.

Einhverjir þeirra hafa þó orðið til þess að þræta fyrir að fátækt ríki á landinu, sem dæmi má nefna einn háttvirtan þingmann sem ég heyrði í í útvarpi í gær. Hann sagðist hafa reiknað dæmið til enda og niðurstaða hans var sú að fjölskylda sem býr við þær aðstæður sem áður voru nefndar búi ekki við fátækt, hún hafi nægar ráðstöfunartekjur. Það væri því frekar skuldsetning sem væri  sökudólgurinn.

Ég saknaði þess í dæmi þingmannsins að hann virtist ekki taka tillit til bótaskerðingar vegna tekjutengingar en jafnframt vil ég spyrja hvort ungar fjölskyldur á leið út í lífið eigi einhvern annan kost en að skuldsetja sig? Leiguhúsnæði er ekki beint aðgengilegt og því hefur fólk fáa aðra kosti en að kaupa sér húsnæði. Og eru þá ekki flestir sammála um að það sem hefur haft megináhrif til hækkunar húsnæðisverðs sé samkeppni ríkisins á húsnæðislánamarkaði. Svo ekki sé minnst á verðbólguna sem nú er 7% og hefur áhrif til hækkunar greiðslubyrði vegna verðbóta.

Eins og einhver segir: Þegar stórt er spurt ...

 Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband