Móðgun við lesendur

Rosaleg stýrivaxtahækkun í Noregi er fyrirsögnin á erlendri frétt á vísir.is. Fyrirsögnin er fáránleg og sömuleiðis textinn sem henni fylgir, það jaðrar eiginlega við hneyksli að þetta sé birt, og enn fremur að þessu sé leyft að standa.

Það er greinilegt að blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina ætlar sér að vera fyndin og ef til vill er hann að nota þessa aðferð til þess að vekja athygli á hinum mikla vaxtamun sem ríkir á milli Íslands og Noregs. En skrifin bera jafnframt með sér að viðkomandi hefur ekki hugmynd um hvað stýrivextir eru eða hvernig þeir virka. Til marks um það er meðal annars setningin "Hinir olíuauðugu Norðmenn eiga í mestu vandræðum með alla peningana sem þeir eru að græða, og ákváðu því að hækka stýrivexti sína upp í heil 3,5 prósent."

Það er hrein móðgun við lesendur að blaðamenn sem ekki hafa neina þekkingu á einhverju viðfangsefni skuli fá að skrifa um það og í mínum huga hefur trúverðugleiki miðilsins fengið á sig brotsjó við þetta. Enginn miðill sem tekur sig alvarlega hefði leyft svona vinnubrögð. Og hananú.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is 


Saga af einelti á vinnustað

Ég á mjög góða vinkonu sem ég hef þekkt í næstum tuttugu ár, yndisleg kona á alla lund, höfðingi heim að sækja, fjörug og skemmtileg. Þessi vinkona mín hefur unnið á nokkrum stöðum í gegnum tíðina og alltaf bætt þá vinnustaði sem hún helgar krafta sína í það skiptið.  

Fyrir rúmu ári réð vinkonan sig til stórs fyrirtækis í spennandi geira, nema hvað að þar lendir hún strax í þvílíku einelti að ég hef ekki heyrt annað eins. Það var óhuggnanlegt að sjá hvað þetta gerði þessari yndislegu vinkonu minni, eineltið fólst m.a í  því að henni var ekki svarað t.d. þegar hún bauð góðan daginn og henni var aldrei boðið með ef vinnufélagarnr fóru í löns saman.  

Tvær samstarfskonur hennar komu svo af stað þeirri sögu að hún væri alkóhólisti....ég þekki þessa konu og ef það er eitthvað sem hún er ekki þá er það alkóhólisti, ef hún þurfti að fara á fund innan húss og lét vita þá spurðu þær hana hvort hún væri að fara á AA fund og fleira í þeim dúr.  

Vinkonan lét þetta ganga yfir sig mánuðum saman en á endanum fór hún til yfirmanns síns og sagði upp, hann bað hana að gera það ekki og ætlaði að taka á málinu, það var kallaður til sálfræðingur sem ræddi við fólkið og fékk vinkona mín heilmikið út úr því, hvað samstarfsmenn hennar fengu úr því veit ég ekki en ástandið lagaðist ekki, henni var boðið annað starf á sömu hæð og aðeins hærri laun (sem hún að sjálfsögðu þáði og er hverrar krónu virði og gott betur). Hún var búin að fara í sérstaka eineltisnefnd sem er innan fyrirtækisins en allt kom fyrir ekki, fyrir rúmum mánuði síðan gafst vinkona mín endanlega upp. Það var ansi fyndið að sjá að á sama tíma og eineltið og leiðindin voru mest var fyrirtækið í öllum auglýsingatímum með þessar líka frábæru!! ímyndarauglýsingar, en svona er þetta bara, það er munur á Jóni og séra Jóni. Yfirmennirnir brugðust skyldu sinni gagnvart vinkonu minni, getuleysi þeirra til bregðast við í þessu máli var algjört.  

Það var alveg á hreinu að þeir vissu hverjir sökudólgarnir í eineltinu voru en kusu að taka ekki á málunum. Hvað skyldu svona eineltis mál kosta fyrirtæki, í þessu tilfelli misstu þeir harðduglegan starfsmann sem var að standa sig mjög vel í vinnunni, það sagði yfirmaður hennar henni þegar hann vildi halda henni. Einelti er allstaðar, öll þekkjum við ömurlegar sögur af því, fólk hefur jafnvel framið sjálfsmorð í örvæntingu sinni, börn sem verða fyrir einelti bera ör á sálinni alla tíð. Úr hvaða aðstæðum kemur þetta vesalings fólk sem leggur fólk í einelti? Það er örugglega allavega en eitt er víst að þegar þetta fólk er komið heim til sín að kveldi, þá veit það að vanlíðanin hefur ekkert batnað og líf þeirra hefur ekkert lagast þó það níði skóna af öðrum. Hvet fólk til að vera vakandi fyrir einelti á vinnustað og bregðast við.  

Og vinkona mín, hún er komin í fína vinnu sem hana hlakkar til að fara í á hverjum morgni, þar var henni tekið opnum örmum enda ljúflingur í umgengni, fljót að setja sig inn í hlutina og er vinnuhestur í bestu merkingu þess orðs, nýja fyrirtækið er sannarlega heppið að fá hana í sínar raðir.

Halldór R Lárusson | Head of Art Direction | GCI Iceland | halldor.larusson@gci.is

Dregur úr spennu

Það skyldi þó aldrei fara svo að ég þurfi að taka allt það sem ég hef bloggað um efnahagsmál að undanförnu tilbaka?

Ætli Seðlabankinn sjái ástæðu til þess að hækka ekki stýrivexti í næstu viku? Það er ekki líklegt, ég get tekið undir með Greiningu Glitnis um að nýjustu tíðindi, og þegar við bætast fréttir af því að atvinnuleysi hafi aukist lítillega og að spenna á vinnumarkaði sé ef til vill að slakna, dragi úr líkunum á því að stýrivextir verði hækkaðir.

En líkurnar voru svo yfirgnæfandi að jafnvel þótt dregið hafi úr þeim hef ég á tilfinningunni að þetta muni ekki breyta neinu um afstöðu bankans. En við verðum bara að sjá til.

Alltént bendir flest til þess að verulega sé að slakna á spennu í hagkerfinu.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Dregur úr líkum á vaxtahækkun að mati Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrlingur blindra

Líkt og lætin í kringum jólahafurinn er Lúsíuhátíðin algjörlega ómissandi hluti í jólaundirbúningi Svía. Þarna er verið að heiðra minningu sikileyskrar stúlku sem á að hafa tekið skírlífisheiti og lét frekar lífið en að rjúfa það heiti. Sagan segir að hún hafi stungið úr sér augun og sent þau manninum sem átti að eignast hana í hjónabandi en þess vegna er hún meðal annars dýrlingur blindra.

Það eru fyrst og fremst Svíar og sænskumælandi Finnar sem halda daginn hátíðlegan og gera þeir sér margt til hátíðarbrigða. T.d. dæmis eru farnar Lúsíugöngur um alla bæi og skóla og velur hver bær og skóli sína Lúsíu. Ennfremur eru á Lúsíunni víða haldnir hátíðartónleikar og ekki má gleyma bollunum góðu (lussekatter), með rúsínum og saffrani, sem eru ómissandi hluti af því að koma fólki í jólaskapið.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Lúsíuhátíð í Norræna húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur álagning orkusala aukist?

Ég sá frétt um útboð Stykkishólmsbæjar vegna raforkukaupa. Þrjú orkufyrirtæki buðu og bæjarritari veltir fyrir sér hvort hér á landi sé samkeppni á markaðnum því honum sýnist sem kostnaður bæjarins muni einungis lækka um tæpar 200 þúsund krónur á ári við útboðið. Í þessu sambandi væri vert að velta fyrir sér hver hafi verið kostnaður við gerð útboðslýsingarinnar og þar með kostnaðarlækkun þegar upp er staðið. Fyrsta árið að minnsta kosti.

Af þessu tilefni leit ég í gamni á árshlutareikning Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2006 og þar kemur fram að tekjur af orkusölu (raforku og hitaorku) námu ríflega 8,6 milljörðum króna en kostnaður vegna orkukaupa ríflega 2,3 milljörðum. Framlegð (tekjur mínus kostnaður) af orkusölu er samkvæmt þessu ríflega 6,3 milljarðar króna og ef tekjur eru mældar sem hlutfall af kostnaði er hlutfallið tæplega 208%. 

Einnig sýnist mér sem tekjur af orkusölu hafi aukist um 8,39% það sem af er ári, miðað við árið í fyrra, en kostnaður vegna orkukaupa hafi aukist um 3,46%. Bendir þetta ekki frekar til þess að álagning hafi aukist en hitt?

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Segir svigrúm til samkeppni á raforkumarkaði lítið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgan lækkar á milli mánaða

Hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) var 0,1 stig á milli mánaða, 0,04% hækkun, og var það aðeins lægra en greiningardeildir bankanna höfðu spáð, en þó ekki nærri því nægileg. Eins og ég bloggaði um í gær er því nánast ljóst að Gluggagægir mun gefa einhverjum stýrivaxtahækkun í skóinn þegar hann kemur til byggða 21. desember. Verðbólgan er nú 7% og lækkar hún um 0,3 prósentustig á milli mánaða og bendir margt til þess að hún fari brátt að gefa eftir.

Ég hef fjallað um það áður að Seðlabankinn getur ekki leyft sér þann munað að bíða eftir því að verðbólgan gefi eftir og því verður hann að taka á vandanum nú. Verðbólgumarkmið bankans er 2,5% ± 1,5% sem þýðir að efri þolmörkin liggja við 4%. Fari verðbólgan yfir 4% ber Seðlabankanum skylda samkvæmt samkomulagi sínu við ríkisstjórnina að bregðast við svo að hún nálgist aftur markmiðið. Í raun ber bankanum að bregðast við þegar stefnir í að efri þolmörkin verði rofin.

En Seðlabankinn getur ekki barist fyrir stöðugu verðlagi einn síns liðs, hið opinbera verður að gera sitt. Eins og bent er á í hálffimmfréttum KB banka í gær er ljóst að miðað við fjárlög næsta árs er hið opinbera ekki að sinna sínu hlutverki. En fæst orð bera minnsta ábyrgð.

Lítil hreyfing hefur verið á VNV að undanförnu og ef við gefum okkur að svo verði áfram, sem er ekkert óeðlilegt á milli desember og janúar ef litið er til síðustu ára, má ætla að verðbólgan muni hjaðna aðeins á næstunni. Hækki vísitalan um 0,1 stig í næsta mánuði, líkt og nú, verður tólf mánaða verðbólga 6,6% en til þess að verðbólga haldist 7% þarf VNV að hækka um 1 stig, sem er 0,4% hækkun. Svo há hækkun er ekki líkleg, a.m.k. eins og staðan er nú.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Verðbólgan á tólf mánaða tímabili 7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgutölur á morgun

Hagstofa Íslands birtir á morgun vísitölu neysluverðs (VNV) fyrir desembermánuð, og bíða margir eftir þeirri tölu þar sem hún getur gefið vísbendingar um aðgerðir Seðlabankans við næstu stýrivaxtaákvörðun, sem tilkynnt verður 21. desember.

Reyndar má ljóst vera að eigi Seðlabankinn ekki að hækka vextina þarf eitthvað mikið að gerast, verðbólga þyrfti að lækka um eitt prósentustig eða eitthvað í þá áttina. Reyndar ætla ég ekki að fara að spá fyrir um aðgerðir Seðlabankans, það hefur reynst mörgum hættulegt. Eins og ég hef fjallað um áður ber bankanum hins vegar að taka á verðbólgunni og gefi hún ekki verulega eftir nú er ljóst að bankinn tekur sína skyldu alvarlega.

Ef marka má spár greiningardeilda bankanna hækkar VNV á bilinu 0,1-0,2% sem felur í sér að vísitalan verður  á bilinu 266,4-266,6 stig. Verði það að veruleika verður tólf mánaða verðbólga 7-7,1% sem er lækkun frá síðasta mánuði þegar verðbólga var 7,3%. Greiningardeildirnar hafa ágætis forsendur til þess að spá fyrir um vísitöluna og því má teljast líklegt að stýrivextir hækki.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Bankamaður hinna fátæku

Í dag, 10. desember er Nóbelsdagurinn, þ.e. Nóbelsverðlaunin eru afhent í Stokkhólmi og Osló - friðarverðlaun Nóbels eru ávallt veitt í Osló en öll hin í Stokkhólmi. Að þessu sinni vil ég fjalla aðeins um manninn sem hlýtur friðarverðlaunin, en hann er að mínu mati vel að verðlaununum kominn. Það er hagfræðingurinn Muhammad Yunus frá Bangladesh.

Bangladesh er eitt fjölmennasta, og jafnframt eitt fátækasta, land heims en Yunus hefur um áratugaskeið barist gegn fátæktinni sem þar ríkir. Á því herrans ári 1976 stofnaði hann Grameen Bank sem hefur það eitt markmið að aðstoða fátækt fólk við að koma undir sig fótunum. Grameen Bank ku þýða þorpsbanki, eða eitthvað í þá áttina.

Unnið er eftir microcredit-hugmyndafræðinni, sem Yunus er höfundur að (microcredit þýðir örlán) en í því felst að veita lán til reksturs, til þeirra sem eru of fátækir til þess að vera gjaldgengir til lántöku í hefðbundnum bönkum.

Vextir á lánum bankans eru lægri en vextir hjá hinu opinbera og jafnframt er ekki krafa um veð eða ábyrgð á lánunum, viðskiptavinum er treyst til þess að standa við sitt. Útlán bankans eru fjármögnuð með innlánum sem eru á afar góðum vöxtum, frá 8,5-12%, en ekki hefur verið tekið við fjárstyrkjum frá árinu 1998.

Ég hvet alla til þess að fylgja þeim tenglum sem hér eru í færslunni og fræðast um Yunus og Grameen bankann. Það er fyllilega tímans virði.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Undarleg fyrirsögn

Fyrirsögnum frétta er ætlað að laða lesendur að fréttinni en stundum má lesa ýmislegt úr þeim. Ég get af reynslu sagt að fyrirsagnasmíð getur verið eitt það tímafrekasta í starfi blaðamannsins. Flestir vilja skrifa grípandi fyrirsagnir en þær mega þó ekki vera þannig að þær innihaldi staðreyndavillur eða séu villandi. Þannig má stundum lesa ýmislegt úr fyrirsögnunum, m.a. annars hvort blaðamaðurinn var að flýta sér eða hvort hann þekkir efnið ekki nægilega vel.

Eitt dæmi um undarlega fyrirsögn er að finna í viðskiptafrétt á Vísir.is. Þar stendur að viðskiptahalli í Þýskalandi hafi aldrei verið minni. Fyrir þá sem hafa áhuga á efnahagsmálum og viðskiptum er þessi fyrirsögn lokkandi því Þýskaland er eitt mikilvægasta hagkerfi heims. En þegar lestur fréttarinnar hefst kemur í ljós að í fyrirsögninni eru tvær villur. Í fyrsta lagi er hér verið að fjalla um vöruskiptajöfnuð en ekki viðskiptajöfnuð og í öðru lagi eru vöruskipti jákvæð um ríflega 17,2 milljarða evra, þ.e. útflutningur umfram innflutning nam áðurnefndri upphæð. Það er EKKI vöruskiptahalli enda þýðir orðið neikvæðan vöruskiptajöfnuð, þ.e. innflutning umfram útflutning. Halli getur heldur aldrei verið minni en núll. Í stærðfræði er halli vissulega stundum skrifaður með neikvæðu formerki (mínus) en það segir ekkert um sjálfan hallann, eingöngu í hvaða átt hann er. Sjálfur hallinn getur aldrei verið minni en núll. Þegar vöruskipti eru jákvæð er enginn halli. Og hananú.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Þú skalt eigi stela!

Merkilegt að 57% Microsoft hugbúnaðar sem í notkun hér á landi skuli ekki vera löglega fenginn; það er keyptur, heldur afritaður. Semsagt stolinn. Sá viðtal við Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóra Microsoft hér á landi, í Viðskiptablaðinu 24. síðasta mánaðar. Hann segir okkur Íslendinga hafa á sér svartan blett hvað þessi mál varði og sé í hópi með þeim þjóðum veraldar sem séu mestu hugbúnaðarþjófar heims.

Halldór getur þess að ástæður þessa geti suimpart stafað af því að hér var allt til ársins 2003 enginn til staðar af hálfu Microsoft til að gæta hagsmuna fyrirtækisins. Þetta er svona svipað og þegar foreldrarnir eru að heima, þá leika börnin lausum hala! Og þannig var aðkoman er Microsoft opnaði á Íslandi. Allt í drasli!

Reyndar hefur Microsoft tekist á undraskömmum tíma að vekja landsmenn til meðvitundar um að þetta er ekki í lagi. Fjölmargir forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja eru að taka til í sínum ranni og koma hugbúnaðarleyfis málum sínum í lag. Hægt og bítandi. Hver samningurinn á fætur öðrum er gerður. En betur má ef duga skal. Þetta er að vísu þolinmæðisverk en ekki áhlaups. Dropinn holar steininn. Það gengur ekki að fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega og gæta að ímynd sinni styðjist við hugbúnað sem ekki eru leyfi fyrir. Það kallast hugbúnaðarstuldur.

Einstaklingar, heimilin í landinu, verða einnig að taka sig verulega á í þessum efnum. Mér finnst ekki mikið að greiða um 15 þúsund krónur fyrir Word, Excel, PowerPoint og Outlook sem ég má setja á þrjár tölvur heimilisins, þegar maður fær að auki reglulegar uppfærslur án vandamála til að tryggja stöðuga virkni þessara nauðsynlegu verkfæra. Þetta er spurning um móral! Þú skalt eigi stela!

Bolli Valgarðsson Head of Media Relations | GCI Iceland |
bolli.valgardsson@gci.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband