Færsluflokkur: Bloggar
6.2.2007 | 17:18
Úps, þetta var ekki rétt lag
Það er margt skrítið í henni veröld og stundum er ekki annað hægt en að brosa út í annað að ýmsum atvikum sem þó geta orðið til þess að valda milliríkjadeilum. Eitt dæmi um slíkt má lesa á vef sænska dagblaðsins Dagens Nyheter en þar segir frá því að vitlaus þjóðsöngur var spilaður við vígslu hins nýja krikketvallar í höfuðborg smáríkisins Grenada, St. Georges.
Grenada er lítil eyja í Karíbahafi sem hingað til hefur helst unnið sér það til frægðar að hafa orðið fyrir innrás Bandaríkjamanna á níunda áratugnum og nú má mikið vera ef ekki verður ný innrás.
Þannig er mál með vexti að í vor á að halda alþjóðlegt krikketmót á Grenada og var boðið til .ess fyrir löngu síðan en árið 2004 eyðilagðist gamli krikketvöllurinn í fellibyl og hvarf svo endanlega þegar nýr fellibylur reið yfir árið 2005. Kínversk yfirvöld komu Grenada til bjargar með því að senda fjölda verkamanna til þess að byggja nýjan völl og var hann gjöf Kína til Grenada. Þegar vígja átti völlinn var sendiherra Kínverja viðstaddur og þegar til stóð að spila kínverska þjóðsönginn stillti hann sér upp og hefur eflaust fyllst stolti.
En þegar hljómsveitin byrjaði að spila hefur honum eflaust brugðið í brún því það sem kom úr hljóðfærunum var þjóðsöngur Tævan. Eins og kunnugt er ríkir mikil úlfúð á milli Kína og Tævan og má því leiða líkum að því að ekki hafi sendiherrann verið mjög kátur.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 11:06
Þá var milljarður mikið
Þau eru ekki mörg árin sem eru liðin síðan Össur keypti fyrirtæki í Bandaríkjunum fyrir milljarð króna og þjóðin saup hveljur. Fréttin var birt með stríðsfyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins enda var milljarður eitthvað sem flestir gátu ekki gert sér í hugarlund. Nú er milljarður bara skiptimynt sem sést best á því að Glitnir banki var að kaupa fyrirtæki í Finnlandi fyrir 30 milljarða og þykir bara ekkert merkilegt. Það þykir ekki einu sinni merkilegt að Actavis skuli vera nefnt sem hugsanlegur kaupandi að samheitalyfjaarmi Merck sem ku kosta hátt í 500 milljarða.
Þetta sýnir okkur hversu mikið gildismat fólks getur breyst á skömmum tíma. Hér á landi hefur ríkt bullandi góðæri á undanförnum árum og hagur margra hefur batnað verulega. Um leið og það gerist breytist skynjun þeirra á upphæðum, þótt vissulega sé þetta kannski svolítið öfgakennt. En auðvitað hefur hin gífurlega umfangsmikla útrás orðið til þess að brengla gildismatið einhvern veginn.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 15:21
Rafrænar mælingar á ljósvakamiðlum - MediaCom er tilbúið
Í vikunni skrifuðu fulltrúar ljósvakamiðlanna undir viljayfirlýsingu um að hefja rafrænar mælingar á áhorfi/hlustun sjónvarps og útvarps. Á svipaðri stundu hófust daglegar mælingar á lestri prentmiðla.
Ég veit ekki hvort nokkur hafi gert sé grein fyrir því hve miklar breyting þetta er fyrir okkur sem vinnum í birtingageiranum og alla sem eru að vinna við markaðsmál.
Fyrir utan þann gríðarlega kostnaðarauka sem þetta þýðir fyrir birtingahúsin, þá munu að auki koma til ný forrit, hugsanlega verður að auka við mannskap og svo þurfa allir aðilar málsins (fyrirtækin, birtingahúsin og miðlarnir) að læra að nota sama tungumálið.
Samkeppnin milli birtingahúsanna verður ekki síst á sviði hugbúnaðar og um leið aðferða við að greina gögnin sem og í því að vita og kunna að kaupa samkvæmt þeim aðferðum sem þessi gögn bjóða uppá.
Hjá MediaCom getum við gengið í gríðarlegan reynslubanka MediaCom - skrifstofanna um allan heim. Við munum einnig leggja áherslu á að nýta hugbúnað sem þróaður hefur verið í fjölda ára af GroupM fyrirtækjunum (MediaCom, Mediaedge, MindShare og Maxus) til að vinna á svona gögn. Ásamt þeirri gríðarlegu reynslu sem við höfum af íslenska markaðnum. Þess vegna erum við glöð yfir að fá svona gögn í hendurnar þegar þar að kemur.
Þórmundur Bergsson | MediaCom | Managing Director Iceland | thormundur.bergsson@mediacom.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 09:39
Svik og prettir ehf.?
Fréttaskýringaþátturinn Kompás hefur farið mikinn upp á síðkastið við að skera á ýmis kýli í samfélaginu og nú virðast þeir hafa fengið samkeppni frá Kastljósinu. Þar var í gærkvöldi haldið áfram umfjöllun um afeitrunaræðið og undirritaður skemmti sér konunglega við að horfa á manngreyið sem boðið hefur upp á fótaböð til afeitrunar engjast um yfir því að sjá vatnið litast og fyllast af "úrgangsflögum" þrátt fyrir að enginn væri fóturinn.
"Þetta hlýtur að vera vegna þess að rafskautið er gamalt og skítugt," sagði maðurinn sem reyndar þreif rafskautin vandlega á milli. Það má vel vera að hann hafi verið plataður sjálfur og trúi þessu eins og nýju neti en þetta ætti þá að duga til þess að hann fari hugsa gang sinn. En svo má líka vel vera að maðurinn viti að hann sé að svíkja fólk og pretta. Þá er vonandi að sem flestir hafi séð þetta.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2007 | 16:52
Við látum hendur standa fram úr ermum
Handbolti er mörgum ofarlega í huga þessa daganna enda hefur árangur íslenska landsliðsins á HM verið vonum flestra framar. Jafnvel þótt tvær grýlur hafi verið felldar á síðasta ári, þegar Íslendingar unnu bæði Rússa og Svía. Miðað við stemninguna sem ríkti fyrir mótið, þegar allir töldu að nauðsynlegt yrði að vinna Úkraínu til þess að komast áfram í milliriðil, mátti halda að enn ein grýlan væri orðin til en sú grýla var svo kæfð í fæðingu þegar Frakkar voru niðurlægðir á eftirminnilegan hátt.
Nú er stutt í að leikurinn við Pólverja hefjist og má þá ætla að matartímanum verði seinkað á mörgum heimilum. Vinnist leikurinn eru Íslendingar svo gott sem öruggir áfram í átta liða úrslit og eins og strákarnir okkar hafa verið að spila að undanförnu er fátt sem bendir til þess að sá áfangi náist ekki.
Síðan er spurning hvað bíður í átta liða úrslitum. Gæti verið að Króatagrýlan muni stríða okkur?
Áfram Ísland!
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 16:50
Metið slegið samdægurs
Undirritaður reyndist sannspár í síðustu færslu og ekki þurfti að bíða lengi eftir því að Úrvalsvísitalan næði sínu hæsta lokagildi frá upphafi. Þegar Kauphöllin lokaði í dag var gildi vísitölunnar 6.929,91 stig og hefur hún aldrei verið hærri.
Það er því kannski ekki úr vegi að spá því að vísitalan nái 7.000 stigum fyrir vikulok.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 15:55
Vísitala í hæstu hæðum
Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, eða OMX á Íslandi eins og það heitir í dag, nálgast nú óðfluga sitt fyrra met. Hæsta lokagildi vísitölunnar frá upphafi er 6.925,45 stig en hæsta gildi hennar innan dags er 6.990.15. Bæði metin voru sett þann 15. febrúar á síðasta ári og benti þá flest til þess að 7.000 stiga múrinn yrði rofinn og að allt væri í lukkunar velstandi.
Viku síðar birti lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings hina svörtu skýrslu sína sem setti allt á hvolf og var eins og flóðgáttir hefðu opnast. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hrundi vísitalan og náði lágmarki um mitt sumar, 5258 stigum. Síðan hefur hún verið á góðri siglingu upp á við og kæmi ekki á óvart þótt nýtt met yrði slegið á næstu dögum. Sérstaklega í ljósi þess að erlendir greiningaraðilar eru nú mun jákvæðari í garð íslenskra fyrirtækja.
Síðastliðinn föstudag náðist næst hæsta lokagildið frá upphafi, 6.918,63 stig, og er það aðeins í annað sinn sem lokagildi er hærra en 6.900 stig. Það sem af er degi hefur hún lækkað lítillega en fróðlegt verður að sjá þróun næstu daga. Eins og áður segir, það er ekki ósennilegt að 7.000 stiga múrinn verði brátt rofinn.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2007 | 17:09
3,7-4% verðbólga í mars
Þá er það loksins komið á hreint hver vísitöluáhrif verða af lækkun virðisaukaskatts á matvæli og niðurfellingu vörugjalda. Ekki hefur öllum borið saman um þetta en nú hefur Hagstofa Íslands áætlað breytinguna og ætti hún að hafa til þess bestar forsendur. Reyndar hefur fjármálaráðherra bent á að Hagstofan kunni ekki að reikna en við skulum samt treysta þessu mati. En hvaða áhrif hefur þetta á verðbólguna?
Ef við gerum ráð fyrir því að verðbólga verði óbreytt í febrúar, þ.e. 6,9% á milli ára, verður vísitala neysluverðs 266,7 stig, sem er 0,1% lækkun frá því í janúar. Lækki vísitalan síðan um 1,9% verður hún 261,7 stig í mars sem felur í sér 3,7% verðbólgu, miðað við að vísitala neysluverðs var 252,3 stig í mars á síðasta ári. Verði verðbólguhjöðnun í febrúar má hins vegar gera ráð fyrir enn lægri verðbólgu í mars. Taka ber fram að vísitala neysluverðs hækkar yfirleitt töluvert á milli febrúar og mars þar sem útsölum er þá flestum lokið. Ekki veit ég hvort Hagstofan hefur tekið tillit til þess eða hvort aðeins er verið að reikna áhrif af lækkun matvöru sem aðrar hækkanir munu síðan draga aðeins úr. Eins og mál standa í dag er ekki úr vegi að spá 3,7-4% verðbólgu í mars.
Það eru ánægjuleg tíðindi að verðbólgan skuli fara niður fyrir efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins innan tveggja mánaða. Hins vegar væri það óneitanlega hentugra ef henni hefði ekki verið þrýst niður með aðgerðum hins opinbera.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Vísitala neysluverðs lækkar væntanlega um 1,9% í mars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 22.1.2007 kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2007 | 13:55
Dæmi um mikilvægi almannatengsla
Félag kvenna í atvinnurekstri verðlaunaði í gær Höllu Tómasdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, fyrir að hafa skarað fram úr í viðskiptum og atvinnurekstri. Það er engin spurning um að Halla er vel að þessu komin enda hefur hún á skömmum tíma náð gífurlega góðum árangri í starfi sínu.
Þar ber að sjálfsögðu hæst þegar hún fékk þá Tryggva Þór Herbertsson og Frederic Mishkin til þess að semja skýrslu um stöðu íslensks fjármálalífs. Þegar þessi ákvörðun var tekin fóru erlendir greiningaraðilar mikinn í neikvæðri umfjöllun sinni um fjármálamarkaðinn hér á landi og sumir jafnvel um stöðu hagkerfisins. Skýrslan markaði þáttaskil í umfjölluninni og varð til þess að öldurnar lægði og íslensk fyrirtæki gátu tekið upp þráðinn á ný.
Halla hefur mikla reynslu sem stjórnandi hjá bandarískum stórfyrirtækjum á borð við Pepsico og verður ákvörðun hennar um að fá þá Tryggva og Mishkin til þess að taka út fjármálamarkaðinn að teljast ein sú mikilvægasta sem tekin var í íslensku viðskiptalífi á síðasta ári, a.m.k. frá sjónarhorni almannatengsla.
Sérstaklega var það mikilvægt að fá Mishkin til liðs við sig, því með fullri virðingu fyrir Tryggva Þór hefði það aðeins verið dæmt sem píp frá enn einum Íslendingnum ef hann hefði verið einn síns liðs í þessu. Mishkin er aftur á móti einn virtasti hagfræðingur heims og þátttaka hans því mikilvæg.
Þetta sýnir að mínu mati mikilvægi almannatengsla og hefur reynsla Höllu frá Ameríku þar eflaust spilað inn í. Þar skilja almannatengslin oft á milli feigs og ófeigs í viðskiptum.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2007 | 14:12
Vísa eða Skuld
Mannanafnanefnd hefur löngum valdið umræðu þegar úrskurðir nefndarinnar um hvað fólk má og má ekki heita eru gerðir kunnir. Einhvern veginn virðist það hafa færst í aukana að fólk velji börnum sínum óvenjuleg nöfn og má því ætla að hjá nefndinni hafi menn nóg að gera.
Ofurbloggarinn Steingrímur Ólafsson birtir á bloggvef sínum lista yfir nöfn sem sluppu í gegnum sigti nefndarinnar og má þar finna ýmis frekar óhefðbundin nöfn, svo ekki sé meira sagt. Tvö millinafnanna vöktu sérstaka athygli mína en bæði voru stúlkunöfn og hét önnur þeirra Vísa að millinafni og hin Skuld.
Skuld er gamalt og gott nafn úr norrænni goðafræði en undirrituðum er ekki kunnugt um hvort Vísa var notað hér áður fyrr. Á vef Hagstofu Íslands er hægt að fletta því upp hversu margir heiti hinum og þessum nöfnum og þar kemur fram að í lok árs 2004 bar engin nafnið Vísa.
Er það til marks um tíðarandann að þessi nöfn hafi verið valin? Kaupgleði Íslendinga hefur sjaldan verið meiri en einmitt nú og er gjarnan greitt fyrir það með annað hvort Vísa eða Skuld.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Nýjustu færslur
- Nokkur orð um fjölmiðlaumfjöllun vegna G3 farsímaauglýsingar
- Hvað er faglegt? Hvað er persónulegt? Veist þú það?
- Ágrip af einhvers konar æsku
- Okkur finnst ársskýrslur skemmtilegar (!)
- Ef 'almannatengslafirma' er bíll, er 'auglýsingastofa' vatnsk...
- Skýr hugsun er órjúfanlega tengd því orði sem á við hana
Nota bene
Tracking
Áhugaverðar síður
Okkar síður erlendis ásamt öðrum áhugaverðum
-
Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson - GCI bloggar í Danmörku
-
GCI Denmark
Systurfyrirtæki - Almannatengslafélag Íslands
-
British Airways
Íslandsvefurinn -
Brimborg bloggar
Fyrirtækjablogg -
Egill Jóhannsson
Vangaveltur Egils -
Microsoft Íslandi
Íslenska síðan -
Brimborg
Aðalsíða Brimborgar: Citroën, Ford, Mazda, Volvo -
Grey New York
Augl.stofa -
G2
Systurfyrirtæki -
MediaCom World wide
Alþjóðleg síða -
GCI Group
Alþjóðleg síða -
Grey Global Group Nordic
Norðurlöndin -
Grey Global Group
Höfuðstöðvar