Færsluflokkur: Bloggar

Engar persónulegar skoðanir

Bloggaði um tilkynningar KB banka um nafnbreytingu á dögunum. Hélt þar með málið dautt. Ágætur hugmyndasmiður tjáði sig um þetta blogg í tölvupósti til mín og fannst það fínt. Var sammála mér. Þó sagði hann að ‘kannski myndi hann sjálfur vilja beita öðrum og einfaldari rökum, einsog ‘ekki fyndið' eða ‘ósmekklegt'.'

Í raun er þessi tölvupóstur hugmyndasmiðsins himnasending fyrir svona einfalda menn eins og mig. Pósturinn lýsir vel mismunandi skoðunum eða öllu heldur mismunandi tegund skoðana. Hér á ég við tvær þekktar tegundir skoðana: faglegar skoðanir og persónulegar skoðanir en þær síðarnefndu eru, því miður, ríkjandi tegund skoðana þó efnið sé sérfræðilegt. Sjónarhorn hugmyndasmiðsins sýnir hversu miðlægt menn geta fundið sig.

Í nefndu bloggi reyni ég að skoða málið útfrá faglegum sérfræðigrunni boðmiðlunar. Feta mig reyndar mjög grunnt niður í grunninn þar sem ég hef ekki séð stefnumótun fyrir skilaboð nafnbreytinga Kauþings.
Tel mig hafa verið frekar varkár í þessari litlu umfjöllun sem er ekkert endilega mín faglega skoðun, almennt séð. Er frekar að minna á það sem stendur í fyrsta kaflanum í bókinni.

Held að hugmyndasmiðurinn hafi eitthvað mikið misskilið bloggið mitt þegar hann segist sammála mér. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona misskilningur á sér stað og ég verð var við í mínu daglega starfi sem ráðgjafi boðmiðlunar, hvort sem um er að ræða almannatengsl eða auglýsingar.

Ég hefði aldrei á nokkurn hátt leyft mér að lýsa persónulegum skoðunum mínum, á þessu örugglega ágæta hugverki auglýsingastofunnar/auglýsanda, á þann hátt hugmyndasmiðurinn gerði, enda hef ég engar persónulegar skoðanir á fag(hlut)verkum manna.

Að dæma herferð Kaupþings með breytum einsog ‘ekki fyndið' eða ‘ósmekklegt' verður að teljast persónulegt mat enda mjög persónubundið hvað mönnum finnst fyndið eða smekklegt.

Þess konar óábyrgt persónulegt mat er hrein móðgun við þá sem stóðu að herferðinni. Skiptir ekki máli hvort herferðin hafi verið unnin útfrá persónulegum skoðunum eða faglegum skoðunum manna sem að henni komu.

Hugmyndasmiðurinn nefnir einnig það að hann myndi ‘kannski nota einfaldari rök'. Hvað á hann við? Einfaldari? Rök? Fyrir það fyrsta geta þessar breytur ekki talist rök. Í öðru lagi eru breytur hans mjög flóknar að rýna í þar sem þær eru byggðar á tilfinningum hans og gildismati. Ókei, reyndar grunar mig að hann hafi hökkt í gegnum þetta blogg mitt; átt í einhverjum erfiðleikum með að skilja ritstílinn og sjónarhorn mitt. Lífið er ekki einfalt.


Gudjon Heidar Palsson
| Chief Executive | GCI Iceland | gudjon.palsson@gci.is



Guðjón, Ceres og Ingi

Það er undarlegt að svo virðist sem ýmsir „upplýstir" menn haldi í alvöru að G-ið í nafni GCI standi fyrir Guðjón [Pálsson], hjá GCI. Hið rétta er að GCI stendur fyrir Grey Communications International. En eigi verður við öllu séð - það er kunnara en frá þurfi að segja, en þetta er skemmtilegur brandari! 

Skrifstofa GCI hér á landi er að hluta til í eigu samnefnds systurfyrirtækis í Danmörku og Grey Nordic, sem síðan eru hluti samsteypunnar Grey Global Group sem stofnuð var í Bandaríkjunum 1917. Á árinu 2005 keypti helsta boðmiðlunarfyrirtæki heims WPP Grey Global Group og dótturfyrirtæki þess, þar á meðal alþjóðlega birtingafyrirtækið MediaCom, sem einnig starfar hér á landi.

GCI er reyndar eina boðmiðlunarfyrirtækið hér á landi sem er beinlínis í eigu erlends fyrirtækis, er það sem á ensku kallast „owned office". Það er hins vegar vel þekkt - og svo hefur verið um langa hríð - að íslensk boðmiðlunarfyrirtæki eigi í samstarfi við erlend sambærileg fyrirtæki, eru það sem kallað er „associated offices".

Til dæmis hefur Kynning og markaður - KOM um langt árabil átt samstarf við Hill & Knowlton og AP almannatengsl eru í samstarfi við Edelman. Sjálfsagt eru fleiri dæmi um slíkt samstarf hér á landi. Reyndar eiga GCI og Hill and Knowlton það sameiginlegt að þau eru í eigu WPP, sem á tugi fyrirtækja á almannatengsla- og auglýsingamarkaði um allan heim.

En hvað þetta varðar (og á fleiri sviðum) sker GCI sig frá öðrum boðmiðlunarfyrirtækjum hér á landi að því leyti að vegna beins eignarhalds systurfyrirtækis erlendis, og þar með móðurgrúppunnar, á skrifstofunni hér á landi verður GCI að lúta reglum og kvöðum sem móðurfyrirtækið gerir kröfu um. Það er til að tryggja að GCI standi fyrir það sem GCI almennt stendur fyrir. Þetta felur t.d. í sér kröfu um innleiðingu staðlaðra vinnubragða á ýmsum sviðum, þátttöku á fundum, hvort sem er erlendis eða í síma eða kröfu um gagnkvæma gagnamiðlun svo dæmi sé tekið. Til dæmis fer allnokkur tími í það hjá okkur að nálgast umbeðnar upplýsingar um ýmsa þætti hér á landi og miðla til einstakra skrifstofa erlendis eða höfuðstöðvanna í New York eða London. Að sama skapi getum við gert kröfu um aðstoð, t.d. skrifstofunnar í London.

Að sjálfsögðu verður fólk aldrei steypt í sama mót og hver skrifstofa hvar sem er í heiminum mótar sinn eigin kúltúr sem m.a. tekur mið af menningu hvers lands eða jafnvel landshluta. En það að vera „owned office" lýtur kröfu um skýlaust samband, samstarf og ákveðin vinnubrögð vegna þjónustu við viðskiptavini og þróun viðskiptasambanda. „Associated" skrifstofur ráða að mestu sjálfar hversu náið samstarf þær hafa við samstarfsaðila sína og raunar eru dæmi um sambandsslit vegna þess að lítið sem ekkert samstarf átti sér stað.

En nóg um þetta í bili - en enn og aftur - GCI stendur ekki fyrir Guðjón, Ceres og Inga!

Bolli Valgarðsson Head of Media Relations | GCI Iceland | bolli.valgardsson@gci.is


Endalausir möguleikar bloggsins

Bloggið býður upp á gífurlega mikla möguleika. Einn þeirra sem komist hafa að raun um það er hinn kúbanskaættaði Mario Lavandeira, betur þekktur sem Perez Hilton. Í viðtali sem Inga Rún Sigurðardóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, tók við þennan herramann - birtist sl. sunnudag - kom fram að fyrir ári síðan lapti hann dauðann úr skel en nú þénar hann meira en milljón dollara á ári fyrir það eitt að skrifa slúður um stjörnurnar á bloggsíðu sína.

Bloggsíðuna heimsækja um 3,5 milljónir manna daglega og tekjurnar sem Perez Hilton hefur af þessu fær hann í gegnum að selja auglýsingar á síðuna. Ansi mörg fyrirtæki eru tilbúin til þess að selja auglýsingar á svo vel sóttan vef.

3,5 milljónir heimsókna daglega jafngilda 24,5 milljónum heimsókna vikulega. Gerum nú aðeins ráð fyrir að einungis Bandaríkjamenn heimsæki vefinn og setjum þessar tölur í samhengið sem við Íslendingar miðum alltaf við, þ.e. samhengi. Bandaríkjamenn eru um 300 milljónir talsins, þ.e. um þúsund sinnum fleiri en við Íslendingar. Þannig jafngilda 24,5 milljónir heimsókna í Bandaríkjunum um 24.500 heimsóknum vikulega á íslenska bloggsíðu.

Ef litið er á vinsældalistann á blog.is kemur í ljós að tveir bloggarar fá fleiri heimsóknir - miðað við höfðatölu - en Perez Hilton. Ef við gerum okkur síðan grein fyrir því að það eru ekki bara Bandaríkjamenn sem lesa slúðrarann en einungis íslenskumælandi lesa blogg þeirra Steingríms og Sigmars getum við séð að miðað við höfðatölu eru þeir mun meira lesnir en Perez Hilton. Ætli þeim hafi ekki dottið í hug að fá sér eigið lén og selja þangað auglýsingar?

Að öllu gríni slepptu sýnir dæmið um Perez Hilton að möguleikar bloggsins eru óendanlegir og að blogg geta vissulega flokkast sem fjölmiðlar, það gerir blogg Steingríms reyndar líka enda hefur hann skúbbað ansi mörgum fréttum að undanförnu. Perez Hilton hefur ennfremur dottið niður á viðskiptahugmynd sem flokka mætti sem blátt úthaf (Blue Ocean).

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Verðbólga líklega niður ... svo aftur upp?

Hagstofa Íslands mun á morgun birta vísitölu neysluverðs (VNV) fyrir janúarmánuð og má telja fullvíst að tólf mánaða verðbólga lækki frá því í desember. Greiningardeild Landsbankans hefur spáð lítilsháttar hækkun (0,2%) en Greining Glitnis hefur spáð óbreyttri vísitölu. Gangi spá Landsbankans eftir verður verðbólgan 6,8% en gangi spá Glitnis eftir verður verðbólgan 6,6%.

Til þess að verðbólga haldist óbreytt þarf vísitalan að hækka um 0,4% á milli mánaða og virðist fátt benda til þess. Undirritaður hefur litlar forsendur til þess að spá fyrir um breytinguna en það hafa greiningardeildirnar og er spáskekkja þeirra sjaldan mikil. Þess má reyndar geta að undirritaður spáði því í frétt í Morgunblaðinu þann 11. ágúst 2006 að verðbólgutoppnum væri náð. Skemst er frá því að segja að spáin gekk eftir.

Svo gæti þó farið að verðbólga hækki eitthvað á milli janúar og febrúar en það fer allt eftir því hversu djúp útsöluáhrif verða. Til þess að verðbólga mælist 6,6% í febrúar þarf vísitalan að lækka niður í 266,0 stig en nú er hún 266,2 stig. Þegar líður á vor og sumar má gera ráð fyrir að verðbólga lækki töluvert en fram eftir síðasta ári hækkaði hún töluvert og því þarf VNV að hækka mikið nú til þess að verðbólgan haldist stöðug.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Morgan Stanley í kjölfar Citi

Árið hefur byrjað vel á hlutabréfamarkaði hérlendis, líkt og í fyrra, en munurinn er sá að nú berast jákvæðar skýrslur að utan. Virtir erlendir bankar hafa birt verðmöt á Kaupþingi og mælir annar með kaupum og hinn með markaðsvogun. Þetta hefur virkað eins og vítamínsprauta á önnur fyrirtæki og frá áramótum hefur úrvalsvísitalan hækkað um 5,66%. Velta á hlutabréfamarkaði hefur einnig verið afar góð, 164,3 milljarðar frá áramótum - sem felur í sér að á fyrstu fjórum viðskiptadögum ársins er velta nærri helmingur af því sem hún var í öllum janúarmánuði í fyrra. Það var metmánuður og við getum átt von á að nú verði nýtt met slegið.

Jákvæðar skýrslur Citigroup og Morgan Stanley hafa virðast hafa aukið bjartsýni á markaði en það er rétt að gera sér þegar grein fyrir því að verðmöt verða ekki alltaf svona jákvæð. Það er líkt með þessum bransa og öðrum að sitt sýnist hverjum og erlendir aðilar eru mun gagnrýnni en aðrir. Þetta er til marks um að áhugi erlendra fjárfesta á íslenskum fyrirtækjum hefur aukist og víst má telja að fleiri erlend fyrirtæki taki að sér á næstu mánuðum að meta íslensk fyrirtæki.

Erlendir fjárfestar líta ennþá á íslenskan markað sem áhættusaman. Erlendir greiningaraðilar munu því verða mun gagnrýnni á íslensk fyrirtæki en innlendir aðilar kunna að vera. Fjárfestir sem tapar peningum á fjárfestingu eftir að mat frá greiningarfyrirtæki bregst er ekki líklegur til þess að skipta við það fyrirtæki á ný.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Morgan Stanley gefur út verðmat á Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn með tennurnar

Sjónvarpsstöðin Sirkus sýndi í gærkvöldi hreint frábæra heimildarmynd um einn fremsta tónlistarmann sögunnar, Freddie Mercury söngvara Queen. Fjallað var um söngvarann allt frá því í æsku þegar hann var í heimavistarskóla á Indlandi, fjarri fjölskyldunni sem bjó í eyríkinu Zanzibar við austurströnd Afríku.

Freddie var magnaður söngvari og duldist það engum sem sá þáttinn hversu mikil áhrif hann hefur haft á þær kynslóðir tónlistarmanna sem fylgdu í kjölfar Queen. Ég hef lengi verið aðdáandi hljómsveitarinnar og séð fleiri en eina heimildarmynd um Freddie Mercury en aldrei séð fjallað jafn ítarlega um æsku hans og ævi. Mikið var fjallað um samkynhneigð hans, nokkuð sem söngvarinn talaði sjaldan opinskátt um. Meðal annars kom fram að hann umgekkst Elton John, sem ekki opinberaði kynhneigð sína fyrr en mörgum árum eftir dauða Freddie.

Eins og ég hef áður greint frá hér lést Freddie Mercury úr alnæmi þann 24. nóvember 1991 og vakti dauði hans mikla athylgi á sjúkdómnum. Mér er það til efs að alnæmi hafi fengið jafn mikla umfjöllun, fyrra eða síðar. Hann fékk að vita af sjúkdómi sínum fjórum árum áður en viðurkenndi ekki að hann væri veikur fyrr en degi áður en hann lést. Orðrómur þess efnis hafði þó gengið í nokkurn tíma og þeim er séð hafa myndbandið við lagið These are the days of our lives dylst ekki að þar er á ferðinni helsjúkur maður.

Að lokinni heimildarmyndinni sýndi Sirkus síðan í heild sinni tónleika Queen á Wembley 1986, eina bestu rokktónleika sögunnar. Þetta var afar skemmtilegt framtak en hefði ekki mátt sleppa auglýsingapásunum í tónleikunum?

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Actavis hugsanlegur kaupandi

Viðskiptablaðið hefur eftir Wall Street Journalsamheitalyfjaarmur þýska lyfjarisans Merck sé til sölu á um 500 milljarða króna og jafnframt að Actavis sé nefnt til sögunnar sem hugsanlegur kaupandi. Fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að talsmaður Merck vilji ekki tjá sig um málið, og það vill talsmaður Actavis ekki heldur gera.

En skal einhvern undra að Actavis sé nefnt í þessu samhengi? Félagið hefur farið mikinn í yfirtökum á undanförnum misserum og enn virðist stærðarmarkmiðum ekki hafa verið náð. Það er ekkert neikvætt við að fyrirtækið sé nefnt í tengslum við kaup á erlendum stórfyrirtækjum, það er frekar til marks um að tekið hafi verið eftir þeim góða árangri sem Actavis hefur náð og að fyrirtækið njóti orðið mikillar virðingar.

Það er erfitt að segja til um hvort Actavis sé að íhuga kaup á samheitahluta Merck. Miðað við þær tölur sem nefndar eru í frétt Viðskiptablaðsins virðist það vera einum of stór biti að kyngja. Að minnsta kosti í bili.

En maður á víst aldrei að segja aldrei.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is

 


Góðar fréttir að baki hækkunum

Það eru jákvæðar fréttir sem berast af hlutabréfamarkaði þessa daganna. Velta hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári og árið sem nú er gengið í garð virðist ætla að byrja með miklum látum. Gengi hlutabréfa hefur hækkað þó nokkuð í dag og tónninn virðist vera jákvæður.

Sérstaklega jákvæðar eru fréttir af verðmati Citigroup, sem almennt er álitinn stærsti banki heims, á Kaupþingi. Það verður einfaldlega að teljast mjög gott að banki á borð við Citigroup, sem hefur á að skipa afar öflugri greiningardeild, skuli mæla með kaupum í Kaupþingi. Það felur í sér að augu erlendra fjárfesta fyrir landinu okkar opnast enn frekar og jafnframt að tekist hefur að vinna bug á þeim neikvæðu skýrslum sem bárust á fyrri hluta síðasta árs.

Hækkunina miklu í Exista má t.d. rekja til verðmats Citigroup. Exista er langstærsti hluthafinn í Kaupþingi, með 18,94% hlut og hækkar sá hlutur verulega í virði þegar gengi Kaupþings mun hækka, sem virðist óumflýjanlegt að muni gerast á næstunni. Ennfremur má reikna með því að bjartsýni markaðarins aukist við tíðindi á borð við verðmatið og eru fjárfestingafélög sérlega næm fyrir sveiflum í væntingum. Engar aðrar fréttir hafa borist sem skýrt geta hækkunina en ef til vill má gera ráð fyrir að fjárfestar séu þegar farnir að gera ráð fyrir góðum arðgreiðslum frá Exista.

Aukinn áhugi erlendra aðila á íslenskum markaði ætti að leiða til aukinnar dýptar markaðarins, sem er jákvætt því verðmyndun verður mun skýrari og svokallaðar handaflsstýringar verða erfiðari, ef þær tíðkast þá hér á landi.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Hlutabréf hækkuðu í Kauphöll Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ennþá kátt í höllinni

Desember var metmánuður í Kauphöll Íslands því velta í hlutabréfaviðskiptum hefur aldrei verið jafnmikil í einum mánuði. Veltan var ríflega 357,4 milljarðar króna, en fyrra met hafði verið sett í fyrsta mánuði síðasta árs. Þá var veltan 333,9 milljarðar króna og það fer vel á því að þetta ár hinna miklu sviptinga á íslenskum hlutabréfamarkaði skyldi verða rammað inn með metum. Þess má reyndar geta að velta í einum mánuði hefur aðeins tvisvar farið yfir 300 milljarða.

Þegar mánaðaryfirlit Kauphallarinnar fyrir desember er skoðað kemur í ljós að aðeins í einum mánuði var veltan lægri en 100 milljarðar en það var í júlí - sem þarf ekki að koma neinum á óvart.

Nú á fyrsta viðskiptadegi ársins virðist kátínan ætla að halda áfram í höllinni því nú þegar hafa viðskipti fyrir meira en 100 milljarða átt sér stað. Það virðist vera að komast í tísku að færa eignarhluti í fyrirtækjum yfir til Hollands og má ef til vill ætla að fleiri viðskipti af þeirri stærðargráðu sem farið hafa fram í morgun eigi eftir að gerast á næstu dögum.

Það er kannski við hæfi að spá því að nýtt veltumet verði sett nú í janúar.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Brutal honesty

GCI nýtur sérstöðu á íslenskum ráðgjafa-/almannatengslamarkaði. Við erum stefnumótandi ráðgjafafyrirtæki á sviði samhæfðrar boðmiðlunar og útibú stórrar alþjóðlegrar samstæðu. Við lútum því að vissu leyti öðrum lögmálum en hérlendir keppinautar okkar. Af þeim sökum störfum við samkvæmt afar ströngum stöðlum í samræmi við kröfur samstæðunnar. Oft of ströngum finnst manni en kröfurnar taka ekkert tillit til eðli þess markaðar sem útibú samstæðunnar starfa á né hvar þau eru á líftímakúrfu fyrirtækja. Íslenska GCI er ungt skipulag í samsteypunni. Erum ennþá á beyjutímabilinu; gógó-stiginu og verðum þar næstu þrjú árin. Og íslenski markaðurinn er einnig á gógó-stiginu miðað við skilgreiningar GCI á þroskastigi markaða.

Þess má geta að Grey Global Group verður 90 ára á nýju ári. Og við verðum 3ja á morgun, ásamt systurfyrirtækinu, MediaCom Íslandi, sem á einnig 3ja ára afmæli 1. janúar.

Áfram með kröfurnar. Kynntist þeim fyrst fyrir 17 árum, þá sem starfsmaður Grey í öðru landi. Ef eitthvað er þá hafa þessar kröfur orðið strangari með árunum og þá sérstaklega þær kröfur sem settar eru á starfsmenn, bæði starfsmenn GCI - og starfsmenn viðskiptavina!

Við fyrstu sýn virðast kröfurnar æði hrokafullar og þá sérstaklega þær sem settar eru á viðskiptavini. En þegar betur er að gáð eru skiljanlegar ástæður fyrir þeim: Gæði fagfyrirtækja Grey skulu vera til staðar í öllum liðum hvar sem er í heiminum. Ollveis.

Kröfur á starfsmenn GCI

Án vafa eru þeir liðir, í kröfum til stafsmanna GCI, sem setja skilyrði um hæfni ráðgjafa GCI, erfiðastir að fylla og jafnframt viðkvæmustu að vinna með. Ástæðurnar eru í raun einfaldar. Nefni þrjár.

Fyrir það fyrsta eru fáir sérfræðingar starfandi á sérsviði GCI starfandi hér á landi. Í öðru lagi er sérfræðiráðgjöf á sviði almannatengla illa skilgreind sem sérhæfð atvinnugrein á Íslandi. Í þriðja lagi er ráðgjöfin, almennt í sjálfu sér, einnig illa skilgreind sem atvinnugrein hver sem nú sérhæfnin er (megum reyndar þakka bönkunum fyrir upphafningu sérfræðiráðgjafar). Ljóst að þessi þrjú dæmi hafa veruleg áhrif á hvert annað svo ekki sé meira sagt.

Það er ekkert leyndarmál og auðvelt að viðurkenna það, að daglega leyfum við okkur hjá íslenska GCI að standast ekki allar þær kröfur sem eigendur setja um hæfni til ráðgjafar. Það þarf mikla þjálfun til ef maður ætlar að standast þessar senior-kröfur. Þjálfun starfsmanna og samhæfing er eitt vandamál hjá fyrirtækjum á gógó-stiginu - það getur verið erfitt að finna tíma til að þjálfa starfsfólkið.

Eigendum finnst réttilega að tímaleysi til þjálfunar sé afskaplega léleg afsökun. Þeim finnst einnig voða erfitt að horfa uppá heigulsháttinn í mér sem yfirmanni hér á landi þegar kemur að því að setja (strax á gógó-stiginu) ákveðnar senoir-kröfur á íslenska starfsmenn fyrirtækisins. Það skiptir engu fyrir þá að við höfum þurft að horfa á eftir tveimur starfsmönnum labba gegnum dyrnar eftir nokkra mánaða samstaf. Heppinn ég, eigendurnir ranghvolfa augunum og kenna norræna jafnaðarlíkaninu um heigulsháttinn.

Nokkrar afsakanir eru að finna í dæmunum hér að ofan. Aðrar afsakanir eru að finna og eru kannski þær sem halda best rekstrarlega séð gagnvart eigendum: Við erum vel meðvituð um að gæði sérfræðiþjónustu GCI á Íslandi eru þrátt fyrir allt í góðum gír miðað við þroska og þarfir íslenska markaðarins. Fyrir utan það þá tökum við ekki að okkur verkefni sem við ráðum ekki við. Þau skipti sem við höfum málað okkur út í horn, höfum við fengið aðstoð frá samstæðunni. Þannig á auðvitað samvinnan að virka. Þekking án landamæra. Við erum öruggur kaupstaður í alþjóðavæðingunni.

(Innan sviga og fyrir þá sem nenna að spá í skilgreiningar og skýringar á þessari ráðgjöf sem kölluð er sérfræðiráðgjöf GCI þá fjallar hún venjulega um að skilgreina, skýra orsakir, benda á afleiðingar, skapa skilning, segja fyrir um árangur og leggja fram tillögur um aðgerðir til úrbóta. Eftir þessa hlöðnu upptalningu er ljóst að ráðgjafi GCI þarf hafa kunnáttu til að nýta kerfisbundið ákveðna þekkingu/forsendur í þágu þriðja aðila; viðskiptavinarins. Hreint út sagt, gefa menn skít í allar persónulegar skoðanir (afsakið orðavalið) - bara spurt um faglegar skoðanir starfsmanna GCI. Það sem er kannski nýtt fyrir Íslendingum er andi ráðgjafarinnar eða hvernig ráðgjöfin er taktískt veitt. Andinn er mjög svo hreinskilinn og óvægin aðferð og viðkvæm aðgerð til framkvæmda fyrir alla aðila. Andinn heitir GCI Direct Problem Solutions með viðskeytinu brutal honesty. Nóg um þetta.)

Kröfur á starfsmenn viðskiptavina GCI

Mörgum finns ég eflaust kominn út á hálann ísinn. Hér að ofan höfum við rætt lítillega um kröfur á okkur sjálf. Nú er komið að kröfum sem GCI setur á viðskiptavini. Spurningin er hvort það sé ekki best að fela þessar kröfur? Heimskt er heimaalið barn - ég ætti kannski að leita mér sérfræðiráðgjafar á sviði almannatengsla áður en ég held lengra? Held ekki. Í auðmýkt minni feta ég mig bara áfram í fótspor viðskiptavinar okkar, Brimborgar - öruggum stað til að vera á: Allt uppá orðið! GCI á að vera einsog Brimborg: öruggur vinnustaður og öruggur kaupstaður. Það vill svo til að brutal honesty-samskiptastefna Brimborg leiðir það skipulag.

Læt mér nægja að tjá mig um einn lið í kröfum á viðskiptavini: Kaupgetu viðskiptavinar. Skilgreiningin á kaupgetu þessari er margþætt og ein þeirra snýr að kaupþekkingu viðskiptavina; að viðskiptavinur verði, án undantekninga, að líta sjálfur til eigin krafna um gæði þeirrar ráðgjafar sem hann kaupir. Þetta merkir einfaldlega að viðskiptavinurinn þarf að skaffa samstarfinu starfsmenn sem kunna að kaupa ráðgjöfina, hvort sem þeir eru sérfræðingar á sviðinu eða ekki. Það er nefnilega svo að gæði ráðgjafarinnar verður aldrei betri en brífið eða verkbeiðnin frá viðskiptavininum er. Hann þarf að hafa kunnáttu til að meta gæði ráðgjafarinnar miðað við eigin markmið. Fyrst þá getur hann skrifað uppá reikninginn með góðri samvisku. Og við tekið við greiðslunni án eftirmála.

Ef viðskiptavinurinn uppfyllir ekki kröfur um kunnáttu til kaupa samkvæmt samningi þá áskiljur GCI sér rétt til þess að láta hann vita af því og jafnvel segja samstarfinu upp. En hversvegna allt þetta umstang? Getur maður ekki bara þakkað fyrir að hafa einhverja viðskiptavini? Jú auðvitað - en málið er að þjónustufyrirtæki einsog GCI verður aldrei betra að gæðum en síðasta verkefni. Hér er allur pakkinn í húfi. Þjónustan við aðra viðskiptavini sem dæmi. Ef starfsmaður eða starfsmenn viðskiptavinar kunna ekki að kaupa þjónustu GCI þá leiðir það ekki bara til misskilnings, leiðinda og óreiknishæfðra tíma, heldur einnig til þess að kostnaðarfrekt verkefni er dæmt til að mistakast. Orðspor beggja aðila er í húfi. Þetta hefur semsagt ekkert með hroka að gera. Heldur ábyrgð á heildinni.

Bottomlínan í þessu öllu er sú að GCI telur að einn óöruggur viðskiptavinur, sem ekki hefur kunnáttu til að kaupa sérhæfða þjónustuna, geti valdið það miklum óróleika hjá sérhæfðum starfsmönnum GCI sem aftur gæti leitt til þess að öruggari viðskiptavinir sem kunna að kaupa ráðgjöfina eða hafa vilja til þess að læra að kaupa hana, fái ekki þá sérfræðiþjónustu sem lagt var upp með og GCI stendur fyrir. Breyttir tímar. Tekjur af einstökum viðskiptavini getur vegið minna þó þær séu meiri en minnsti samnefnari á gæðum þjónustunnar í heildina. Hér er komið dæmið um skemmda eplið. Stærð skemmda eplsins skiptir ekki máli - það er skemmt. Er það ekki?

Uppsögn á samstarfssamningi af hálfu GCI vegna slíkra mála er einskonar verndaraðgerð fyrir heildina. Með þessari stefnu er verið að vernda aðra öruggari viðskiptavini. Minnka áhættuna á að þeir fái ranga þjónustu frá stressuðum ráðgjöfum GCI - að GCI sé alltaf öruggur kaupstaður, hvað sem á dynur. Að vernda starfsmenn á þann hátt fyrir óþarfa áreiti frá óöruggum viðskiptavinum gerir GCI að öruggari vinnustað.

Íslenska GCI hefur frá upphafi sagt upp þremur samstafssamningum. Nú síðast í nóvember. Því miður, eitt af okkar stoltustu nöfnum á viðskiptamannalistanum. Skrítin tilfinning - en án vafa- rétt vegna heildarhagsmuna GCI og annarra viðskiptavina GCI.

Gleðilegt ár.


Gudjon Heidar Palsson | Chief Executive | GCI Iceland | gudjon.palsson@gci.is

E.s. Nú er ég kominn á síðasta sjéns gagnvart konunni. Matargestirinr þurftu endilega að koma á réttum tíma. Vonandi er ekki mikið af stafsetningarvillum í textanum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband