Færsluflokkur: Bloggar
29.12.2006 | 17:00
Heimsmet í flugeldaskotfimi
Sennilega hefur það ekki farið framhjá mörgum að við Íslendingar erum meðal þeirra fremstu í heimi í nýársfagnaði. Svo rómuð er flugeldaskotfimi okkar að um 3.300 útlendingar ætla að heimsækja höfuðborgina til þess að fylgjast með sýningunni óviðjafnanlegu sem hefst þegar áramótaskaupinu lýkur, um hálftíma fyrir miðnætti.
Eitthvað hlýtur öll þessi skotfimi að kosta og ekki ósennilegt að við Íslendingar eigum heimsmet í eyðslu fjármuna í flugelda, a.m.k. miðað við höfðatölu.
Sænska viðskiptablaðið Dagens Industri birti í dag frétt á vef sínum um flugeldasölu í Svíþjóð, en þar er haft eftir formanni félags flugeldasala að Svíar eyði um 225 milljónum sænskra króna í flugelda nú um áramótin. Það jafngildir um 2,4 milljörðum íslenskra króna.
Mér hefur ekki tekist að grafa upp tölur um áætlaða sölu á flugeldum hér á landi, en Morgunblaðið greindi frá því í gær að áætlað væri að um 550 þúsund flugeldum yrði skotið á loft nú um áramótin. Ef við gefum okkur að hver flugeldur kosti um 500 krónur, að meðaltali, þá má reikna út að heildarandvirði uppskotanna er um 275 milljónir króna. Þessi tala er eflaust í lægra laginu og ekki ósennilegt að tvöfalda megi hana, eða þrefalda.
Svíar eru 30 sinnum fleiri en við Íslendingar og ef við margföldum 275 milljónir með 30 fáum við út 8,3 milljarða króna. Það er meira en 3,5 sinnum það sem Svíar skjóta upp.
Gleðilegt ár.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.12.2006 | 12:35
Nýtt Kaupþing: Hver eru skilaboðin?
Auglýsingageirinn er þekktur fyrir að einbeita sér að athyglinni. Virkni skiptir geirann ekki miklu máli. Aðrar breytur í líkani boðmiðlunar eins og skilningur skilaboða og viðhorf virðast skipta minna máli. Meiningarprófíll skilaboða og birtingarform þeirra eru þessum geira greinilega ennþá framandi.
Kaupþings vegna ætlaði ég ekki að tjá mig um þessar auglýsingar því að ef athygli mín dytti flöt í úrtak athygliskönnunarinnar þá fengi Kaupþing vafalaust rangar niðurstöður. En til þess að losna undan því að svara ótrúlegum fjölda spurninga um hvert álit mitt sé á þessum auglýsingum þá ræsi ég hér lyklaborðið.
Minnir á tilkynningar
Fræðilega er reyndar vel hægt að diskútera birtingarform skilaboðanna sem minnir frekar á tilkynningar en auglýsingar.
Reglur boðmiðlunar brotnar
Ef um er að ræða auglýsingar þá eru nokkrar grundvallarreglur boðmiðlunar brotnar. Nægir að nefna hluttekningu í meiningarprófíl skilaboðanna eða innlifun í tilfinningar annarra. En ógeðfelldar tilfinningar, sem gjarnan sitja eftir í minni fólks einsog vond lykt, er erfitt að eyða -jafnvel þótt andhverfa skilaboðanna sé kynnt daginn eftir í ljósi jákvæðra tilfinninga. Fagfólk forðast slíkar misvísanir.
Afleiðingar ósanninda
Einnig er rétt að pæla í því hvort tilgangurinn helgi meðalið, hvort sem um auglýsingar eða tilkynningar er að ræða. Sjálfsagt hefur sköpunarteyminu þótt hugmyndin eða boðberi skilaboðana það góður að sannindi skilaboðanna skiptu minna máli. Ég geri ráð fyrir því að Elínu Stefánsdóttur, fyrirtækjaráðgjafa, hafi ekki verið sagt upp starfi hjá KB banka?
Boðmiðlun gerir ekki ráð fyrir 'smá-ósanninda-djóki'. Afleiðingar ósanninda í boðmiðlun geta orðið skelfilegar fyrir auglýsandann. Sérstaklega á sama tíma og trúverðugleiki auglýsinga lækkar stöðugt.
Gudjon Heidar Palsson | Chief Executive | GCI Iceland | gudjon.palsson@gci.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2006 | 15:58
Hamskipti
Eitt af mínum fyrstu stóru verkum sem viðskiptablaðamaður á blaði allra landsmanna var grein sem bar titilinn Þegar hagfræðingurinn skiptir um ham. Þá var ég nýkominn úr námi þar sem reynt hafði verið að prenta inn í okkur að þrátt fyrir að við færum í út í stjórnmál ættum við að halda í heiðri þau lögmál sem okkur höfðu verið kennd. Þeir sem hafa áhuga, og aðgang að gagnasafni Morgunblaðsins geta lesið greinina með því að smella hér.
Ein af spurningunum sem ég setti fram þar var hvers vegna ríkisstjórnir og seðlabankar vinni oft í sitthvora áttina, þannig að ríkisstjórnir vinni gegn aðgerðum seðlabanka (Ísland er ekkert einsdæmi í þessu samhengi). Svarið er einfalt eins og fram kom í greininni:
"Hagfræðingar og stjórnmálamenn hugsa ekki á sama hátt. Það skal strax tekið fram að hér er ekki verið að beina gagnrýni á neinn heldur er markmiðið að sýna fram á að það er reginmunur á hagfræðingum og stjórnmálamönnum og gildir þar einu hvort stjórnmálamaðurinn er menntaður hagfræðingur eður ei. Ástæðan fyrir þessum mun liggur í eðli mannsins. Hagfræðingum er kennt að hugsa til langs tíma, þ.e. hvaða áhrif hefur einhver aðgerð á hagkerfið eða markaðinn eftir tíu ár. Stjórnmálamenn aftur á móti hugsa til mun skemmri tíma. Það er eðli mannsins að reyna að koma ár sinni sem best fyrir borð. Þess vegna bera aðgerðir stjórnmálamanna þess oft merki að þeir séu að leitast eftir endurkjöri. Gott dæmi um þetta er embætti forseta Bandaríkjanna en oft er sagt að forsetar þar í landi byrji ekki að stjórna fyrr en á öðru kjörtímabili sínu en eins og kunnugt er má forseti Bandaríkjanna ekki sitja lengur en í tvö kjörtímabil. Vissulega eru hér til undantekningar og eru þær oft nefndar pólitískt sjálfsmorð.
Það má því segja að þegar hagfræðingar gangast "óvininum" á hönd þá séu þeir að skipta um ham. Í stað þess að vera einbeittir fræðimenn verða þeir opinberar persónur sem verða að hafa skoðun á öllu, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í stað þess að meta áhrif aðgerða sinna til langs tíma sjá þeir hlutina í nýju sjónarhorni. Hagfræðin hefur verið nefnd "hin leiðu vísindi" vegna þess að í augum hagfræðinga eru allar auðlindir takmarkaðar. Segja má að þeir séu svartsýnasta stétt í heimi en stjórnmálamenn sem alltaf eru svartsýnir eiga ekki mikla von á að verða endurkjörnir."
Svo mörg voru þau orð.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2006 | 11:13
Vel að titlinum kominn
Róbert Wessman, forstjóri Actavis Group, var nú fyrir jólin valinn maður ársins í íslensku viðskiptalífi í árlegu kjöri Frjálsrar verslunar og er ekki hægt að segja annað en að hann sé vel að titlinum kominn. Róbert hefur leitt útrás fyrirtækisins allt frá árinu 1999 þegar hann var ráðinn forstjóri Delta í Hafnarfirði. Delta var síðan sameinað lyfjaframleiðsluarmi Pharmaco og undir stjórn Róbert og stjórnarformannsins, Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur fyrirtækið vaxið jafnt og þétt síðan og er það nú eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Ég hef áður fjallað um Actavis á þessum vettvangi og mun eflaust gera það aftur enda finnst mér þetta fyrirtæki slá taktinn í íslensku útrásinni.
Nú spyrja eflaust einhverjir hvort það sé ekki framsýni Björgólfs Thors að þakka hversu vel vöxturinn hefur gengið, enda hefur hann náð árangri á mörgum sviðum viðskiptina. Svarið er einfaldlega þannig að þú nærð ekki árangri í viðskiptum án þess að hafa gott fólk í liði með þér. Eflaust markar Björgólfur Thor stefnuna að einhverju leyti en það er Róbert sem framkvæmir hana. Ef dagsskipunin frá stjórninni er að vaxa ytri vexti þá er það forstjórans að finna vænleg fyrirtæki til þess að taka yfir og það er hans að sjá til þess að allt gangi snurðulaust fyrir sig. Það er ekki einfalt mál að fá fyrirtæki á borð við Actavis Group til þess að ganga jafn mjúklega og raun ber vitni, sérstaklega þegar samþætta þarf rekstur margra fyrirtækja við rekstur móðurfélagsins. Þar hefur Róbert sýnt snilli sína að mínu mati.
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar, segir í færslu á bloggi sínu að Róbert Wessman sé Viðskiptalistamaður ársins 2006 og tek ég undir það.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2006 | 13:25
Tími til kominn að hlusta
Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's sprengdi rétt fyrir jólin sprengju þegar lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins var lækkuð um eina skor. Þetta var ein af stórfréttunum fyrir jólin enda kom það verulega óvart, sérstaklega í ljósi þess að Moody's hafði staðfest einkunn ríkisins skömmu áður. Ég hef tilhneigingu til þess að taka frekar mark á S&P þar sem mín tilfinning, sem hagfræðings, hefur ávallt verið sú að fyrirtækið sé virtara en önnur fyrirtæki á þessu sviði.
Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Aska Capital og fráfarandi forstöðumaður Hagfræðistofnunnar, sagði réttilega að þetta væri mikill álitshnekkir fyrir efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar sem reyndar hefur verið gagnrýnd af fleiri aðilum en eingöngu S&P. Má þar nefna Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF). Þemað í þessari gagnrýni hefur ávallt verið það sama, hið opinbera er með aðgerðum sínum að grafa undan peningastefnu Seðlabanka Íslands og þar með að draga úr virkni hennar. Þetta felur eingöngu í sér að virkni stýrivaxtahækkana er minni en ella og jafnvel að vextirnir séu nú mun hærri en þeir hefðu þurft að vera til þess að virka.
Viðkvæði ríkisstjórnarinnar hefur löngum verið að hinir erlendu sérfræðingar þekki ekki þær sérstæðu aðstæður sem ríkja hér á landi, og mætti af þessu ætla að hefðbundin hagfræðilögmál gildi ekki í N-Atlantshafi. Jafnframt hafa ráðherrar bent á að ríkisstjórnin hafi lyft grettistaki í efnahagsmálum og viðskiptum.
Vissulega er ýmislegt til í því, þótt eflaust vilji fleiri eigna sér þann heiður, það hefði til dæmis án nokkurs vafa verið erfiðara að drepa úr dróma þann mikla vöxt sem hefur átt sér stað í fjármálageiranum án tilkomu Björgólfsfeðga og annarra aðila sem hafa þorað að nýta sér tækifærin. En fortíðin skiptir nákvæmlega engu máli. Nú ber að líta til framtíðar og til þess að frekar megi byggja á þeim árangri sem náðst hefur er nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að byrja að hlusta á erlenda aðila. Mat S&P hefur mun meira að segja um þau kjör og það viðmót sem ríkir gagnvart íslenskum aðilum erlendis en mótmæli fjármálaráðherra.
Hagfræðilögmálin gilda hér á landi jafnt sem annars staðar. Hækkun stýrivaxta mun á endanum bera árangur en spurningin er hver kostnaðurinn verður. Þeim mun lengur sem hið opinbera streitist á móti, þeim mun meira hækkar kostnaðurinn.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2006 | 11:14
Markinu náð
Spádómurinn sem ég setti fram í byrjun árs hefur gengið eftir. Eins og lesa má í fyrri bloggfærslu spáði ég því að velta í viðskiptum með hlutabréf í Kauphöll Íslands færi yfir 2 billjónir króna á þessu ári. Í færslunni sem vísað er í að ofan áréttaði ég þessa spá og nú er hún formlega orðin að veruleika.
Samkvæmt vef Kauphallar Íslands er veltan það sem af er ári nú komin í 2,08 billjónir króna, þ.e. 2.080 milljarða, næstum 100 milljarða umfram 2 billjóna markið. Þar með hefur met síðasta árs sem var 1.202 milljarðar verið slegið með miklum stæl. Þetta sýnir að þrátt fyrir að vísitölur hafa ekki hækkað sem margir ætluðu hefur markaðurinn haldið dampi vel en aukna veltu má lesa sem vísbendingu um aukna dýpt markaðarins.
Það verður spennandi að sjá hver lokavelta ársins verður en oft má sjá stórar færslur koma til í lok hvers árs. Einnig verður spennandi að sjá hvort þessi þróun heldur áfram, þ.e. veltumet slegið á hverju ári. Fyrstu mánuðurin næsta árs muni gefa okkur vísbendingu um það.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2006 | 00:39
Hve lengi höldum við út?
Þegar ég var unglingur spurði ég vinnuveitanda minn í aðdraganda kosninga hvaða flokk hann hyggðist kjósa. Sá svaraði að líkt og allir sem eitthvert hefðu viðskiptavitið ætlaði hann að kjósa Alþýðuflokkinn. Þegar ég spurði hann um ástæðuna var svarið einfalt: flokkurinn setti Evrópumálin á oddinn og að það væri eitthvað sem síðar myndi verða eitt mesta hitamál íslenskrar þjóðfélagsumræðu.
Síðar kom í ljós að ekki var mikið fyrir viðskiptavitinu að fara en hvað varðaði Evrópumálin hafði maðurinn rétt fyrir sér. Og að mínu mati hafði hann rétt fyrir sér þegar hann lýsti því yfir að Íslandi væri fyrr eða síðar nauðsynlegt að gerast aðili að ESB.
Aðild Íslands að Evrópusambandinu, og eða evrunni, í einhverri mynd er orðin að einu helsta hitamáli þjóðfélagsumræðunnar og þótt ekki fari jafn mikið fyrir umræðunni um ESB og oft áður má víst telja að hún verði eitt af kosningamálum vorsins.
Sitt sýnist hverjum um Evrópusambandið, t.d. má nefna samtökin Heimssýn sem finna ESB flest til foráttu og blogga á hverjum degi um allt það neikvæða við sambandið. Ekki eru þó öll þeirra rök jafn góð og verð ég að nefna nýjasta dæmið, sem er vísun í þýska skoðanakönnun þar sem 58% aðspurðra segjast vilja fá þýska markið á ný og kasta evrunni fyrir róða. Úrtakið er 1.000 manns í landi sem telur ríflega 82 milljónir manna. Ekki getur það talist marktæk úrtak.
Síðan eru þeir sem telja Evrópusambandið vera af hinu góða og vil ég þá sérstaklega vísa til pistils Þorvaldar Gylfasonar, prófessors, í Fréttablaðinu í gær. Þar rekur hann í stuttu máli feril sambandsins og færir ágætis rök fyrir því af hverju íslensk aðild væri ekki svo slæm.
Það eru margar hliðar á flestum teningum og sennilega munum við seint öll verða sammála um nokkurn hlut. Í mínum huga er þetta fyrst og fremst spurning um efnahagsmál. Getur lítið hagkerfi eins og Ísland haldið úti eigin gjaldmiðli til lengdar? Ég efast um það.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.12.2006 | 16:05
Við breytumst en ekki fjölmiðlarnir ... eða ...
Ég hjó eftir þessum skemmtilegu tölum (sjá neðar) við upprifjun á stöðu fjölmiðla á Íslandi. Reyndar urðu þessar pælingar til í sambandi við vangaveltur um Netið (Veraldarvefinn) og hvernig það ætti að ganga af öðrum fjölmiðlum dauðum. Gaman að vera að rifja þetta upp núna þegar allir virðast vera að stofna nýja og stækka gamla fjölmiðla ... yndislegt.
Fyrir u.þ.b 20 árum, þegar leyfi til ljósvakareksturs var gefinn frjáls og næstu ár á eftir var því snarlega spáð að Sjónvarpið (RÚV) og aðrir miðlar sem ekki keyrðu prógram fyrir ungt fólk af krafti myndu deyja. Þeir myndu deyja vegna þess að áhorfendurnir (eða hlustendurnir) myndu "horfa" með þeim í gröfina.
Fyrir 10 árum eða svo voru það um 67% þjóðarinnar sem að kveikti á Sjónvarpinu á hverju kvöldi (að meðaltali) - samkvæmt sömu gögnum 10 árum síðar (okt 05) kveikti 67% þjóðarinnar á Sjónvarpinu. Hummm, vöxum við upp í að verða áhorfendur (svo sem eins og hlustendur- því það sama var uppá teningnum varðandi útvarp) - eða ...
Eina sem hafði breyst er að Fréttablaðið hafði tekið stöðu Moggans - það held ég nú!
Þórmundur Bergsson | MediaCom | Managing Director Iceland | thormundur.bergsson@mediacom.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2006 | 15:22
Nýtt hljóð í strokkinn
Actavis hefur á undanförnum misserum farið mikinn við kaup á fyrirtækjum eða verksmiðjum, og nú síðast var tilkynnt um slík kaup í gær. Fyrirtækið hefur vaxið mikið og er eitt helsta stolt Hafnfirðinga úti í hinum stóra heimi.
Nú berst hins vegar frétt af því að Actavis sé að selja framleiðslueiningu í frændríki okkar Noregi. Þetta er eflaust fullkomlega eðlilegt og í fullu samræmi við stefnu félagsins. En frétt af því að Actavis sé að losa eignir er óneitanlega skemmtileg tilbreyting.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
![]() |
Actavis selur lyfjaverksmiðju í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2006 | 10:37
Spáin gekk eftir
Eins og spáð hafði verið á þessum vettvangi ákvað bankastjórn Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti. Hækkunin var 0,25 prósentustig og eru vextirnir nú 14,25%. Ég hef fært rök fyrir því að Seðlabankinn átti engra annarra kosta völ en að hækka vexti því þrátt fyrir að flest bendi til þess að slakna sé á spennu í hagkerfinu getur bankinn ekki leyft sér þann munað að bíða eftir því að verðbólgan fari niður fyrir efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins, sem er 4%.
Þess má geta að greiningardeild KB banka spáði einnig hækkun en Greining Glitnis sagði langmestar líkur á að stýrivextir yrðu óbreyttir, sem og greiningardeild Landsbankans.
Greiningardeildirnar virðast sammála um að þetta sé síðasta vaxtahækkunin í bili en eins og ég sagði einhvern tímann, það hefur reynst mörgum illa að reyna að spá fyrir um aðgerðir Seðlabankans. Að minnsta kosti ætla ég að bíða eftir næstu verðbólgutölum áður en ég hætti mér út í slíkar aðgerðir.
Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is
![]() |
Stýrivextir hækkaðir um 0,25 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Nýjustu færslur
- Nokkur orð um fjölmiðlaumfjöllun vegna G3 farsímaauglýsingar
- Hvað er faglegt? Hvað er persónulegt? Veist þú það?
- Ágrip af einhvers konar æsku
- Okkur finnst ársskýrslur skemmtilegar (!)
- Ef 'almannatengslafirma' er bíll, er 'auglýsingastofa' vatnsk...
- Skýr hugsun er órjúfanlega tengd því orði sem á við hana
Nota bene
Tracking
Áhugaverðar síður
Okkar síður erlendis ásamt öðrum áhugaverðum
-
Jón Örn Marinósson
Jón Örn Marinósson - GCI bloggar í Danmörku
-
GCI Denmark
Systurfyrirtæki - Almannatengslafélag Íslands
-
British Airways
Íslandsvefurinn -
Brimborg bloggar
Fyrirtækjablogg -
Egill Jóhannsson
Vangaveltur Egils -
Microsoft Íslandi
Íslenska síðan -
Brimborg
Aðalsíða Brimborgar: Citroën, Ford, Mazda, Volvo -
Grey New York
Augl.stofa -
G2
Systurfyrirtæki -
MediaCom World wide
Alþjóðleg síða -
GCI Group
Alþjóðleg síða -
Grey Global Group Nordic
Norðurlöndin -
Grey Global Group
Höfuðstöðvar