Skýr hugsun er órjúfanlega tengd því orði sem á við hana

ORÐ eru undirstaða allrar okkar siðmenningar. Því eitt allra fyrsta ferlið sem fer í gang þegar við yfirgefum móðurkviðinn er þróun einhvers konar ‘orðræðu’ –  samskipta við umheiminn sem hefst með öskri. Lærdómsferli fer í gang. Við byrjum að undirbúa okkur undir það að læra að tjá okkur. Með afar ófullkomnum tjáskiptum. En þau eru samt upphafið að mótun orðanna. Öskrið er í raun fyrsta orðið. Sem tjáir afar frumstæða ‘hugsun’. En við erum að ‘segja’ eitthvað. Og það er alveg í takt við óþroskaða ‘hugsun’ okkar og ósiðaða tilveru.   

Við byrjum á því að öskra og grenja (sem er semsagt ekki mjög siðmenntað), öskrum sársaukaöskri þegar klippt er á naflastrenginn og grenjum viðstöðulaust þangað til við fáum mat – mjólk. Svo heimtum við meiri mat (meiri mjólk), öskrum svo meira og hjölum svo og tístum í smá stund og öskrum svo ennþá meira og förum svo að grenja. Þangað til við sjáum brjóst og fáum mjólk. Þessi hringrás er upphafið að öllu í lífi okkar. Og jafn frumstæð og hún er, þá þjálfar hún okkur í að móta okkar fyrstu hugsanir samhliða því að fyrstu orðin eru að verða til. 

Við byrjum smám saman á allra fyrstu vikum okkar ósjálfbjarga tilveru að bögglast við að tjá okkar ofureinföldu og sjálfhverfu sýn á lífið (af hverju fæ ég ekki meiri mjólk?) og gefa viðbrögð við umhverfi okkar. Því sem við sjáum. Þannig er sjónin gríðarlega stór þáttur í upplifun okkar fyrstu dagana og vikurnar í lífi okkar (og auðvitað það sem eftir er ævinnar). En við þurfum ekki að læra að sjá. Ekki strax. Við sjáum bara (við lærum ekki að sjá fyrr en í listasögu mörgum árum síðar). En byrjum smám saman að ‘make sense of it all’ með því að rembast við að búa til eitthvað sem kalla má hugsanir í litla kollinum (sem tengjast hjalinu sem seinna verður að orðum), meðal annars í kringum það sem við sjáum og upplifum: Mamma, brjóstið á mömmu, mjólkin, snertingin, pabbi – öll þessi furðulegu fyrirbrigði sem fyrir augu bera.   

Deila má um hvort þau taugaboð sem eiga sér stað í heila litla óvitans fyrstu vikurnar eftir að í heiminn er komið, séu ‘hugsanir’ í eiginlegri merkingu ‘orðsins’. En samt er ljóst að eiginleg ‘hugsun’ byrjar að mótast samhliða því sem hjalið þróast. Tjáningin í tón og hæð í viðbrögðum krílsins við heiminum og tilraunir þess til að hafa áhrif á hann þróast svo og breytast í takt við framgang þess sem kalla má ‘hugsun’ og er smám saman að verða til í litla kollinum.  

Og alveg samhiða þessu mótunarferli hugsunarinnar er hjalið að breytast í orð. Þegar orðið ‘mamma’ verður loksins til, er hugmyndin um mömmu og hvað mamma er orðin mjög skýr. Mjólkin ef til vill líka. Snertingin. Brjóstið á mömmu. Pabbi. Hlátrunum fjölgar svo eftir því sem fleiri orð og fleiri hugsanir þeim tengd verða til í víðáttum litla hugans.

Þannig er mannshugurinn og hugmyndir hans og hugsanir órjúfanlega tengdar orðunum. Orðin gera okkur 'mennsk'. Því án þeirra værum við eiginlega svipt mennskunni. Hugurinn er eins og ófrjóvgað egg sem orðin (sæðisfrumurnar) frjóvga og úr þessu tvennu verður til skýr hugsun, órjúfanlega tengd því orði sem á við hana. 

Ragnar Halldórsson, GCI  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband