Íslenska orðið 'útvarp' þýðir það sama og 'broadcasting'

Orðið ‘útvarp’ er vanmetið. Og misskilið. Því oftast er það notað í merkingunni ‘hljóðvarp’ en ekki í merkingunni – að dreifa merkjum víða – sem er mun víðtækari og í raun mun réttari merking. Og bein þýðing á merkingu enska orðsins ‘broadcasting’.

Eflaust má rekja þennan óvana til þess að Ríkisútvarpið gamla hóf hljóðvarpssendingar áratugum fyrr en sjónvarpssendingar. Ríkisútvarpið var kallað ‘útvarpið’ á meðan starfsemi þess snerist eingöngu um hljóðvarpssendingar, en ekki sjónvarpssendingar, sem leiddi til þess að orðið ‘útvarp’ fór smám saman að merkja það sama og ‘radio’ en ekki ‘broadcasting’.

Besta íslenska þýðingin á enska orðinu ‘broadcasting’ er auðvitað þetta stutta og laggóða, hreina, tæra orð ‘útvarp’. Því ‘broadcasting’ merkir að dreifa merkjum víða. Varpa merkjunum út. Breska ríkisútvarpið heitir BBC, eða British Broadcasting Service. Og þessvegna heitir Ríkisútvarpið einmitt Ríkisútvarpið, svona í höfuðið á sinni móðurlegu bresku fyrirmynd.  

Enska orðið ‘radio’ svínvirkar. Líka ‘television’ og ‘TV’. Þessi orð eru eiginlega jafngóð og íslenska orðið ‘sími’, sem er frábært upprunaorð og oft notað sem dæmi um bestu nýyrði íslenskrar tungu. ‘Sjónvarp’ er líka fín þýðing á ‘television’ þótt aldrei hafi fundist íslensk útgáfa á styttingunni ‘TV’.  

En orðið ‘hljóðvarp’ er auðvitað hundleiðinlegt orð, tilgerðarlegt og óþjált. Ef til vill vegna þess að maður hefur aldrei vanist því. Og ‘útvarp’ er vissulega ágæt þýðing á ‘radio’, það verður að viðurkennast. En vandamálið er að ‘útvarp’ á mun betur – merkingarlega – við ‘broadcasting’ en ‘radio’.

Orðin ‘hljóðvarp’, ‘sjónvarp’ og ‘útvarp’, eru öll listasmíð og snilldarþýðingar á orðunum ‘radio’, ‘television’ og ‘broadcasting’. Það virðist engin leið að finna betri þýðingar á þessum heimsfrægu ensku orðum. Vandinn er bara sá að inn í íslenska tungu og hugsun vantar nothæft orð yfir ‘broadcasting’ sem allir skilja strax hvað merkir. Það er í raun ekki til í dag. Þótt hugtakið ‘broadcasting’ sé kýrskýrt í hugum enskumælandi fólks er það eiginlega ekki til í hugsun almennings á Íslandi. Og íslensk hugsun (og íslensk tunga) verður fyrir vikið örlítið fábreyttari. Hún þyrfti endilega að fá skýra íslenskun á hugmyndinni og merkingunni bak orðinu ‘broadcasting’. Í eitt skipti fyrir öll.

Það vantar semsagt heilt orð í hugsun Íslendinga. Heilt hugtak. Og þegar maður pælir í því þá er íslenskan svo orðafá miðað við til dæmis ensku, að þetta leiðir hugann að öllum hinum orðunum og hugtökunum sem vantar í íslenska hugsun. Það vantar eiginlega þúsundir orða í hugsun Íslendinga!

Ragnar Halldórsson, GCI.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband