Nokkur orð um fjölmiðlaumfjöllun vegna G3 farsímaauglýsingar

Snilld segir í umfjöllun um 3G auglýsingu Símans. Hún hefur skapað umræður og umfjöllun á kaffistofum og í fjölmiðlum. Gárungarnir velta því jafnvel fyrir sér hvort auglýsingin hafi ekki einmitt verið gerð til þess eins að um hana verði fjallað. Viljum ekki trúa því að það hafi verið aðal markmiðið. Getur ekki verið að faglegt teymi auglýsandans fari þannig með fjármagnið. Óvissan er of mikil ef við gerum ráð fyrir því að teymið eigi að ávaxta fjármagnið.

Innbyrðis er töluverður munur á athygli og eftirtekt og skilningi skilaboða. Þennan mun þarf að setja í útreikningana ef einhver stjórn á að vera á verkefninu. Skilaboð sem birtast á sama tíma í auglýsingum, fréttum eða milli fólks á kaffistofum eru ekki til þess fallin að hafa stjórn á. Þau hafa heldur ekki sömu virkni þar sem boðkerfið sem slíkt hefur áhrif á þetta sefjunarferli. Ekki má gleyma í þessum útreikningum að sendandi skilaboðanna skiptir máli og hvar orðspor hans liggur einmitt þá stundina sem skilaboðin birtast. Þetta eru bara nokkrar breytur, en það er nóg. Óvissuþættirnir eru of margir.

Nokkur atriði sem menn verða að hafa í huga varðandi meinta snilld. Taka þarf mið af samanlögðum kostnaði við gerð auglýsingarinnar og birtinga hennar ef menn vilja meta snilldina og áætla virði umfjöllunarinnar. Einnig þarf að taka mið að því að virkni auglýsinga minnkar almennt við umfjöllun. Ef auglýsing er metin sem brella eða um hana fjallað á þann hátt þá er augljóst, öllum sem hafa þekkingu á virkni auglýsinga, að virknin snarminnkar (ef ég má nota það orð). Virknin gæti orðið engin. Í versta falli gæti hún snúist upp í andstæðu sína; skapað neikvæð viðhorf.  

Hvað verður um virkni 3G auglýsingarinnar veit auglýsandinn í raun og veru ekki á þessari stundu. Hins vegar þarf hann að gera ráð fyrir því að skilaboð auglýsinga séu háð markmiðum um ákveðna tíðni birtinga. Bæði hvað varðar dekkun og sefjun. Alveg óljóst er hvort umfjöllun í einn eða tvo daga uppfylli þessi markmið um dekkun og sefjun.


Hvað er faglegt? Hvað er persónulegt? Veist þú það?

Tilgangurinn með fyrirtækjabloggi Grey Team Iceland, GCI Group Iceland og MediaCom Iceland er að koma sjónarmiðum samsteypunnar á framfæri í gegnum boðrásarkerfið veraldarvefinn með boðleiðinni blog.is

Boðmiðlunartungumálið lýtur að sjálfsögðu lögmálum boðmiðlunarinnar og endurspeglar þessvegna þá hugsun sem býr að baki hverri fagaðgerð, markmiðum og stefnumótun. Það er talað um ‘boðmiðlun’ (PR eða auglýsingar) og ‘boðskipti’ (bein samskipti á milli manna). Svo eru ‘boðrásarkerfi’ (til dæmis sjónvarp, hljóðvarp, veraldarvefurinn, bíó, dagblöð, tímarit) og ‘boðleiðir’ (til dæmis Stöð 2 eða Sjónvarpið, Bylgjan eða Rás 2, mbl.is, eða visir,is, Smárabíó eða Regnboginn, Fréttablaðið eða Morgunblaðið, Mannlíf eða Sagan öll).

Kerfisbundin, fagleg vinnubrögð

Til að ná eftirsóttum markmiðum og uppfylla þau gæði sem eiga að einkenna allt starf GCI Group Iceland eru kerfisbundin, fagleg vinnubrögð lífsnauðsynleg. Kerfisbundin og fagleg vinnubrögð eru aðallega sambland af tvennu: Faglegri (og víðtækri almennri uppsafnaðri) þekkingu ( m.a. á lögmálum heimsins og mannlífsins, auk uppsafnaðrar visku) og sjálfsaga. 

Og þá er grundvallaratriði að gera greinarmun á því sem er annars vegar faglegt (professional) og hins vegar persónulegt (personal). Það er mjög auðvelt að ‘finnast’ eitthvað svona prívat og persónulega. Manni ‘finnst’ þetta og hitt, án þess sérstök rök hnígi endilega til þess að það sé ‘rétt’ hjá manni eða ‘rangt’. Manni bara ‘finnst’ það, hvort sem það er ‘gáfulegt’ eða ‘heimskulegt’ hjá manni.

Faglegar skoðanir vs. prívatskoðanir

Segja má að alltof oft stjórnist alltof stór hluti þjóðfélagsins af þess konar duttlungarfullum prívatskoðunum, sem eru oftast án nokkurs aðhalds frá sjónarmiðum sanngirni eða upplýstrar skynsemi. Sem er auðvitað afleitt. En einmitt þessvegna segjum við hjá GCI Group Iceland að ekkert pláss sé fyrir prívatskoðanir ráðgjafa og starfsfólks hjá okkur. Bara skoðanir sem eru faglegar. Og þessvegna setjum við ráðgjafarnir upp fagleg sólgleraugu í hvert sinn sem við löbbum inn á skrifstofuna. Oftast tökum við þau ekki einu sinni af nefinu þegar við förum þaðan. Og ef við gerum það þegar við komum heim, þá erum við alltaf með þessi sólgleraugu við hendina og setjum þau upp hvar og hvenær sem við þurfum þess Cool.

Viltu ganga að eiga..?...Já!

(Ef viðskiptavinur með áríðandi erindi hringdi til dæmis í okkur, í okkar eigin giftingarathöfn, milli þess sem presturinn spyrði ‘viltu ganga að eiga...’ og við segðum ‘já’, myndum við setja augnablikið á ‘hold’, setja á okkur faglegu sólgleraugun, svara símanum, hefja vinnu við úrlausn málsins eða leysa það strax, taka augnablikið svo úr pásu og segja svo hátt og skýrt: ‘já’.)

Við pössum vel upp á perluna

Frá og með þessum orðum ætlum við að fara inn í faglegu skelina hér á blog.is, taka með okkur perluna og loka skelinni á eftir okkur í þeirri merkingu að engin prívatnöfn birtist hér lengur. En áður en við gerum það ætlum við að minna á algjöra hreinskilnismenningu okkar auk hugleiðinga um prívat vs. faglegt með því að vísa á eftirfarandi blogg:

http://greyteam.blog.is/blog/greyteam/day/2006/12/31/

 


Ágrip af einhvers konar æsku

'Breytum reglunum' + ‘starf, háttvísi, þroski, hamingja’...

Hugsunin í kjörorði ‘GCI Group Iceland’ dagsins í dag – ‘Change Rules’ – 'breytum reglunum’ – hefur í raun verið með mér frá fimm ára aldri og alla tíð ofarlega í huga – eða alveg síðan ég strauk af leikskólanum Sunnuborg í Sólheimum fimm ára.  Ég klifraði yfir hátt og oddhvasst grindverkið og lét leikskólafélaga mína hjálpa mér með því að ýta mér upp svo ég næði að príla yfir beittsagaða spíssana efst á hverri spýtu. Drengurinn lét sig svo hafa það að falla niður á götuna hinumegin og reyndi svo eins og hann gat að rata til föðurömmu sinnar í Álfheimum. ‘Change Rules’. Á hverjum degi aftur og aftur strauk ég úr leikskólanum vegna þess að Bergur frændi minn, sem var ári eldri en ég var hættur og núna var ég einn og án hans. Sem var frekar vont því hann var svo skemmtilegur og líka sterkasti strákurinn í leikskólanum. Þessi frændi minn var svo góður við mig að hann lamdi alla með skóflu sem ætluðu að vinna mér mein. Ég gat leikið mér í friði. En ekki lengur. Svo ég fór í Ísaksskóla. 5 ára í 6 ára bekk. En í frímínútum í Ísaksskóla fór ég ekki út af lóðinni, heldur elti ég stelpurnar innan leiksvæðisins í frímínútum með hóp stráka og lét strákana halda stelpunum meðan ég kyssti þær. Það var aðal sportið. Koss á kinnina. ‘Change Rules’. Kjörorð Ísaksskóla var farið að segja til sín: ‘Starf, háttvísi, þroski, hamingja'...

'Polaris' pottar 

Segja má að ‘samskipti’ – ‘communications’ hafi þrætt flestar mínar athafnir eins og rauður þráður frá því ég byrjaði að þvælast fimm ára fyrir afgreiðslukonunum í búsáhaldabúð afa míns, Sigurðar Sigurðssonar í versluninni Hamborg við Laugaveg (Klapparstígsmegin) og selja mína fyrstu ‘Polaris-potta’ (sem ég komst snemma upp á lagið með) en afi borgaði mér 500 kall á dag í minni fyrstu sumarvinnu þar (slík bein sala er kölluð ‘boðskipti’ á PR tungumáli. 'Polaris' var fyrsta vörumerkið - 'brand-ið' sem ég tók alvarlega auk Coca cola). Þetta var sumarið áður en ég byrjaði í Ísaksskóla.

‘Við fluttum'

Ellefu ára trítlaði ég í prentsmiðjuna Odda með póstkort sem móðir mín fékk sent frá vinkonu sinni sem flutti til Svíþjóðar. Á því var teiknuð mynd af pallbíl með búslóð uppá pallinum og í þartilgerða reiti hafði vinkonan skrifað gömlu ‘adressuna’ og svo þá nýju undir yfirskriftinni 'Við fluttum'. Ég sá strax að þetta var söluvara og bað Knút Signarsson hjá Odda að prenta þetta fyrir mig í tólf hundruð eintökum, sem hann og gerði, þótt hann væri hissa á þessum ellefu ára strákling. Svo seldi ég póstkortin í bókabúðir og græddi smá pening. ‘Change Rules’. Boðskipti aftur.

(Appelsínuvín)

(Ég ætla ekki að hafa með appelsínuvínið sem við Biggi 'Spíri' brugguðum 14 ára og seldum jafnöldrum okkar í Hagaskóla og Vesturbænum. Ekki heldur sprittið sem við sendum mömmu Bigga að kaupa í apótek víðsvegar í bænum og eymuðum í vísindalegum eymingargræjum og seldum stundum líka. Einu sinni tók Björgólfur yngri þátt í að búa til eimaðan spíra á þennan hátt með mér heima á Bræðraborgarstíg. 'Change Rules' en við tölum helst ekki um það.) Whistling 

'Royale' PR

Sextán ára bjó ég til dreifikerfi fyrir ‘Royale’ sígarettur(!) sem Ágúst Kristmanns frændi minn flutti inn hjá Snyrtivörum hf. – og sá alfarið um að auglýsa og kynna þessa forboðnu bannvöru og tryggja henni áberandi stað í hillum búða með mútum (eitt eða tvö karton af sígarettum gera margt mögulegt) þrátt fyrir strangt ‘auglýsingaforbud’ á henni – með því að setja t.d. penna í bandi með ‘Royale’-vörumerkinu um hálsinn á öllum starfsmönnum Hagkaupa og fleiri stórra vinnustaða, eins og Pósts og síma – og ‘Royale’-öskubakka í mötuneyti risavinnustaða (þá mátti reykja á flestum vinnustöðum). ‘Tactical Planning’ á boðmiðlunarmáli. Og í raun hreint og klárt 'PR'. Vissulega ‘Change Rules’.

‘Áróðursdreifingarskrifstofa Bandaríkjanna’

Fyrst ég er dottinn inn í sjálfsævisögulegt ‘storytelling’ get ég alveg eins haldið áfram. Í almannatengsladeild Menningarstofnunar Bandaríkjanna var ég Friðriki Brekkan innan handar með dreifingu á ýmsum ‘upplýsingum’ út í þjóðfélagið (‘menningarstofnun’ er fín þýðing á ‘United States Information Agency’ eða ‘upplýsingaþjónustu’ Bandaríkjanna, sem er líka huggulegt orð fyrir áróðursdreifingarskrifstofu, því U.S.I.S. var ekkert annað ‘with all due respect’ ).  Svo fjölbreytt voru verkefni okkar Friðriks að þau spönnuðu allt frá því að hlaða niður efni af gagnasjónvarpi bandaríska utanríkisráðuneytisins – ‘WorldNet’, til þess að skipuleggja fundi íslenskra stjórnmálamanna og bandarískra hernaðarsérfræðinga, keyra með þá til Þingvalla og koma svo upplýsingum frá þeim til ‘vildarvina’ Bandaríkjanna víðsvegar um þjóðfélagið.

‘Á sauðkindin Ísland?’

Þetta var eiginlega byrjunin á ‘broadcasting’ hjá mér því í þrú ár tók Sjónvarpið við mér sem umsjónarmanni unglingaþáttanna ‘Poppkorns’ og svo ‘Smella’. Björn Emilsson ‘pródúsent’ vildi svo endilega að ég tæki til við að aðstoða hann við beinar útsendingar ‘Á tali með Hemma Gunn’ og við tóku nokkur ár innan og utan Sjónvarpsins.  Þar komst ég ekki hjá því að kynnast Hrafni Gunnlaugssyni – fyrst sem dagskrárstjóra og svo sem framkvæmdastjóra Sjónvarpsins. Hrafn var afar ‘stimúlerandi’ yfirmaður – alltaf ‘aksjón’ alltaf að rugga bátnum aldrei að leggja árar í bát alltaf að láta stjórnast af hugrekki, aldrei gefast upp fyrir meðalmennsku, læra að ‘þegja’ yfir leyndarmálum o.s.fr. Þetta var eiginlega doktorsnám í ‘anti-meðalmennsku’. Sú ‘vara’ sem olli mestum usla í samvinnu okkar Hrafns hét ‘Á sauðkindin Ísland’ og var umræðuþáttur um kindur. Já og svo ‘current affairs’ þáttur um þá löngun íslenskra kvikmyndagerðarmanna þess tíma að breyta Háskólabíói í ‘cinematek’ eða listrænt bíó. Háskólabíó hótaði RÚV málskókn svo útvarpsráð bannaði þáttinn – ‘ala- Hrafn Gunnlaugsson. Hann hefur aldrei verið sýndur opinberlega.  Svona lærði ég að vera ennþá óþekkari en ég er að upplagi. ‘Change Rules’.

‘Licence to kill’

Mér þótti óneitanlega mjög gaman að útvarpsþáttum sem Ólafur Þórðarsson (Ríó tríói) bað mig að stjórna á Aðalstöðinni þegar Ólafur Laufdal átti hana (áður en Baldvin Jónsson keypti Aðalstöðina) og hétu ‘Í vikulokin’ og ‘Spurt og spjallað’.  Ólafur gaf mér ‘algjört frelsi’ og ég notaði það til að búa mér til ‘licence to kill’ á vel valda listamenn, hugsuði og aðra áhugaverða sérvitringa sem í fyrsta lagi myndu ‘aldrei’ koma í tveggja klukkustunda ‘in depth’ viðtal í beinni útsendingu (áskorunin var þessvegna sú að gera hið ómögulega mögulegt með því að fá þetta fólk til að mæta) og hins vegar að fá ‘algjört leyfi’ (‘licence to kill’) til að rekja garnirnar úr þessu fólki og ‘lesa það’ niður í kjölinn. Þannig kynntist ég til dæmis Matthíasi Johannessen, Guðbergi Bergssyni, Stefáni Baldurssyni, Þuríði Pálsdóttur, Hauki Morthens og Sigfúsi Halldórssyni auk mun fleiri ‘viðfangsefna’, eins og Þorsteini Gylfasyni, Þórhildi Þorleifsdóttir og Ingibjörgu Haraldsdóttur.

Hitti ‘viðfangsefnin’ alltaf fyrir beina útsendingu til undirbúnings, allt uppí tíu sinnum. Fór til dæmis nokkrum sinnum til Mattíasar á Moggaskrifstofuna í Aðalstræti. Matthías þarf alltaf að hafa fast land undir fótum svo það endaði með því að við fórum ekki í beina útsendingu heldur tókum viðtalið upp. Þetta var rétt fyrir jólin og Baldvin Jónsson keypti svo Aðalstöðina og vildi senda þáttinn út á jóladag. Við Matthías vorum búnir að undirbúa ‘in depth’ viðtalið með mörgum fundum og þegar loksins kom að upptökudegi var skáldið með skætt kvef. Allt gekk mjög vel í okkar samtali en hann hóstaði svo mikið milli ‘síkvensa’ að þegar við tæknimaðurinn fórum að klippa viðtalið saman hófum við vinnuna kl. tíu um morguninn þann dag og hættum ekki fyrr en tíu daginn eftir. Það var tímafrekt að klippa alla hóstana hans Matthíasar út. En líka að gera samtalið ‘brilljant’. Ég umturnaði röðinni á þessu sögulega samtali og þegar Baldvin Jónsson kom til vinnu um tíuleytið daginn eftir og frétti að við hefðum verið að alla nóttina og tæknimaðurinn væri á tvöföldu kaupi allan þann dag umturnaðist Baldvin og tók æðiskast (skiljanlega). Ég hélt ró minni því mér var sama um smá aukakostnað Baldvins í þágu snillinnar og Matthíasar. Mér fannst tilurð þáttarins fórnarinnar virði. Ég skutlaði spólu til Matthíasar og setti innum bréfalúguna. Daginn eftir frétti ég að Matthías hefði komið til mín þar sem ég bjó á Gamla Garði á háskólalóðinni og félagar mínir þar hleyptu honum inn í litla herbergið mitt. Þegar ég kom heim voru allar útgefnar bækur Matthíasar á skrifborðinu mínu áritaðar frá honum, svo hrifinn var Matthías af vinnu minni vegna samtalsins. Þetta lagði grunnin að ‘sálufélaga’samskiptum okkar Matthíasar sem hafa svifið yfir vötnum æ síðan, enda hafði ég frá unga aldri fylgst grannt með skrifum Matthíasar í Moggann og hann var mesta ‘idolið’ mitt af öllum ‘viðfangsefnum’ Spurt og spjallað. (Þess má geta að samtalið við Matthías er tínt í filmusafni Þjóðleikhússins, en þegar ég starfaði þar sem 'markaðsfulltrúi' nokkrum árum síðar bað ég tæknimennina að kópíera það fyrir mig og þeir tíndu því...) ‘Change Rules’.

Byltingin í Portúgal

Guðbergur líkti Íslendingum við ‘rollur með reifið á sér’ hlaupandi útá berangri, man ég, og síðan þá hef ég alltaf séð skýrt og greinilega þessa hlið á Íslendingum. Sem gamall ‘kommi’ hafði Guðbergur og hefur enn að mínum mati raunsæjar ‘borgaralegar’ hugmyndir um heiminn, sem mér hugnast vel. Guðbergur varð til dæmis vitni að byltingunni í Portúgal, og visst ‘borgaralegt raunsæi’ vinstrimannsins Guðbergs kom skýrt fram þegar hann sagði frá því að bankastjórarnir voru reknir úr bönkunum og verksmiðjustjórar svældir út úr skrifstofum sínum og svo framvegis.  Og þegar búið var að henda aðlinum út úr höllunum og brenna og brjóta og skjóta og byltingin hafði heppnast var haldin veisla í marga daga á götum úti. En þegar partíið var orðið þreytt og menn nenntu ekki lengur að sukka og kveikja elda útá götu – rann upp fyrir þeim að einhver þyrfti að stjórna bönkunum af viti. Einhvern þurfti til að stýra verksmiðjunum af einhverju viti. O.s.frv. Þetta þótti mér lýsa vel klárheitum Guðbergs sem vinstrimanns sem er enginn kjáni. Þjóðfélagið – heimurinn – þarf á ‘toppum’ þjóðfélagsins að halda. Meira að segja ‘yfirstéttin’ er lífsnauðsynleg fyrir hina borgarana. Allir hafa sitt hlutverk í mósaíkmynd lífsins. 'Change Rules'. Gott í bili. Meira síðar...

...Ragnar.


Okkur finnst ársskýrslur skemmtilegar (!)

Cool Í faglegt blogg GCI Group Iceland ratar ýmislegt sem gefur innsýn í hugarheim okkar. Og þar sem við hugsum líka á ensku detta hér inn ‘enskar’ hugleiðingar okkar um ársskýrslu ‘mömmu’ okkar, Wpp: 

We at GCI Group Iceland think the WPP report is a gift of ‘numbers with story and soul’, and we did like the ‘quick read’ start before the ‘in depth’ varied read. We liked the fact that it´s users friendly humble look was neither threatening nor impersonal. The report certainly presented us with knowledge and insight into the most valuable thoughts of our WPP leaders – gave us a glimt into the essence of it all, into the brains behind the brilliant WPP ‘world coverage’. We think quality presented this way nurtures inspirational communication between our people in all continents, and within different categories of our businesses.  

We loved the pioneer-spirit running through most of the report´s content. The importance to change challenges into opportunities, and how chaos and ‘surprise’ seem to be a part of our ‘new brave world’. Most industries are changing fast– creating even more opportunities. And in this new ‘communication age’, demand for our professional wisdom increases. Technology moves faster than ever, increasing the need to sharpen our focus and get to know even more about the most hidden treasure: Human nature. A new balance is being created out of all of this, with big contributions from our industry´s vast resources, helping the world to make sense out of all of these unexpected developments. 

The portrets of WPP leaders in the report did give us a closer contact, more intimacy. We now know what the words 'PR chic' mean(!)... And business reflections mixed with hard facts plus info with forecasts for future developments and vision from our WPP world leaders gave us valuable insight into WPP mentality and helped us to see important fractions of our WPP family. We tapped into the deep pool of rich experiences of WPP-people in its 2.000 offices around the world.  

As we thank you for the WPP Annual Report, we at GCI Group Iceland would like to stress how enthusiastic we are to contribute our share in nurturing the WPP culture by any means, in order to increase the interactive dynamics, coherence, mutual inspiration, and learning of our people.  

Best regards from us at GCI Group Iceland.


Ef 'almannatengslafirma' er bíll, er 'auglýsingastofa' vatnskassinn í bílnum

ÞEGAR ég kom sem nýr almannatengill/ráðgjafi inn í pr-bransann (með stórum stöfum) og hóf störf hjá Grey Communications International á Íslandi, eða GCI Group Iceland – opnuðust augu mín sem aldrei fyrr – fyrir undrum og leyndardómum svokallaðrar boðmiðlunar (marketing/business communications).

Í fyrstu stafaði mér viss ógn af því margskipta og fjölþjóðlega stórfyrirtæki sem myndar regnhlíf yfir GCI Iceland og öllum hinum börnunum sínum í fyrirtækjaformi – er mamman sem vakir yfir öllum sínum gríslingum – og ber nafnið Wpp (sjá wpp.com) en svo minnkaði ‘ógnin’ aðeins.

Wpp Group er einn af risunum á heimsmarkaði á sviði samskipta og eitt af sex stærstu auglýsingatengdum fyrirtækjum heimsins sem skráð eru í kauphöll. Hjá ‘barnafyrirtækjum’ Wpp starfa hvorki meira né minna en 97.000 manns í meira en 2.000 skrifstofum í 106 þjóðlöndum heimsins.

Meðal fjölmargra undirfyritækja Wpp (sjá wpp.com/WPP/companies/) eru Grey og MediaCom, en Grey hérlendis heitir einmitt GCI Group Iceland og er sérfræðifirma á sviði boðmiðlunar (á meðan Grey í New York er t.d. auglýsingastofa) en sá misskilningur virðist algengur hérlendis að blanda þessu tvennu saman, þ.e. að setja undir sama hatt almannatengsl (Public Relations), þ.e. boðmiðlun annars vegar og auglýsingastofustarfsemi hins vegar. Sem er auðvitað alrangt.

Áður en ég tæpi á muninum á þessu tvennu er rétt að það komi fram að systurfyrirtæki GCI Iceland – MediaCom er birtingar- og dreifingaraðili margs konar auglýsinga (sem á boðmiðlunarmáli er kölluð ‘greidd miðlun’) í öllum tegundum ‘boðrása’ (sem eru t.d. sjónvarp, hljóðvarp, Netið, bíó, prentmiðlar o.s.frv) og ‘boðleiða’ (sem eru undirflokkar boðrása, eins og t.d. Stöð 2 eða Sjónvarpið, Rás 1 eða Bylgjan, mbl.is eða visir.is, Smárabíó eða Regnboginn, Morgunblaðið eða Fréttablaðið). Og þar sem MediaCom er systurfyrirtæki GCI Group Iceland, starfa þau bæði saman að ýmsu leyti þegar við á.

GCI Group Iceland er svokallað ‘Reputation Management Consulting Company' sem byggir á fræðum boðmiðlunarinnar við að veita faglega og eingöngu faglega ráðgjöf á sviði ‘business communications’. GCI Group Iceland er því fyrst og fremst faglegt ráðgjafafyrirtæki á sviði almannatengsla. Þar er heldur ekkert pláss fyrir prívatskoðanir starfsmanna heldur eru öll verkefni séð með faglegum augum boðmiðlunarinnar. Ráðgjöfin er veitt í vissu ferli og GCI Iceland einbeitir sér að því sem á ensku er kallað ‘Direct Problem Solutions’ þar sem byggt er á algjörri hreinskilni (‘brutal honesty’). Svo nokkur dæmi séu nefnd vinnur GCI faglegar stefnur inn í framtíðina – ‘strategíur’ – með viðskiptavinum sínum og tekur að sér að fylgja því eftir að passa upp á að allt samskiptaefni sem frá viðskiptavininum kemur passi inn í þá stefnu svo byggja megi upp verðmæti, t.d. í formi ‘ímyndar’ fyrirtækisins og að hún sé skýr og klár (sem fæst m.a. með því sem nefnist ‘samhæfð boðmiðlun’ eða ‘integrated communications’). Ímyndin byggir svo á að upplifunin á þeim eiginleikum sem eru til staðar í fyrirtækinu sé hagstæð og alltaf sú sama og styrkist sífellt. Þannig byggist merki/vörumerki fyrirtækisins upp, sem kallað er 'branding'.  

Einn af hornsteinum boðmiðlunarinnar er ‘boðberinn’. Boðberinn er til dæmis dæmisagan eða hugmyndin sem kemur til skila kjarnanum í þeim skilaboðum sem miðla þarf til fólks svo helst skapist hjá því viðhorfsbreyting.  Eitt frægasta dæmið um dæmisögur sem boðbera er auðvitað hvernig Jesú notaði til dæmis dæmisögur til að miðla upplýsingum til áheyrenda sinna sem breyttu viðhorfum þeirra til margra hluta. Dæmisögur hans voru ‘boðberarnir’ sem báru í sér boðin með þeim hætti að þau komust ansi vel til skila.

En til að nálgast örlítið þennan mun sem er á almannatengslafirma og auglýsingastofu má segja að munurinn á þessu tvennu sé – ja, jafn mikill og á til dæmis fullbúnu eldhúsi annars vegar og brauðrist hins vegar. Eða enn betra: Eins og á bíl annars vegar og vatnskassa bílsins hins vegar. Því ef almannatengslafirma í ‘integrated communications’/’samhæfðri boðmiðlun’ eins og GCI Group Iceland, er bíll þá er auglýsingastofan eins og vatnskassinn í bílnum.

Í bíl er búið að samhæfa alla bílpartana og búa til úr þeim eitt ‘samhæft’ farartæki. Og það er einmitt hlutverk almannatengslafirmans að samhæfa skilaboð, en aðeins hluti þessara skilaboða koma frá auglýsingastofunni. Því auglýsingastofan og allar hennar aðferðir eru aðeins eitt af mörgum ‘verkfærum’ almannatengslafirmans til að koma sínum ‘integrated’ (samhæfðu) skilaboðum til skila. Sem byggja á faglegum og fræðilegum aðferðum um langtímamarkmið ekki síst, í takt við langtímastefnu og alveg skýra "glæru" þar sem þau markmið’ eru skýr og klár. Meira síðar.

//Ragnar


Skýr hugsun er órjúfanlega tengd því orði sem á við hana

ORÐ eru undirstaða allrar okkar siðmenningar. Því eitt allra fyrsta ferlið sem fer í gang þegar við yfirgefum móðurkviðinn er þróun einhvers konar ‘orðræðu’ –  samskipta við umheiminn sem hefst með öskri. Lærdómsferli fer í gang. Við byrjum að undirbúa okkur undir það að læra að tjá okkur. Með afar ófullkomnum tjáskiptum. En þau eru samt upphafið að mótun orðanna. Öskrið er í raun fyrsta orðið. Sem tjáir afar frumstæða ‘hugsun’. En við erum að ‘segja’ eitthvað. Og það er alveg í takt við óþroskaða ‘hugsun’ okkar og ósiðaða tilveru.   

Við byrjum á því að öskra og grenja (sem er semsagt ekki mjög siðmenntað), öskrum sársaukaöskri þegar klippt er á naflastrenginn og grenjum viðstöðulaust þangað til við fáum mat – mjólk. Svo heimtum við meiri mat (meiri mjólk), öskrum svo meira og hjölum svo og tístum í smá stund og öskrum svo ennþá meira og förum svo að grenja. Þangað til við sjáum brjóst og fáum mjólk. Þessi hringrás er upphafið að öllu í lífi okkar. Og jafn frumstæð og hún er, þá þjálfar hún okkur í að móta okkar fyrstu hugsanir samhliða því að fyrstu orðin eru að verða til. 

Við byrjum smám saman á allra fyrstu vikum okkar ósjálfbjarga tilveru að bögglast við að tjá okkar ofureinföldu og sjálfhverfu sýn á lífið (af hverju fæ ég ekki meiri mjólk?) og gefa viðbrögð við umhverfi okkar. Því sem við sjáum. Þannig er sjónin gríðarlega stór þáttur í upplifun okkar fyrstu dagana og vikurnar í lífi okkar (og auðvitað það sem eftir er ævinnar). En við þurfum ekki að læra að sjá. Ekki strax. Við sjáum bara (við lærum ekki að sjá fyrr en í listasögu mörgum árum síðar). En byrjum smám saman að ‘make sense of it all’ með því að rembast við að búa til eitthvað sem kalla má hugsanir í litla kollinum (sem tengjast hjalinu sem seinna verður að orðum), meðal annars í kringum það sem við sjáum og upplifum: Mamma, brjóstið á mömmu, mjólkin, snertingin, pabbi – öll þessi furðulegu fyrirbrigði sem fyrir augu bera.   

Deila má um hvort þau taugaboð sem eiga sér stað í heila litla óvitans fyrstu vikurnar eftir að í heiminn er komið, séu ‘hugsanir’ í eiginlegri merkingu ‘orðsins’. En samt er ljóst að eiginleg ‘hugsun’ byrjar að mótast samhliða því sem hjalið þróast. Tjáningin í tón og hæð í viðbrögðum krílsins við heiminum og tilraunir þess til að hafa áhrif á hann þróast svo og breytast í takt við framgang þess sem kalla má ‘hugsun’ og er smám saman að verða til í litla kollinum.  

Og alveg samhiða þessu mótunarferli hugsunarinnar er hjalið að breytast í orð. Þegar orðið ‘mamma’ verður loksins til, er hugmyndin um mömmu og hvað mamma er orðin mjög skýr. Mjólkin ef til vill líka. Snertingin. Brjóstið á mömmu. Pabbi. Hlátrunum fjölgar svo eftir því sem fleiri orð og fleiri hugsanir þeim tengd verða til í víðáttum litla hugans.

Þannig er mannshugurinn og hugmyndir hans og hugsanir órjúfanlega tengdar orðunum. Orðin gera okkur 'mennsk'. Því án þeirra værum við eiginlega svipt mennskunni. Hugurinn er eins og ófrjóvgað egg sem orðin (sæðisfrumurnar) frjóvga og úr þessu tvennu verður til skýr hugsun, órjúfanlega tengd því orði sem á við hana. 

Ragnar Halldórsson, GCI  


Íslenska orðið 'útvarp' þýðir það sama og 'broadcasting'

Orðið ‘útvarp’ er vanmetið. Og misskilið. Því oftast er það notað í merkingunni ‘hljóðvarp’ en ekki í merkingunni – að dreifa merkjum víða – sem er mun víðtækari og í raun mun réttari merking. Og bein þýðing á merkingu enska orðsins ‘broadcasting’.

Eflaust má rekja þennan óvana til þess að Ríkisútvarpið gamla hóf hljóðvarpssendingar áratugum fyrr en sjónvarpssendingar. Ríkisútvarpið var kallað ‘útvarpið’ á meðan starfsemi þess snerist eingöngu um hljóðvarpssendingar, en ekki sjónvarpssendingar, sem leiddi til þess að orðið ‘útvarp’ fór smám saman að merkja það sama og ‘radio’ en ekki ‘broadcasting’.

Besta íslenska þýðingin á enska orðinu ‘broadcasting’ er auðvitað þetta stutta og laggóða, hreina, tæra orð ‘útvarp’. Því ‘broadcasting’ merkir að dreifa merkjum víða. Varpa merkjunum út. Breska ríkisútvarpið heitir BBC, eða British Broadcasting Service. Og þessvegna heitir Ríkisútvarpið einmitt Ríkisútvarpið, svona í höfuðið á sinni móðurlegu bresku fyrirmynd.  

Enska orðið ‘radio’ svínvirkar. Líka ‘television’ og ‘TV’. Þessi orð eru eiginlega jafngóð og íslenska orðið ‘sími’, sem er frábært upprunaorð og oft notað sem dæmi um bestu nýyrði íslenskrar tungu. ‘Sjónvarp’ er líka fín þýðing á ‘television’ þótt aldrei hafi fundist íslensk útgáfa á styttingunni ‘TV’.  

En orðið ‘hljóðvarp’ er auðvitað hundleiðinlegt orð, tilgerðarlegt og óþjált. Ef til vill vegna þess að maður hefur aldrei vanist því. Og ‘útvarp’ er vissulega ágæt þýðing á ‘radio’, það verður að viðurkennast. En vandamálið er að ‘útvarp’ á mun betur – merkingarlega – við ‘broadcasting’ en ‘radio’.

Orðin ‘hljóðvarp’, ‘sjónvarp’ og ‘útvarp’, eru öll listasmíð og snilldarþýðingar á orðunum ‘radio’, ‘television’ og ‘broadcasting’. Það virðist engin leið að finna betri þýðingar á þessum heimsfrægu ensku orðum. Vandinn er bara sá að inn í íslenska tungu og hugsun vantar nothæft orð yfir ‘broadcasting’ sem allir skilja strax hvað merkir. Það er í raun ekki til í dag. Þótt hugtakið ‘broadcasting’ sé kýrskýrt í hugum enskumælandi fólks er það eiginlega ekki til í hugsun almennings á Íslandi. Og íslensk hugsun (og íslensk tunga) verður fyrir vikið örlítið fábreyttari. Hún þyrfti endilega að fá skýra íslenskun á hugmyndinni og merkingunni bak orðinu ‘broadcasting’. Í eitt skipti fyrir öll.

Það vantar semsagt heilt orð í hugsun Íslendinga. Heilt hugtak. Og þegar maður pælir í því þá er íslenskan svo orðafá miðað við til dæmis ensku, að þetta leiðir hugann að öllum hinum orðunum og hugtökunum sem vantar í íslenska hugsun. Það vantar eiginlega þúsundir orða í hugsun Íslendinga!

Ragnar Halldórsson, GCI.


Orð skipta máli.

Heyrði í prófessor Guðmundi Oddi í Kastljósi í gær. Hann var beðinn um að meta auglýsingar stjórnmálaflokkanna. Veit ekki hvaða bækur prófessorinn hefur lesið en hann staðhæfir að orð skipti ekki máli. Hann boðar mynd og málleysi í auglýsingum. Fræðileg nákvæmni Guðmundar er með ólíkindum.

Hvenær ætla menn að fara læra það að boðmiðlun er ekki listgrein. Hvenær ætla menn að læra að kjósendur eða neytendur eru ekki fífl? Er hann t.d. að meina það að kjósendur finni atkvæði sínu stað út frá pilsi Jónínu eða þögn Geirs? Við vitum að ákvörðunarferlið er tölvuvert flóknara en það. Fólk er ekki heiladautt.

Sagt er að kjósendur vilji bara sjá, finna og upplifa - og ekkert annað. Prófessorinn (einsog margir aðrir listamenn) vilja meina að enginn lesi langa texta og enginn nenni að hlusta á langt mál. Það er ekki nema von að þessu sé haldið fram ef þeir sem það gera eru þeir sömu og fylla þennan hóp sem nennir ekki að lesa og hlusta.

Fullyrðingar Guðmundar eru rangar. Þetta eru rangar skoðanir og hafa verið það frá upphafi rannsókna á efninu. Það er nánast sama hversu rannsóknin er illa gerð og frá hvað tíma hún er. Munur á leshæfni texta í auglýsingum frá 50 orðum til 500 orða eru nokkur prósent niður.
Neytendur eða kjósendur lesa langan texta ef hann er áhugaverður fyrir þá. Neytendur hlusta einnig á langt mál ef það er áhugavert fyrir þá.
Samkvæmt þessum niðurstöðum má ætla að þeir sem boða orðleysi og myndir kunni ekki að framleiða eða skrifa eftirtektarverð skilaboð fyrir auglýsingar (copy). Bara vanda sig.

Við vitum að táknræn skilaboð er mikilvægur sefjunarþáttur í auglýsingum en að niðurlægja orðræn skilaboð boðmiðlunar með þessum hætti er með öllu óásættanlegt af hálfu manns í þessari stöðu. Einkennileg hegðun. Hún getur ekki talist fagleg útfrá boðmiðluninni og þeim fræðum. Icke.

Textafræðileg nákvæmni er greinilega ekki íslenskt gen. Fróðlegt væri að sitja á móti prófessornum og fræðilega rökræða við hann um auglýsingar – og boðmiðlun almennt.
Það er kannski best að þegja?

Communications is not art.

- Guðjón Pálsson


 


Umdeild meðferð

Íslenskir íþróttafréttamenn hafa gert það að listgrein að beita orðinu umdeilt rangt. Nýjasta dæmið er að finna í íþróttafréttum á Stöð 2 í gær. Þar var sagt frá vítaspyrnu sem dæmd var í leik Sevilla og Tottenham í Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu á Skírdag. Orðrétt sagði að vítaspyrnan hefði "þótt afar umdeildur dómur."

Hlutir eru annað hvort umdeildir eða ekki, þeir þykja ekki umdeildir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt orðalag heyrist og virðist sem íþróttafréttamenn geri ekki greinarmun á því að vera umdeilt og umdeilanlegt. Hlutur getur þótt umdeilanlegur, eða jafnvel vafasamur, en sé deilt um þá eru þeir umdeildir.

Og hananú.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Á að afnema jólin?

Ég verð að taka undir sjónarmið þess efnis að ekki sé við hæfi að halda úrslitakeppni frekar ófyndinna brandarakarla á föstudaginn langa. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að brandarar þeir sem látnir eru flakka í slíkum keppnum eru sjaldan mjög heflaðir.

Föstudagurinn langi er einn allra helgasti dagur kristinnar trúar og auk þess er hann sorgardagur. Það gildir einu hvort fólki finnist þetta vera úrelt hefð - ef hin kristilega skírskotun páskanna er orðin úrelt hlýtur það sama að eiga við um jólin. Með sömu rökum mætti því afnema jólin.

Með því að setja keppni á borð við þessa á Föstudaginn langa er verið að lýsa frati á gamlar hefðir - hefðir sem við ættum að heiðra.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is „Fáránlegt“ að úrslitakvöld Fyndnasta manns Íslands sé á föstudeginum langa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband