Margar hliðar á öllum teningum

Umræðan um erlent fólk á íslenskum vinnumarkaði heldur áfram og ekki ólíklegt að þetta verði eitt mesta hitamál kosningabaráttunnar í vor. Eins og á við um flest önnur mál er margir áhugaverðir fletir á málinu og nær öruggt að seint verða allir sammála um málið. Einn af göllunum við þessa umræðu er sá að í henni felast miklar tilfinningar og í slíkum málum gætir oft misskilnings.

Ég var ræða við einn félaga minn um þessi mál um helgina, tek það fram að hann er að mestu leyti sammála mér um þessi mál og hafði einmitt lesið bloggfærslu mína Saga af batnandi lífskjörum. Fyrr þann dag hafði komið fram í fréttum að pólskir starfsmenn hjá einhverju byggingaverktakafyrirtæki fengju um 150 þúsund krónur á mánuði, og þar af greiddu þeir um 60 þúsund fyrir fæði og gistingu. Restina sendu flestir til fjölskyldna sinna heima í Póllandi. Ekki fylgdi sögunni hvort þessi upphæð var fyrir eða eftir skatta en það virðist engu að síðurvalda einhverjum áhyggjum að 60% launanna séu send úr landi. Þarna er verið að flytja verðmæti úr landi.

Þetta var meðal þess sem við félagarnir ræddum og benti ég honum á þá einföldu staðreynd að ef ekki væri fyrir þessa pólsku verkamenn myndu þessi verðmæti ekki verða til. Vissulega fara einhver verðmæti úr landi, en eftir standa húsin sem þeir eru að byggja, sem eru varanleg verðmæti. Ennfremur fara 40% launanna í að kaupa mat og húsnæði. Húsnæði sem ef til vill nýttist ekki áður er að skila eigendum sínum tekjum.

Sem sagt: það eru fleiri en ein hlið á þessu máli eins og öðrum. En ég vil þó taka fram að frekar en öðrum þykja mér 150 þúsund krónur fyrir að strita 12 tíma á dag, sex daga vikunnar, ekki mannsæmandi laun. Hvort sem miðað er við fyrir skatt eða eftir.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Einn fremsti tónlistarmaður sögunnar

Síðastliðinn föstudag voru 15 ár síðan ein helsta hetja tónlistarsögunnar féll frá; Freddie Mercury, söngvari hljómsveitarinnar Queen, sem hafði verið ein vinsælasta hljómsveit heims um nær tveggja áratuga skeið.

Sönghæfileikar Freddie voru ótrúlegir og fáir rokksöngvarar höfðu jafn mikið vald á því sem þeir voru að gera. Á sviði var hann einstakur, sem og hljómsveitin öll, og segja margir þeirra sem hafa upplifað tónleika með Queen það hafa verið lífsreynslu sem aldrei líður úr minni. Einstaklega minnisstæðir munu Live Aid tónleikarnir sem haldnir voru á Wembley í London árið 1985. Þar báru Queen af öðrum hljómsveitum og staðfestu orðspor sitt sem besta hljómleikasveit í heimi. Sagt er að tiltölulegra nýlegri könnun hafi frammistaða Queen á Live Aid verið valin besta tónleikaframmistaða hljómsveitar frá upphafi.

Mercury lést úr alnæmi og varð það til þess að almenn umræða um sjúkdóminn kviknaði. Það var aðeins degi áður sem sögusagnir þess efnis að hann væri með alnæmi voru staðfestar en fullyrða má að hann hafi orðið mörgum harmdauði.

Þeir sem vilja fræðast frekar um Mercury geta annaðhvort fylgt tenglinum hér að ofan eða farið á Wikipedia en ef einhverjir eru að velta fyrir sér tenginunni við almannatengsl má geta þess að hann var menntaður auglýsingateiknari.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is

 


Hvenær er rétti tíminn?

Michael Richards, frægur grínisti, hefur fengið almannatengil í sína þjónustu til þess að lægja öldurnar eftir að hann lét miður falleg orð falla um þeldökkan áhorfanda á sýningu sinni. Og reyndar lét hann ekki þar við sitja því einhvers staðar las ég að hann hefði látið bandaríska gyðinga heyra það við annað tækifæri. Þar með hefur manninum, sem hlýjaði öllum um hjartarætur með túlkun sinni á Kramer, tekist að móðga nánast alla þá sem tilheyra minnihlutahópum þar vestra. Myndband af ummælum Richards má finna á vef CNN.

Ætli almannatenglinum takist að koma Richards í náðina á ný? Ekki skal hér úr því skorið en spurningin er hvort það sé ekki heldur seint að ráða almannatengilinn nú. Kannski ekki fyrir einstakling, en hefði fyrirtæki lent í þessu hefði verið heldur seint að byrgja brunninn eftir að barnið datt ofan í hann.

Það er því miður allt of algengt að fyrirtæki láti almannatengsl sitjá á hakanum. Margir telja sig geta gert þetta innanhúss, og enn aðrir virðast vera þeirrar skoðunar að almannatengsl séu bóla sem springur og að það sé algjör þvæla að eyða peningum í slíkt. Síðan dynja ósköpin yfir og þá er oft heldur seint í rassinn gripið að fá aðstoð sérfræðinga utan úr bæ. Áfallastjórnun er mun einfaldari ef almannatengillinn þekkir innviði fyrirtækisins fyrirfram, það er alltaf erfiðara að koma að verki ef maður þarf að byrja á að kynna sér boðleiðir innan fyrirtækja o.s.frv.

Árangursík almannatengsl eru langtímaverkefni. Skammtímaaðgerðir á borð við það að malbika ofan í holur geta haft góð áhrif til skamms tíma en það dugir ekki til lengdar. Góð almannatengsl eru virðisaukandi og því ber að taka slík mál alvarlega.

 Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is „Kramer“ réði sér almannatengil til þess að koma iðrun sinni á framfæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnetur

Oft er talað um að auglýsingar séu eitt lægsta form listsköpunar, ég er alveg ósammála því, fátt gleður mig meira en frábær auglýsing, hún hrífur mig á sama hátt og fallegt listaverk....en hvar er línan og hver segir hvað er list og hvað ekki. Alveg frá því að ég man eftir mér hafa auglýsingar vakið áhuga minn, yfirleitt eru þetta auglýsingar með sterkt myndmál eins og ein sem ég sá fyrir stuttu, við (áhorfandinn) erum stödd á sjávarbotni og horfum upp, fullt af hákörlum eru á milli okkar og yfirborðsins syndandi í rólegheitum og vekur kona í gulum sundbol engan áhuga þeitrra þar sem hún busslar með hausinn upp úr sjónum....gríðarlega flott mynd en maður áttar sig ekki alveg á um hvað málið snýst fyrr en maður sér að þetta er auglýsing frá Tampax...s.s. túrtappaauglýsing.
Önnur sem ég man eftir í fljótu bragði...hver auglýsing er andlitsmynd, karlar og konur með mismunandi áverka, eins og það hafi verið lamið...en í hæga horninu er mynd af glugahreinsiúða..s.s. fólkið labbaði á gler sem hafði verið þrifið með þessum rúðuvökva...snilldar lausn á ekkert sérlega spennandi vöru. 
Eða þessi hér um rasisma.
Ein bloggsíða sem ég fer reglulega á er Advertising for Peanuts. Þarna setur bloggarinn inn reglulega bráðskemmtilegar auglýsingar, oft þarf maður að skoða þær í soldinn tíma til að átta sig eins og til dæmis MacDonalds auglýsingarnar sem eru þarna.....þarna eru menn að hugsa í alveg öfuga átt finnst mér en það svín virkar. .....nóg í bili, góða helgi
Halldor R Larusson | Head of Art Direction | GCI Iceland | halldor.larusson@gci.is

Hvenær verður samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja til?

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja hefur verið þó nokkuð í umræðunni á undanförnum vikum, sérstaklega eftir að Björgólfur Guðmundsson skrifaði miðopnugrein í Morgunblaðið um þetta fyrirbæri. Ég hef áður bloggað um hádegisverðarfund þar sem skýrslugerð um CSR var rædd en tilefni þessarar færslu er grein sem birt var í Markaðnum, viðskiptakálfi Fréttablaðsins í gær, undir fyrirsögninni Ábyrgð eða auglýsing?

Ég saknaði eftirfylgni við spurninguna í fyrirsögnina en það er þó jákvætt að fjölmiðlar séu farnir að veita þessu athygli. Það sem eftir satí mínum huga eftir að hafa lesið greinina er spurningin áleitna í fyrirsögninni. Ef við tökum Glitnismaraþonið sem dæmi má spyrja sig: Er það dæmi um auglýsingu eða samfélagslega ábyrgð?

Ég velti þessu mikið fyrir mér í gær og í morgun og spurningin er alltaf sú sama: Hvar eru mörkin dregin? Ég get tekið undir lokaorð blaðamanns Markaðarins, sem sagði að ef ekki væri fyrir myndarlegan stuðning fyrirtækja við ýmis menningar- og íþróttamálefni væri fátæklega um að litast á þeim vettvangi. En gera fyrirtækin þetta bara af einskærri góðmennsku. Styrkir fyrirtæki A einhverja tónleika af því að starfsmenn þess hafa svo gaman af tónlist? Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að svo sé ekki. Fyrirtækin sjá sér einhvern hag í því að styrkja slíka viðburði. En hvar eru mörkin dregin? Hvenær hættir slíkur stuðningur að vera markaðsstarfsemi og fer að verða samfélagsleg ábyrgð.

Hver einasta aðgerð af þessu tagi hefur visst auglýsingalegt gildi, þ.e. hefur jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja. Þessi áhrif á ekki að vera erfitt að mæla í krónum og tölum. Heilabrot mín hafa leitt mig til þeirrar niðurstöðu að þegar styrkurinn er orðinn hærri en hið auglýsingalega gildi í krónum talið, er hægt að tala um samfélagslega ábyrgð. Ekki fyrr. Og hananú.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Fjárfestatengsl: Ung grein á uppleið

Félag um fjárfestatengsl hélt afar áhugaverðan og skemmtilegan fund í hádeginu í dag. Þar fjallaði Sigurborg Arnarsdóttir, yfirmaður fjárfestatengsla hjá Össuri, um hvernig fyrirtækið hefði byggt upp fjárfestatengsl sín á síðustu árum.

Sigurborg er ein sú allra sjóaðasta á þessu sviði hérlendis, hefur starfað beint við fjárfestatengsl síðan árið 2001, og það var því afar áhugavert að heyra hana segja frá því góða starfi sem hefur unnið hjá Össuri. Starfi sem skilaði félaginu Norrænu fjárfestatengslaverðlaununum 2006.

Fjárfestatengsl eru ung grein, sérstaklega hér á landi, og í mikilli þróun. Það var gaman að að sitja þennan fund og hlera skoðanir þeirra sem vinna að því að þróa fjárfestatengsl íslenskra fyrirtækja.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Þensluhvetjandi?

Víglundur Þorsteinsson, sem lengi hefur verið í fararbroddi í íslensku atvinnulífi, hefur fengið margar góðar hugmyndir um dagana. Nú hefur hann varpað fram þeirri hugmynd að stofnaður verði auðlindasjóður, sbr. frétt Morgunblaðsins hér að neðan.

Hugmynd Víglundar er að mörgu leyti mjög áhugaverð; af hverju á íslenska þjóðin ekki að njóta auðlinda sinna á beinni hátt en áður hefur gerst. Vissulega njótum við þeirra í formi opinberrar þjónustu, sem er fjármögnuð með skattfé sem meðal annars verður til vegna auðlindanna. En hvers vegna ættum við ekki að fá arðinn beint í vasann? Þegar stórt er spurt ...!

Þó verð ég að setja eitt spurningamerki við þetta, og það er í ljósi efnahagsástandsins sem nú ríkir. Það er alveg ljóst að aðgerð af þessu tagi er þensluhvetjandi og eins og staðan er í dag, þurfum við kannski ekki alveg á því að halda. Þýðir það að hugmyndin eigi ekki rétt á sér? Alls ekki, að mínu mati má útfæra hana þannig að þegar góðæri ríki sé arðurinn ekki greiddur út heldur látinn ávaxta sig en þegar harðnar á dalnum sé uppsöfnuð upphæð greidd út. Þannig mætti ef til vill nota auðlindasjóð til þess að jafna hagsveiflurnar en þetta er afar vandasamt og því þarf að skoða þetta mál afar vandlega.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Leggur til auðlindasjóð í eigu almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga af batnandi lífskjörum

Í Morgunblaðinu í dag er frétt þess efnis að hinn mikli brottflutningur pólskra verkamanna til annarra landa sé orðinn til þess að skortur sé á vinnuafli í þessu stóra ríki í A-Evrópu. Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af því að pólskir verkamenn leita gæfunnar annars staðar, enda eru þeir ekki spámenn í eigin föðurlandi frekar en aðrir.

Sýnist sitt hverjum um straum erlendra verkamanna hingað á klakann, sumir taka því afar illa og öðrum finnst þetta hið besta mál (þess má geta að undirritaður er í síðari hópnum). Hvað sem því líður má til sanns vegar færa að sennilega hefði orðið erfitt að halda við þeim mikla hagvexti og efnahagslega uppgangi sem hér hefur verið án aðstoðar okkar erlendu vina.

Sumir hafa gagnrýnt þá staðreynd að erlendu verkafólki hafa verið greidd lægri laun en gengur og gerist hér á landi og vilja jafnvel meina að það muni verða til þess að skapa hér láglaunahagkerfi. Það er hæpið að slíkar fullyrðingar fái staðist en maður á svo sem aldrei að segja aldrei. Nú er hins vegar komin upp sú athyglisverða staða að í Póllandi ríkir skortur á vinnuafli. Þetta er gott dæmi um það hvernig dýnamík framboðs- og eftirspurnar á vinnumarkaði leiðir til hækkandi launastigs í löndum þar sem almenningur býr við mun lægri laun en t.d. hér á landi.

Pólskt verkafólk hefur eins og áður segir leitað gæfunnar utan heimalandsins, þar sem laun eru hærri og hægt er að senda fé heim til fjölskyldunnar sem hefur það betra en ella. Þá myndast skortur á verkafóllki og í raun eru ekki margar leiðir í boði til þess að mæta þeim skorti. Eina lífvænlega leiðin er að hækka launin. Þá munu eflaust einhverjir flytja heim til fjölskyldunnar og þiggja hin bættu kjör sem þar eru í boði. Vilji íslenskir athafnamenn áfram njóta þjónustu þessa verkafólks verða þeir að hækka launin og því batna kjör erlends verkafólks hér á landi einnig.

Erlent verkafólk mun aðeins leita hingað svo lengi sem lífskjör eru betri hér á landi. Lífskjör á milli landa jafnast hins vegar út þegar fólk flyst á milli í leit að bestu kjörunum (munum að lífskjör eru ekki einungis mæld í launum). Nú geri ég mér fyllilega grein fyrir því að lífskjör í Póllandi munu ekki jafnast við íslensk á næstu árum en hins vegar leiðir brottflutningur til þess að þau batna.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Blogg frábærra teiknara

Mig langar til að nota þessa bloggsíðu til að vekja áhuga fólks á áhugaverðum bloggsíðum þar sem myndlistarmenn ráða ríkjum eða kannski frekar teiknarar (illustrators). Þegar ég var við nám í Los Angeles in the eighties.... kynntist ég þessum heimi nokkuð þar sem margir kennarar skólans voru jafnframt starfandi teiknarar. Mér hefur alltaf þótt mikið til góðra teiknara koma, þar sem saman fer skemmtilegur stíll og frumlegar hugmyndir og framsetning. Fremstan á meðal jafningja tel ég Bandaríkjamanninn Brad Holland  sem hefur verið gríðarlegur áhrifavaldur í þessum geira í gegnum árin í Bandaríkjunum, hann hefur nokkrum sinnum skipt um stíl en er samt alltaf áhugaverður. Holland vakti fyrst áhuga minn með erótískum teikningum sem birtust mánaðarlega í nokkur ár í Playboy tímaritinu. Playboy hefur alltaf verið mikið griðland fyrir teiknara og flestir ef ekki allir þeir bestu hafa fengið verk birt eftir sig á síðum þess. Að lokum langar mig að benda ykkur á Drawn, sem er frábær bloggsíða. Síðan virðist vera sameiginlegt hugarfóstur hóps áastríðufullra teiknara og tilgangurinn sá að vekja athygli á efnilegum og spennandi teiknurum hvaðanæva að úr heiminum. Eftirfarandi lýsingu að finna á forsíðunni: "Drawn! site is a multi-author blog devoted to illustration, art, cartooning and drawing. Its purpose is to inspire creativity by sharing links and resources. Albert Einstein said, “The secret to creativity is knowing how to hide your sources,” but what the hell did he know anyway?The site was conceived by John, like all good ideas, while goofing off at work.” Hvet ykkur til að kíkja á þessa síðu, hún er uppfærð nánast daglega með linkum á spennandi bloggsíður, t.d. eru þarna linkar á starfandi artista hjá Disney og fleiri frábærum animation stúdíóum.
Halldor R Larusson | Head of Art Direction | GCI Iceland
halldor.larusson@gci.is

Um teygjanleika heita vatnsins

Hagfræðin er eitt það allra skemmtilegasta sem mannskepnan hefur fundið upp, að minnsta kosti að mínu mati enda eyddi ég nokkrum árum ævi minnar í að læra þessi fræði við góðan háskóla erlendis. Þess vegna las ég af athygli nýjustu bloggfærslu Egils Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Brimborgar, þar sem hann svarar athugasemd við fyrri færslu sína um Orkuveitu Reykjavíkur og heita vatnið.

Ég mæli með því að fólk lesi færslur Egils, sem og athugasemdina, en að vissu leyti má segja að bæði hafi rétt fyrir sér en einnig rangt. Þetta fer svolítið eftir hvernig litið er á málið, eða öllu heldur frá sjónarhorni hvers.

Er heitt vatn nauðsynjavara?
Verðteygni er eitt af grundvallarhugtökum rekstrarhagfræðinnar en hún er mæld með því hvernig neytendur bregðast við breytingu á verði vöru. Sé varan fullkomlega teygin breytist eftirspurnin umsvifalaust í andstæða átt við verðbreytinguna, þ.e. verð hækkar og eftirspurn dregst saman. Sé varan fullkomlega óteygin hefur verðbreyting engin áhrif á eftirspurn. Þar er yfirleitt um að ræða nauðsynjavörur, sem ekki eiga sér staðkvæmdavöru, svo sem ýmsar tegundir lyfja sem sjúklingar geta ekki sleppt því að kaupa hvernig sem verðið þróast. Þetta á þó eingöngu við um lyf sem einhver hefur einkaleyfi fyrir, þ.e. einokun ríkir, og ekki er til neitt sem getur komið í staðinn fyrir það.
 
Lítum nú á dæmið um heita vatnið. Er heitt vatn nauðsynjavara? Nei, ekki samkvæmt ströngustu skilgreiningu. Hitinn er aftur á móti nauðsynjavara en það eru til margar leiðir við að hita híbýli. Það þarf ekki nauðsynlega að leiða heitt vatn inn í hús til þess að hita þau. Hægt er að nota rafmagn til þess hita vatnið, eða jafnvel kynda með rafmagnsofnum, og ennfremur má brenna olíu eða einhverju í þeim dúr til þess að hita vatn. Annað sem gerir það að verkum að heitt vatn er ekki óteygin vara er sú staðreynd að hægt er að nota það sparlega og klæða sig vel eða leggjast undir sæng.

Teygni þrátt fyrir einokun
Einokunarstaða er frumskilyrði fyrir fullkominni óteygni en hún þarf ekki endilega að fela í sér óteygni. Með því sem að ofan stendur er ég í raun búinn að sýna fram á að þrátt fyrir að Orkuveita Reykjavíkur hafi einokunarstöðu á þeim svæðum sem hún starfar, orkufyrirtæki skipta svæðum á milli sín, getur hún ekki hækkað verð hvernig sem henni sýnist. Einhvern tímann fara neytendur að leita sér annarra leiða til þess að verða sér út um hita.

Ef við lítum svo á spurninguna um hvort bílar geti verið staðkvæmdavörur fyrir aðra bíla þá fer það allt eftir því hvernig litið er á málið. Egill færir góð rök fyrir því að bílar geti ekki verið staðkvæmdavörur fyrir aðra bíla en þetta er þó í mínum huga þó nokkuð flókið mál. Þetta fer í raun allt eftir því hver tilgangurinn með notkun er. Fyrir verktaka sem þarf að flytja mikið af verkfærum og efni getur lítil Ford Fiesta ekki komið í stað Ford F-150 pallbíls. En ef markmiðið er bara að komast á milli staða og flytja ekki neitt hlýtur það að vera? Eða hvað ....

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband