Færsluflokkur: Bloggar

Aðgát skal höfð

Það er aldrei of varlega farið í umgengni við netið eins og fram kom í fréttum RÚV klukkan 9 í morgun. Þar segir að tíundi hver Breti sem átti  í viðskiptum á netinu á síðasta ári, þ.e. keypti eitthvað í gegnum netið, hafi verið féflettur á einn eða annan hátt. Sumir hafa keypt köttinn í sekknum, þ.e. ekki fengið það sem þeir ætluðu sér á meðan aðrir hafa séð peningana hverfa eftir að hafa farið óvarlega með greiðslukorta eða heimabankaupplýsingar sínar.

Netið hefur haft ótrúleg áhrif í mannlegu samfélagi á undanförnum árum og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. En eins og með allt annað sem jákvætt er hefur þetta í för með sér að einhverjir sjá tækifæri á að fara aðeins á sveig við lögin og hagnast á því að aðrir gæta ekki að sér. Spurningin er hvort hægt sé að koma í veg fyrir slíkt athæfi eða ekki.

Að sjálfsögðu er erfitt að koma í veg fyrir gamaldags vörusvik á netinu en hvað varðar aðgang netþrjóta að persónulegum upplýsingum hlýtur það að verða eitt af stóru verkefnum næstu ára að finna öryggislausnir til þess að koma í veg fyrir að slíkar upplýsingar liggi á glámbekk.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Saga af metnaði (öllu heldur metnaðarleysi)

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Emerson hefur farið mikinn á evrópskum knattspyrnuvöllum á undanförnum árum og á glæstum ferli hefur hann m.a. spilað með þýska liðinu Leverkusen og ítölsku félögunum Roma og Juventus við góðan orðstír. Um tíma var hann jafnframt fyrirliði brasilíska landsliðsins þannig að þegar spænska stórliðið Real Madrid keypti hann má búast við að þeir hafi ætlað honum stóra hluti á næstu árum.

En það hefur farið fyrir Emerson eins og mörgum öðrum stórstjörnum sem keyptir hafa verið til spænsku höfuðborgarinnar að þeir einhvern veginn daga uppi og verða áhugalausir og metnaðarlausir. Hann hefur leikið afar illa á heimavelli í vetur og eru fylgismenn liðsins farnir að baula á hann á heimavelli. Nú herma fréttir að hann hafi gert samkomulag við knattspyrnustjóra liðsins þess efnis að leika aðeins útileiki liðsins til þess að sleppa baulið.

Þetta er til marks um metnaðarleysi leikmanns, og í raun knattspyrnustjóra líka. Hefði ekki verið nær að taka sig á og spila eins og maður?

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Stopp klukkan 10

Strandvegasiglingar voru fyrir nokkrum árum lagðar af og ein helsta mótiveringin var að landflutningar væru mun hagkvæmari, eins og flestum er í fersku minni. Menn deila reyndar enn um þetta mál og er það ekki ætlun mín að reyna að skera úr um hvort betra sé að flytja gáma á sjó eða landi.

Þeir sem ekið hafa um vegi Evrópu hafa eflaust orðið þess varir að stór hluti landflutninga fer fram að nóttu til. Þá er umferð minni en á daginn og auðveldara fyrir stóra flutningabíla að komast leiðar sinnar og að sama skapi trufla flutningabílarnir ekki umferð á daginn, sem eflaust er ærið mikil.

Æskilegt væri að slík umferð færi einnig fram á næturna hér á landi og ef marka má ferð mína norður yfir heiðar um daginn fer töluverður hluti flutningabíla um vegi landsins seint á kvöldin eða í upphafi nætur. Ég hef reyndar orðið var við þetta áður en mig grunar þó að stærstur hluti landflutninga fari fram á "álagstíma." Þetta er þó eingöngu grunur minn og ber ekki að taka sem staðreynd.

Þó er einn galli á gjöf Njarðar. Hann er sá að klukkan 10 á kvöldin hættir Vegagerðin að ryðja vegi. Þetta hefur lítið að segja á sumrin en stóran hluta ársins eru dreifbýlisvegir úti á landi illfærir og því erfitt fyrir ökumenn flutningabifreiða að treysta á að þeir eigi auðvelt með að koma leiðar sinnar.

Þetta er eitthvað sem þyrfti að taka til skoðunar.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Upplýsingaskortur í upplýsingasíma

Vegagerðin heldur úti upplýsingaþjónustu um færð og veður á vegum landsins, sem er hið besta mál en að mati undirritaðs mætti þó vanda aðeins betur til verka. Eins og ég greindi frá í síðustu færslu þurfti ég að aka til Akureyrar í síðustu viku, að kvöldlagi, og hafði áhyggjur af veðri á Holtavörðuheiðinni, enda hafði þar verið leiðindaveður fyrr í vikunni.

Hringt var í upplýsingasíma Vegagerðarinnar um veður, sími 1779, og þar fengust þær upplýsingar að á Holtavörðuheiði hefðu 5 mínútum áður verið norðanátt og vindhraði 7 metrar á sekúndu, sem jafngildir um 4 vindstigum (stinningsgolu) á gamla kvarðanum, lofthiti var um frostmark og veghiti -1 gráða.

Með þetta var lagt í hann en þegar á heiðina var komið var þar all slæmt veður svo ekki sé fastar að orði kveðið. Snjó kyngdi niður og skyggni var sama og ekkert. Til gamans hringdi ég aftur í upplýsingasímann og fékk sömu upplýsingar og áður. Eina breytingin var sú að tíminn hafði verið uppfærður sem og fjöldi bíla.

Ekkert var minnst á úrkomu, athugið að snjókoma var töluverð, sem þó ætti að áhugavert fyrir ökumenn að hafa upplýsingar um. Það finnst mér í meira lagi undarlegt.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Elska skaltu náunga þinn

Undirritaður þurfti nýlega að bregða sér norður yfir heiðar og kaus ég að fara akandi þar sem erindi mitt í höfuðstað Norðurlands krafðist þess að ég hefði bíl til ráðstöfunnar. Aksturinn var mér efni í nokkrar bloggfærslur, flestar þeirra í neikvæðum tón en eitt sá ég jákvætt og er ekki best að byrja á því góða.

Þegar ég fór yfir Holtavörðuheiðina var veður þar ekki með besta móti og sá ég þó nokkra bíla sitja fasta utan vegar. Einn þeirra hafði fest sig rækilega í skafli á suðurleið og þegar ég kom að sá ég nokkra bisa við að reyna að losa hann. Það tókst að lokum með hjálp jeppaeiganda eins sem dró bílinn úr skaflinum á þrælöflugum jeppanum en mér þótti vænt um að sjá að þegar þess gerist þörf er samkennd Íslendinga enn slík að menn stöðva og veita hver öðrum aðstoð við aðstæður sem þessar. Þeir sem að mestu leyti aka hér um í höfuðborginni bera flestir vitni um að gatnagremja (e. road rage) hefur færst í aukana.

Menn aka oft á tíðum afar glannalega og steyta síðan hnefann í þann sem ef til vill náði ekki að færa sig nógu snemma. Þetta eru fylgikvillar hins aukna hraða í samfélaginu en gott er til þess að vita að þegar út í óbyggðirnar er komið láta menn skynsemina ráða ferðinni og hjálpast að.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Sænska frjálsíþróttaundrið heldur áfram

Evrópumeistaramótið í frjálsum íþróttum innanhúss fór fram um helgina og að mínu mati stóð frábær frammistaða sænska liðsins upp úr. Svíar hafa unnið mjög markvisst að uppbyggingu frjálsíþrótta og hefur árangurinn ekki látið á sér standa. Niðurstaðan að þessu sinni varð þrenn gullverðlaun og ein silfurverðlaun og mega Svíarnir vel við una.

Náttúruundur á borð við Carolina Klüft og Stefan Holm stóðu fyrir sínu, reyndar hefur Klüft ekki tapað keppni síðan 2002, og er ég þess fullviss að hefði þrístökkvarinn frábæri Christian Olsson verið með hefðu ein gullverðlaun bæst við í sarpinn.

Starf Svíanna hefur verið til mikillar fyrirmyndar og gætum við ef til vill lært eitthvað af því hér á Íslandi.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Skemmtilegasti skákviðburður ársins

Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga 2007 verður hefst á morgun og seint á laugardagskvöld verður ljóst hvaða félag hampar Íslandsmeistaratitlinum.

Íslandsmót skákfélaga má ef til vill kalla þjóðhátíð íslenskra skákmanna. Þetta er stærsti og að margra mati, þ.m.t. undirritaðs, skemmtilegasti skákviðburður ársins. Meira en 400 skákmenn koma sama til þess að tefla og hitta vini og kunningja sem þeir hitta annars allt of sjaldan. Jafnframt er mótið oft eina tækifæri skákmanna utan af landi til þess að koma til höfuðborgarsvæðisins og setjast við taflborðið. Svo er nú alltaf bara einhvern veginn meiri sjarmi yfir liðakeppnum en einstaklingskeppnum.

Það væri ekki úr vegi að athuga hvort fjölga mætti umferðum í mótinu eða jafnvel bara að halda fleiri mót af þessu tagi.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Ys og þys út af engu?

Mikil læti hafa verið á hlutabréfamörkuðum heimsins í kjölfar þess að helsta kínverska hlutabréfavísitalan lækkaði um nær 9% í gærmorgun. Það var eins og við manninn mælt að í kjölfarið lækkuðu allar helstu vísitölur heims um 2-4% á einum degi. Þótt eitthvað hafi lækkunin í Kína gengið til baka í dag (eða nótt) á hið sama ekki við um evrópska hlutabréfamarkaði. Strax við opnun féllu markaðir áfram en nú virðist þó sem að ró sé að færast yfir og hefur fall dagsins að einhverju leyti gengið tilbaka. Í Bandaríkjunum hafa markaðir jafnað sig og eru vísitölur þar farnar að hækka á ný þótt ekki séu lokagildi mánudagsins innan seilingar.

 

Það getur verið mjög áhugavert og skemmtilegt að lesa í sveiflur sem þessar og leita ástæðna þeirra og eru niðurstöður sérfræðinga of æði misjafnar. Að mínu mati er það fréttnæmasta í þessum hiksta - ef svo má orða það - að sveiflur í Kína skuli hafa jafn víðtæk áhrif og raun ber vitni. Það sýnir svo ekki verður um villst að Kína skiptir æ meira máli á mörkuðum heimsins.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


Ekki allir á eitt sáttir

Það á ekki að þurfa að koma neinum á óvart að erlendir sérfræðingar skuli gagnrýna matsfyrirtækið Moody's fyrir að hafa veitt íslensku bönkunum hæstu mögulegu lánshæfiseinkunn. Sérstaklega í ljósi þess að mun stærri og öflugri erlendir bankar hafa lægri einkunn og ber þá helst að nefna hollenska bankann ABN Amro.

Lánshæfiseinkunn segir okkur hversu miklar líkur matsfyrirtækið telur á því að lántakandinn standi ekki við skuldbindingar sínar, þ.e. hversu miklar líkurnar eru á vanskilum. Hæsta einkunn þýðir að líkur á vanskilum eru nánast engar og lægsta einkunn þýðir að nánast öruggt er að vanskil verði.

Vissulega eru bankarnir okkar öflugir en varla svo öflugir að líkur á vanskilum eru engar. Flestir virðast þeirrar skoðunar að sérfræðingar Moody's hafi í mati sínu gert ráð fyrir að íslenska ríkið myndi verja bankanna ef í harðbakkan slær en spurningin er hvort íslenska ríkið geti það. Bankarnir eru orðnir það stórir að þeir passa í raun ekki lengur inn í hið litla íslenska hagkerfi. Þannig má færa rök fyrir því að matið sé að einhverju leyti á misskilningi byggt.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


mbl.is Greiningardeildir erlendra banka gagnrýna lánshæfismat Moody's
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til höfuðs Simon Anholt

Á vef Viðskiptablaðsins er að finna áhugaverða frétt þess efnis að Mark nokkur Ritzon, sem er prófessor í markaðsfræði, sé væntanlegur til landsins. Hann mun vera helsti gagnýnandi hins geðþekka Simon Anholt sem kom hingað á Viðskiptaþing í byrjun mánaðarins og heillaði gesti ráðstefnunnar upp úr skónum.

Anholt þessi mun vera brautryðjandi á sviði mörkunar þjóða en af frétt Viðskiptablaðsins er greinilegt að hann heillaði ekki alla og hefur því verið gripið til þess ráðs að fá til landsins mann sem á að veita okkur annað sjónarhorn á þessi mál.

Mörkun þjóða er flókið viðfangsefni og eins og með flesta teninga eru til margar hliðar á þessu málefni. Það gæti orðið mjög athyglisvert að fylgjast með framhaldi þessa máls.

Guðmundur Sverrir Þór | Head of Financial Communications | GCI Iceland | g.sverrir.thor@gci.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Færsluflokkar

Hver bloggar

GreyTeam Íslandi ehf
GreyTeam Íslandi ehf
TILRAUNABLOGG: Fyrirtækið GreyTeam Íslandi - Icelandic Communications Service, er rekstrarfélag fyrirtækja Grey Global Group - WPP á Íslandi. Félagið þjónar GCI almannatengslum (Grey Communications International Íslandi ehf.), MediaCom Íslandi ehf. (auglýsingabirtingar), erlendum systurfyrir- tækjum og viðskipta- vinum þeirra. Í heild starfa um 94.000 manns hjá samsteypunni á um 2.000 skrifstofum í u.þ.b. 110 löndum. 10 starfsstöðvar eru í Reykjavík.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nota bene

Tracking

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband